• Þór Sigurþórsson sýnir á Stöplinum - HANGS


    Verk Þórs Sigurþórssonar, Hangs, er það sjötta í röð listaverka sem sett hafa verið á stöpulinn en hann var tekinn í notkun í október 2013. Val á listamönnum á þessum sýningarvettvangi fer þannig fram að þeir velja sjálfir eftirmann sinn. Stöpullinn er styrktur af Reyjavíkurborg.
  • Feral Attraction: The Museum of Ghost Ruminants. - Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson


    Opnun Safnanótt, föstudaginn 5. febrúar kl. 19 til 24. - Sýning Bryndísar og Mark leggur út frá athugunum þeirra og gagnasöfnun er varða tengsl mannlegra og ómannlegra vera við tiltekið umhverfi. Þau velta fyrir sér hvernig þessi tengsl myndist og hvort þau endurspeglist í landslaginu sjálfu. Í þessu verkefni einbeita Bryndís og Mark sér að Lambeyrarhálsi og fjallinu Tálkna milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Þau hafa skoðað sérstaklega hóp kinda sem tók sér bólfestu á fjallinu í þrjá áratugi en var að lokum smalað saman og slátrað í lok ársins 2009 og byrjun ársins 2010. Spurningar um tilverurétt dýra og hvað liggur á bak við lög og reglur settar fyrir mismunandi dýrategundir leiðir rannsókn þeirra. Með sýningunni í Listasafni ASÍ vilja þau skapa m.a. umræðu um flokkunarkerfi mannsins þar sem sum dýr teljast villt, önnur búfénaður og enn önnur gæludýr. Í framhaldi af því vilja þau skoða tengls milli þessara dýra og þess umhverfis sem þau velja sér svo og hvernig samskipti okkar mannanna við þessi dýr mótast af þessari hugmyndafræði.
  • HULDA RÓS GUÐNADÓTTIR – KEEP FROZEN 4. partur


    Sýningaropnun Safnanótt, föstudaginn 5. febrúar kl. 19 til 24. - Gjörningur löndunarmanna úr Reykjavíkurhöfn á Safnanótt Í tilefni af opnun einkasýningar Huldu Rósar Guðnadóttur í Ásmundarsal Listasafns ASI munu löndunarmenn úr Reykjavikurhöfn flytja gjörning á Safnanótt sem ná mun frá höfninni og í gegnum miðbæinn alla leið upp á hæðina og inni safnið. Þeir verða áberandi í vinnugöllunum sínum og gestum Safnanætur er boðið að fylgja löndunarmönnum frá Grandabryggju þar sem þeir byrja klukkan 19 og upp í safn. Undir vaskri verkstjórn Sigga verkstjóra og Svavars eiganda Löndunar ehf mun stór hópur löndunarmanna ganga með tæplega eins tonna þungt net frá bakkanum og upp í safn og koma því þar fyrir sem fundnum skúlptúr af sjávarbotni. Netið fannst á sjávarbotni fyrir skömmu eftir að hafa slitnað af frystitogaranum Vigra og velkst um undir ágangi sjávar í heilt ár. Sýningin er fjórði hluti af Keep Frozen sýningarröð listamannsins en um þessar mundir er þriðji hlutinn til sýnis í 500m2 sýningarrými Kunstkraftwerk í Leipzig í Þýskalandi þar sem löndunarmenn brugðu sér í skó listamanna og fluttu 48 tíma gjörning í janúar við miklar vinsældir gesta frá Leipzig sem og Berlín. Í tilefni af gjörningnum á Safnanótt kemur blaðamaður frá þýska ríkisútvarpinu til landsins en til stendur að gera klukkutíma langan útvarpsþátt um Keep Frozen verkið í þýska menningarútvarpinu. Gjörningurinn er gerður mögulegur fyrir góðvilja og stuðning frá Löndun ehf og Ögurvíkur ehf ásamt styrkjum frá Myndlistarsjóði, Nordic Culture Fund og Nordic Culture Point. KEEP FROZEN 4. partur er innsetning í blandaða miðla og samstarfsgjörningur sem unninn er af myndlistarmanninum Huldu Rós Guðnadóttur. Verkið er unnið út frá hugleiðingum um sögu Ásmundarsals sem sýningarstaðs fyrir málverk og sögu safnsins sjálfs sem málverkasafns í eigu verkamanna. Alþýðusamband Íslands heldur upp á aldarafmæli sitt árið 2016 og þar sem safnið er í eigu sambandsins verður verkið framsett og unnið í samstarfi við verkamenn í Reykjavíkurhöfn sem átti einmitt aldarafmæli árið 2015. Sýningin er sú fjórða í röðinni í Keep Frozen sýningarröðinni og í henni koma ýmsir þræðir saman úr fyrri sýningum.