25. January 2018

Kallað eftir tillögum frá myndlistarfólki

Listasafn ASÍ auglýsir eftir tillögum frá listafólki sem vill koma til greina við val á verkum til innkaupa fyrir safnið og til sýningarhalds á tveimur stöðum á landinu. Listráð safnsins fer yfir allar tillögur og velur listamann/listhóp til að kaupa af verk fyrir um 2 milljónir króna. Þetta er í annað sinn sem safnið kallar eftir tillögum frá listafólki. Árið 2017 var óskað eftir tillögum í fyrsta sinn við góðar undirtektir og í ár verður sami háttur hafður á og valinn einn listamaður/listhópur úr innsendum tillögum. Á næsta ári – 2019 - er ætlunin að kalla eftir tillögum að nýju. Þeir sem sendu inn tillögur í fyrra eru beðnir um að endurnýja umsóknir sínar og senda þær inn að nýju jafnvel þó að um sömu verk sé að ræða. Auk kaupa á verkum verður þeim sem fyrir valinu verður boðið að halda sýningu á tveimur stöðum á landinu. Safnið stendur straum af öllu sem viðkemur sýningarstaðnum, flutningaskostnaði, tryggingum, vinnu listamannsins, ferðum og uppihaldi. Vinna listamannsins felst m.a. í uppsetningu sýninganna, listamannaspjalli, leiðsögn og móttöku skólahópa. Greiðslur taka mið af Framlagssamningi SÍM frá 2015. Ekki verður um að ræða greiðslu fyrir framleiðslukostnað listaverka fyrir sýningarnar (að undanskildum efnisstyrk þar sem það á við) og verkin verða áfram í eigu viðkomandi að undanskildum þeim sem safnið kaupir. Áhugasamir er beðnir um að senda tillögur sínar á netfangið listasi@centrum.is eigi síðar en á miðnætti mánudaginn 12. febrúar 2018. Umsóknir skulu innihalda eftirtalin fylgigögn (þ.e. fylgiskjöl með tölvupósti): 1 - Ferilskrá. (þ.m.t. upplýsingar um nafn, kennitölu, heimilisfang, símanúmer og netfang). 2 - Hugleiðing/þankar (hámark 500 orð). 3 - Sýnishorn af allt að 5 verkum sem koma til greina með stuttum skýringartexta fyrir hvert verk (hámark 200 orð hver). Ath. virða ber hámarksfjölda tillagna. Hafa ber innkaupastefnu safnsins í huga (sjá hér að neðan) við val á tillögum til sendingar. Opnað fyrir umsóknir: 25. janúar Skilafrestur tillagna: 12. febrúar 2018 Niðurstöður kynntar: Fyrir miðjan mars 2018 Nýjar áherslur hjá Listasafni ASÍ Í byrjun árs 2017 samþykkti rekstrarstjórn safnsins áætlun til fimm ára þar sem lögð er áhersla á að kaupa ný verk markvisst inn í safneignina og efla sýningarhald í samstarfi við aðrar stofnanir og samtök víða um land. Skipulögð verður tvíhliða sýningardagskrá, annars vegar sýning á nýjum verkum sem valin hafa verið til kaups og hins vegar kynning á eldri verkum í safneigninni, en þar er notast við krafta listafólks á ýmsum sviðum. Lögð verður sérstök áhersla á samvinnu við skóla í þeim landshluta sem sýningarnar fara fram. Innkaupastefna Listasafns ASÍ Innkaupastefna safnsins tekur mið af því menntunar- og miðlunarátaki sem safnið hefur nú ráðist í með sýningarhaldi víða um land. Valin verða og keypt inn ný verk þar sem viðfangsefni og/eða miðill endurspeglar tíðarandann með afgerandi hætti. Listráð Listasafns ASÍ Listráð Listasafns ASÍ 2017-18 skipa sýningarstjórarnir Dorothée Kirch og Heiðar Kári Rannversson auk safnstjóra Elísabetar Gunnarsdóttur sem jafnframt er formaður. Listráðið er skipað til tveggja ára í senn og er rekstrarstjórn safnsins til ráðuneytis um innkaupastefnu og val á listafólki. Listasafn ASÍ var stofnað árið 1961. Safnið er eign Alþýðusambands Íslands og starfar samkvæmt reglugerð samþykktri af miðstjórn þess. Iðnrekandinn og bókaútgefandinn Ragnar Jónsson í Smára lagði grundvöllinn að listasafninu með því að gefa ASÍ málverkasafn sitt – um 120 myndir – eftir marga af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu. Listasafn ASÍ hefur alla tíð starfað með þetta að leiðarljósi og hefur m.a. sérhæft sig í myndlistarsýningum sem settar eru upp á vinnustöðum og í stofnunum víða um land. Safnið hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun þess fyrir tæpum sextíu árum og geymir nú um 4000 verk. Frekari upplýsingar veitir: Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri Listasafns ASÍ Guðrúnartúni 1 105 Reykjavík +354 868 1845 og listasi@centrum.is www.listasafnasi.is

20. January 2018

Hlutastarf hjá safninu laust til umsóknar

Listasafn ASÍ leitar að fjölhæfum og hugmyndaríkum einstaklingi til að sinna verkefnum hjá safninu í hlutastarfi (um 20% starfshlutfall). Vinnutími er sveigjanlegur samkvæmt samkomulagi. Starfinu geta fylgt ferðalög innanlands. Verkefni starfsmanns felast m.a. í skráningu og umsjón verka sem safnið varðveitir, vinnu við sýningar á vegum safnsins, uppfærslu heimasíðu og samfélagsmiðla, aðstoð við fræðsluverkefni á vegum safnsins auk annarra tilfallandi verkefna. Verkefnin eru unnin í samstarfi við safnstjóra og annað lausráðið starfsfólk og samstarfsaðila. Listasafn ASÍ var stofnað árið 1961. Safnið er eign Alþýðusambands Íslands og starfar samkvæmt reglugerð samþykktri af miðstjórn þess. Iðnrekandinn og bókaútgefandinn Ragnar Jónsson í Smára lagði grundvöllinn að listasafninu með því að gefa ASÍ málverkasafn sitt – um 120 myndir – eftir marga af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu. Listasafn ASÍ hefur alla tíð starfað með þetta að leiðarljósi og hefur m.a. sérhæft sig í myndlistarsýningum sem settar eru upp á vinnustöðum og í stofnunum víða um land. Safnið hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun þess fyrir tæpum sextíu árum og geymir nú um 4000 verk. Frá 2017 er unnið eftir fimm ára áætlun þar sem lögð er áhersla á að kaupa markvisst ný verk inn í safneignina og efla sýningarhald í samstarfi við önnur söfn og samtök víða um land. Skipulögð verður tvíhliða sýningardagskrá, annars vegar á verkum sem valin hafa verið til kaups og hins vegar kynning á eldri verkum í safneigninni í samvinnu við skóla á viðkomandi svæði. Starfssvið: - Vinna með öðrum að skráningu og umsjón með safneigninni - Uppfærsla heimasíðu og upplýsinga á samfélagsmiðlum - Vinna við sýningar á vegum safnsins - Vinna við fræðsluverkefni á vegum safnsins - Þátttaka í stefnumótun og áætlanagerð Menntunar- og hæfniskröfur: - Háskólamenntun sem nýtist í starfi s.s. á sviði listfræði, myndlistar- og/eða safnafræði - Viðeigandi þekking og reynsla af notkun internetmiðla í kynningarskyni - Áhugi og þekking á samtímalist og íslenskri listasögu - Sjálfstæður, traustur og hugmyndiaríkur starfskraftur - Sveigjanleiki og lipurð í mannlegum samskiptum - Gott vald á íslensku og ensku og færni til að miðla upplýsingum í ræðu og riti Laun samkvæmt viðeigandi kjarasamningi. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Nánari upplýsingar um starfið veitir Elísabet Gunnarsdóttir, safnstjóri í síma 868 1845 og listasi@centrum.is. Umsóknarfrestur er til og með 5. febrúar n.k. Umsókn um starfið þarf að fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni viðkomandi til að gegna starfinu rökstudd.

19. April 2017

Nýjar áherslur í starfsemi Listasafns ASÍ

Undanfarna tvo áratugi hefur Listasafn ASÍ verið til húsa í Ásmundarsal við Freyjugötu, en húsið var selt vorið 2016. Við söluna varð mikil breyting á starfsemi safnsins og var þá ákveðið að rifja upp grunngildin, endurskoða starfsaðferðirnar og móta nýja stefnu.

20. January 2015

Orðsending frá Listasafni ASÍ

Við viljum vekja athygli á því, að ekki verður unnt að sækja um sýningaraðstöðu í safninu vegna sýninga á árinu 2016. Tekið verður tekið við umsóknum fyrir árið 2017 í byrjun næsta árs. F.h. listráðs Listasafns ASÍ Kristín G. Guðnadóttir, forstöðumaður

29. October 2014

Art Lover's Guide to Reykjavik: The 10 Best Galleries & Spaces: Listasafn ASÍ eitt af 10 bestu galleríum í Reykjavík skv. Art Lovers Guide.

Housed in a charming 1930s building designed by Icelandic sculptors Ásmundur Sveinsson and Gunnfríður Jónsdóttir, ASÍ Art Museum was established in 1961 when entrepreneur, book publisher and arts patron Ragnar Jónsson donated over 100 artworks to the gallery by some of Iceland’s most important artists, like abstract expressionist Nína Tryggvadóttir and painter Jóhannes Sveinsson Kjarval, in a mission to bring art to the masses. Today ASÍ Art Museum is dedicated to displaying its collection of 20th century art alongside championing contemporary art by national and international artists and has recently played host to a multi-national exhibition featuring works by four diverse artists from Iceland, Japan and the US, as part of the 2014 Reykjavik Art Festival.