• Listasafn ASÍ


    Listasafn ASÍ hefur flutt starfsemi sína í hús Alþýðusambands Íslands, Guðrúnartúni. Undanfarna tvo áratugi hefur safnið verið til húsa í Ásmundarsal við Freyjugötu, en húsið var selt vorið 2016. Við söluna varð mikil breyting á starfsemi safnsins og var þá ákveðið að rifja upp grunngildin, endurskoða starfsaðferðirnar og móta nýja stefnu. Rekstrarstjórn safnsins samþykkti nýverið áætlun til fimm ára þar sem lögð er áhersla á að kaupa markvisst ný verk inn í safneignina og efla sýningarhald í samstarfi við önnur söfn og samtök víða um land. Skipulögð verður tvíhliða sýningardagskrá, annars vegar á nýjum verkum sem valin hafa verið til kaups og hins vegar á eldri verkum í safneigninni. Lögð verður sérstök áhersla á samvinnu við skóla í tengslum við sýningarnar. Kallað er eftir tillögum frá listafólki sem vill koma til greina við val á verkum til innkaupa og til sýningarhalds næsta haust. Hægt er að skila inn tillögum til miðnættis 10. maí. Eyðublað og nánari upplýsingar má nálgast með því að smella á titilinn hér fyrir ofan.