• Verk eftir Kristin G. Harðarson á Stöplinum


    14. maí til 2. ágúst 2015 verður myndverk Kristins G. Harðarsonar á Gunnfríðarstöpli fyrir framan Listasafn ASÍ við Freyjugötu 41. Verk Kristins er úr plexigleri og samsettum ljósmyndum sem teknar eru á Vörðufelli og í næsta nágrenni þess en verkið er það fimmta í röð listaverka sem sett verða á stöpulinn en hann var tekinn í notkun í október 2013. Val á listamönnum á þessum sýningarvettvangi fer þannig fram að þeir velja sjálfir eftirmann sinn á stöplinum. Stöpullinn er styrktur af Reyjavíkurborg.
  • Þormóður Karlsson - yfirlitssýning


    Þormóður Karlsson stundaði nám í San Francisco á níunda áratug síðustu aldar og átti stuttan en afkastamikinn tíma í Bandaríkjunum. Fólskuleg líkamsárás batt enda á feril hans í myndlist og hann sneri aftur til Íslands á tíunda áratugnum. Á þessari yfirlitssýningu verða fáein verk sem Móði gerði í Kaupmannahöfn áður en hann flutti til Vesturstrandar Bandaríkjanna og olíumálverk frá San Franscisco árunum ásamt fáeinum verkum sem listamaðurinn gerði eftir að hann sneri aftur til Íslands. Sýningin stendur frá 7. ágúst til 30. ágúst.