15. febrúar 2014 til 09. mars 2014

Svavar Guðnason, Magnús Helgason, Úlfur Karlsson og Úlfur Eldjárn - A Hard Days Night

A HARD DAYS NIGHT, er önnur sýningin úr sýningarröðinni SAMSPIL en þar er komið á stefnumóti ungra listamanna við gamla meistara. Í þetta sinn hittir expressíonistinn Svavar Guðnason þá Magnús Helgason og Úlf Karlsson myndlistarmenn og tónlistarmanninn Úlf Eldjárn. Umfjöllun Djöflaeyjan: http://www.ruv.is/myndlist/a-hard-days-night Viðtal við Magnús Helgason: http://www.ruv.is/myndlist/treplotur-med-fortid Ymfjöllun í Víðsjá: http://www.ruv.is/allarfrettir/V%C3%AD%C3%B0sj%C3%A1?page=4

 


A HARD DAYS NIGHT, er önnur sýningin úr sýningarröðinni SAMSPIL en þar er komið á stefnumóti ungra listamanna við gamla meistara.
Í þetta sinn hittir expressíonistinn Svavar Guðnason þá Magnús Helgason og Úlf Karlsson myndlistarmenn og tónlistarmanninn Úlf Eldjárn.
Verkin á sýningunni eru sprottin úr lífstilfinningu listamannanna og þau fylgja hinni sterku rödd ímyndunaraflsins og hugans sem hefur verið frelsaður af hefðbundnum, viðteknum og stöðnuðum skoðunum.
Sýningarstjóri er Kristín G. Guðnadóttir

Svavar Guðnason (1909-1988) var einn helsti frumkvöðull abstraktlistar í íslenskri myndlist. Hann starfaði í Danmörku á stríðsárunum og var einn af þeim róttæku og nýskapandi listamönnunum sem kenndir hafa verið við Cobra- hreyfinguna. Sýning hans á sjálfsprottnum abstraktverkum sem haldin var í Reykjavík 1945 braut blað í íslenskri listasögu. Áhrifum verkanna á íslenskt listalíf var líkt við að loftsteini hefði lostið niður í Reykjavík, slíkur var sprengikraftur þeirra. Nú gefst kostur á að skoða verk Svavars í samhengi við verk samtímalistamanna. Verk hans má finna í helstu söfnum Danmerkur, eins og og mörgum einkasöfnum í Evrópu sem einkum sérhæfa sig í list Cobra hreyfingarinnar.

Magnús Helgason (1977) stundaði nám í myndlist á árunum 1997 - 2001 í AKI (Akademie voor beeldende kunst) í Enschede í Hollandi.
Frá því að námi lauk hefur Magnús helgað krafta sína myndlist, ljósmyndun og ópraktískri kvikmyndagerð. Hann hefur haldið málverkasýningar hérlendis sem erlendis. Magnús hefur sýnt kvikmyndir við tónlist ýmissa tónlistarmanna og hljómsveita s.s. Jóhanns Jóhannssonar, Kiru Kiru og Apparat Organ Quartet og haldið þannig kvikmyndasýningar í yfir 40 borgum víða um heim. Meðal staða sem hann hefur sýnt kvikmyndir sínar á eru Pompidou í París, Kiasma í Helsinki, Konunglega listasafnið í Kaupmannahöfn og Bozar center for fine arts í Belgíu. Magnús hefur einnig kennt ópraktíska kvikmyndagerð og hreyfimyndagerð við Listaháskóla Íslands.

Úlfur Karlsson (1988) er menntaður við Kvikmyndaskóla Íslands, Myndlistarskólann á Akureyri, Listaháskólann í Vilnius og útskrifaðist frá Valand, Listaháskólanum í Gautaborg 2012.
Verk hans hafa verið sýnd í Reykjavík, Gautaborg, Aþenu og Íslafirði og stuttmyndir eftir hann hafa verið sýndar í New York otg Svíþjóð.

Úlfur Eldjárn (1976) Úlfur Eldjárn er tónskáld, hljóðfæraleikari og upptökustjóri sem hefur komið víða við á tónlistarferlinum.
Hann hefur samið töluvert af tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp, leikhús, m.a. Hamlet í Borgarleikhúsinu. Hann er einnig meðlimur í hinni rómuðu hljómsveit Apparat Organ Quartet. Úlfur hefur gefið út þrjár hljómplötur undir eigin nafni: Yfirvofandi (2009), hina tilraunakenndu Field Recordings: Music from the Ether (2011) og Ash (2013) sem inniheldur tónlist úr heimildarmyndinni Ösku. Þessa dagana er Úlfur að leggja lokahönd á gagnvirkt tónverk, Strengjakvartett nr. ∞, þar sem hlustendur geta farið á netið og búið til sína eigin útgáfu af verkinu. Síðar á árinu er einnig væntanleg ný breiðskífa með efni sem hann frumflutti á síðustu Iceland Airwaves hátíð við mikinn fögnuð. Úlfur lauk B.A. gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands vorið 2013.

Á opnuninni, 15. febrúar kl. 16:00, verður Úlfur Eldjárn með tónlistargjörning og verður hljóðverkið skilið eftir á sýningunni á meðan á henni stendur.

www.listasafnasi.is

http://magnushelgason.com/
www.royneland.com/ulfur
www.ulfureldjarn.com

 
 

Til baka