07. febrúar 2009 til 01. mars 2009

Þuríður Sigurðardóttir - Á milli laga

Á sýningunni má líta nokkrar seríur málverka sem Þuríður hefur unnið að undanfarin ár, auk þrykkverka sem gerð eru með hrápappír, myndbands- og hljóðverks. Leiðarstef verkanna er rannsókn á þeirri tilfærslu sem listamaðurinn upplifir í einrúmi, frá hlutlægri skynjun umhverfisins til markvissrar leitar og hlutdrægs vals á vinnustofunni. Í lagskiptum málverkum byggir Þuríður upp ofurraunsæislegan myndheim sem byggir á sígildri sjónhverfingu miðilsins. Í öðrum miðlum fer hún öfganna á milli í rannsókn á beinni miðlun eigin upplifunar í hljóði og mynd annars vegar og manngerðri túlkun sinni í pappír hins vegar. Verkin eiga það sameiginlegt að byggja á hugleiðingum um eðli málverks og hafa þróast þaðan yfir í aðra miðla. Annars vegar hefur Þuríður skoðað samband manns og hests, bæði í rannsóknum sínum á dýrinu sjálfu og síðan þeirri upplifun sem fylgir samneyti við hesta. Hins vegar er viðfangsefni Þuríðar gróður, til dæmis einstök náttúra mýrarfláka á Suðurlandsundirlendinu sem hefur undanfarna áratugi átt undir högg að sækja þegar land hefur verið ræst fram og þurrkað.

Til baka