19. apríl 2017

Nýjar áherslur í starfsemi Listasafns ASÍ

Undanfarna tvo áratugi hefur Listasafn ASÍ verið til húsa í Ásmundarsal við Freyjugötu, en húsið var selt vorið 2016.  Við söluna varð mikil breyting á starfsemi safnsins og var þá ákveðið að rifja upp grunngildin, endurskoða starfsaðferðirnar og móta nýja stefnu.

Rekstrarstjórn safnsins samþykkti nýverið áætlun til fimm ára þar sem lögð er áhersla á að kaupa markvisst ný verk inn í safneignina og efla sýningarhald í samstarfi við önnur söfn og samtök víða um land.  Skipulögð verður tvíhliða sýningardagskrá, annars vegar á nýjum verkum sem valin hafa verið til kaups og hins vegar á eldri verkum í safneigninni.  Lögð verður sérstök áhersla á samvinnu við skóla í tengslum við sýningarnar. 

Auglýst hefur verið eftir tillögum frá listafólki sem vill koma til greina við val á verkum til innkaupa og til sýningarhalds næsta haust.  Frestur til að skila inn tillögum rennur út að miðnætti 10. maí.

Ný innkaupastefna safnsins hefur verið mótuð og tekur hún mið af því menntunar- og miðlunarátaki sem safnið ræðst nú í með sýningarhaldi víða um land.  Valin verða og keypt inn ný verk þar sem viðfangsefni og/eða miðill endurspeglar tíðarandann með afgerandi hætti.  Ekki verður notast við afmarkað þema fyrsta árið en árin þar á eftir verður umið með þemu, eitt fyrir hvert ár.

Nýtt listráð Listasafns ASÍ skipa listfræðingarnir og sýningarstjórarnir Dorothée Kirch og Heiðar Kári Rannversson auk forstöðumanns safnsins Elísabetar Gunnarsdóttur.  Listráðið er skipað til tveggja ára í senn og er rekstrarstjórn til ráðuneytis um innkaupastefnu og val á listafólki.

Auk sýningarhalds og kaupa á nýjum verkum er unnið að því að endurskipuleggja geymslur safnsins. Til greina kemur að byggja geymslurnar þannig upp að öll verkin sem þar eru geymd verði aðgengileg fagfólki og öllum almenningi með reglulegum opnunartíma og leiðsögn.

Til baka