25. maí 2013 til 23. júní 2013

Augliti til auglits - Portrett í Listasafni ASÍ

Á sýningunni eru portrett eftir eldri listamenn sem og samtímalistamenn, þekkta og lítið þekkta. Þar eru sýnd öndvegisverk og önnur sem hafa lifað skuggatilveru í geymslum og skúmaskotum, hefðbundin hvítflibbaportett og samtímalegir útúrsnúningar. Verkin sýna öll nafngreinda einstaklinga í ýmsum birtingarmyndum; málverkum, teikningum, þrívíðum verkum, myndbandsverkum og hljóðverkum. Sýningarstjórar eru Kristín G. Guðnadóttir og Steinunn G. Helgadóttir

Á sýningunni Augliti til auglitis eru alls um 80 portrett eftir eldri listamenn  sem og samtímalistamenn,  þekkta og lítið þekkta.  Þar eru sýnd öndvegisverk og önnur sem hafa lifað skuggatilveru í geymslum og skúmaskotum, hefðbundinhvítflibbaportett og samtímalegir útúrsnúningar. Verkin sýna flest nafngreinda einstaklinga í ýmsum birtingarmyndum; málverkum, teikningum, útsaumsmyndum, þrívíðum verkum, myndbandsverkum veggmálverki og hljóðverki.

Viðfangsefnin koma úr öllum áttum og sum eiga sér aðeins huglæga tilvist en þegar verkin eru skoðuð kemur líka í ljós að listamenn gera gjarnan myndir hver af öðrum.

Eitt af markmiðum sýningarinnar er að greina og afhjúpa hina eldgömlu myndhefð, portrettið, og skoða hvernig hún virkar í samtímanum. Jafnframt er með óvæntum samstillingum og nýstárlegum sjónarhornum leitast við að draga fram kjarnann í þeirri frásögn sem hvert verk býr yfir; sálfræðina, fáráðleikann, kynjahlutverkin.

Þegar við stöndum frammi fyrir mynd af einstaklingi veltum við því oft fyrir okkur hver gerði myndina og undir hvaða kringumstæðum.  Gerandinn er nálægur en þó ósýnilegur;  samspil viðfangsefnisins og listamannsins er hluti af portrettinu. 

Þriðji aðilinn sem kemur að verkinu er svo áhorfandinn, sem skoðar verið út frá sjálfum sér og sínum reynsluheimi því  augljóslega skynjaði sá sem skoðaði gamalt fílabeinsportrett í Tékklandi fyrir 26000 árum það öðru vísi en við gerum í dag.

Að lokum hafa svo portrettin áhrif hvert á annað  þegar þau eru komin í samhengi og viðfangsefnin verða þáttakendur  í spunaverki. Þar með er fjórði áhrifavaldurinn er kominn til sögunnar, spennan sem myndast milli verkanna. 

Sýningin Augliti til auglitis hverfist um þetta fernt; fyrirmyndina, listamanninn, áhorfandann og samspil verkanna í sýningarrýminu.

Portrett er oftast skilgreint sem málverk, ljósmynd, höggmynd eða önnur listræn túlkun á persónu þar sem áhersla er lögð á andlit viðfangsefnisins sem iðulega horfir beint framan í áhorfandann og nær þannig að tengjast honum.

Bókmenntirnar eiga líka sínar mannlýsingar og er þá fyrirmyndinni lýst með orðum. Þessi aðferð opnar möguleika á að kafa undir yfirborðið og tilfinningar, hugsanir, bakgrunnur og langanir „fyrirsætunnar“   verða sýnileg. 

Þannig eru portrett myndir gerðar af og um einstaklinga. Þau geta tekið á sig ýmsar birtingarmyndir og listamenn, jafnt atvinnufólk sem amatörar hafa í þúsundir ára gert myndir af fyrirfólki, vinum, dýrum og fjölskyldumeðlimum.

 

Elstu mannamyndir sem vitað er um eru sjálfsmyndir af höndum Neanderthalsfólks á hellisveggjum á norðurströnd Spánar. Þessar myndir eru taldar vera um 37.300 ára gamlar. Lófa hefur verið þrýst að veggnum og listamaðurinn úðað litarefni yfir svo eftir verður far af hendinni (spurning hvort þetta eru ekki líka fyrstu grafíkþrykkin). 

Eitt elsta hefðbundna portrett sem vitað er um fannst í Tékklandi og var skorið út með flintu í fílabein fyrir um 26 þúsund árum. Myndin er svo lítil að hún kemst fyrir í lófanum og einmitt þannig hlýtur listamaðurinn að hafa haldið á henni. Möndlulaga augun og spékoppurinn sem örlar á leiða hugann að listaverkum frá tuttugustu öldinni.

Víðar má finna teikningar og málverk af dýrum og fólki í hellum og t.d. í Lascaux eru um tvö þúsund myndir sem skiptast í dýramyndir mannamyndir og óhlutbundin verk.  Myndirnar eru taldar vera næstum 20.000 ára og um 900 af þeim eru listilega gerð portrett af dýrum, t.d.  hófdýrum,  hjartardýrum, svínum, kattardýrum  og fuglum en aðeins hafa fundist þarna örfáar myndir af mönnum. Dýramyndirnar iða af lífi en það kemur á óvart hve  lítil áhersla virðist hafa verið lögð á  mannamyndirnar. Það er líka umhugsunarvert að engar teikningar eru þarna af hreindýrum sem þó eru talin hafa verið aðalfæða þessa fólks.

Spurningin um samband listamannsins og viðfangsefnisins er áleitin og hvers vegna voru þessar myndir málaðar?

 

Á árunum  200-800 náði Mochefólkið í Perú mikilli færni í portrettgerð í fagurlega mótuðum leirkerjum og eru fyrirsæturnar prestar, stríðshetjur og önnur fyrirmenni. Sérstök áhersla var lögð á hárgreiðslu og höfuðbúnað ásamt líkams- og andlitsskreytingu. Þessar vel til höfðu fyrirmyndir voru allt karlar.  Enga konu er að finna á krukkunum.

 

Portrett sem fundust í egypskum gröfum í Fayumeru eru líka með þeim elstu í sögunni og mannamyndir voru í hávegum hafðar hjá forngrikkjum og rómverjum sem voru kröfuhörð módel og heimtuðu nákvæmar myndir.

 

Snemma á miðöldum var maðurinn túlkaður á fremur einfaldan hátt  en breyting varð á því seint á miðöldum. Mikið hefur verið rætt og ritað um frægasta portrettmálvek  listasögunnar, Monu Lisu eftir Leonardo da Vinci.  Myndin, sem er máluð með olíu á við, var meira en fjögur ár í vinnslu (ca 1503-1507) og er máluð í 40 mismunandi lögum, hvert lag þynnra en tveir míkrómetrar,  það er fimmtíu sinnum þynnra en mannshár.

Talið er að fyrirmyndin sé Lisa Gherardini og Mona er stytting af madonna, sem leiðir hugann að óteljandi portrettum af guðsmóðurinni.

 

Hið hefðbundna portrett eins og við hugsum okkur það í dag er  mynd í yfirstærð af valdamiklum, oft opinberum,  einstaklingi þar sem staða hans er tíunduð opinberlega. Jafnt vammlausir sem vafasamir þjóðarleiðtogar virðast veikir fyrir þess háttar kynningu þar sem þeir eru sýndir upphafnir, fegraðir, blíðir, sterkir og  föðurlegir. Konur hafa líka notfært sér sér þetta en ekki í jafn ríkum mæli og þær eru sjaldan móðurlegar á þessum myndum.  

Skopmyndir eru oft notaðar í þveröfugum pólitískum tilgangi, það liggur í  eðli þeirra að hæðast að fyrirmyndinni.

 

Þegar ljósmyndin var fundin upp varð hún næstum strax áhrifamikill kafli í nútímasögu portrettsins því þetta varð fljótlega tiltölulega ódýr leið til að fá myndir af sjálfum sér og fjölskuyldumeðlimum.

Ljósmyndastofur spruttu upp út um allt og elstu mannamyndirnar bera keim af 30 sekúndna opnunartíma linsunnar og leifar af málverkahefðinni.

Fyrirsætunni  var oftast stillt upp við einfaldan bakgrunn, ljósið kom frá glugga að ofan og speglum eftir því sem hægt var. Þegar tæknin þróaðist fóru ljósmyndarar út úr stúdíóinu og tóku myndir á götum, í náttúrunni og á vígvöllum.  Í dag á portrettljósmyndin sér margar hliðar og er ómissandi  við  sérstök tækifæri svo sem fermingar og brúðkaup.  Fréttamyndin grípur einstaklinginn í augnablikinu og sýnir okkur sannleika sem alveg eins getur verið lygi. Tískuljósmyndir eru líka myndir af einstaklingum, stundum nafngreindum.  Þær eru oft stílfærðar og uppstilltar .

Veraldarvefurinn geymir urmul mynda, sérstaklega ljósmynda og eru stór hluti þessara mynda  portrett. Ekki eru mörg ár síðan Facebook ruddi sér til rúms með öllum sínum myndum en nafnið á síðunni vísar beinlínis til andlitsins.

 

Íslensk listasaga er stutt og við eigum ekki til orð sem svarar til orðsins portrett enda ekki mikið um pantanir á mannamyndum.

“Myndir af íslenskum mönnum eru engar til eldri en frá sautjándu öld og margar þær elstu vafalaust  verk erlendra manna.” segir Halldór J. Jónsson í bók um Sigurð Guðmundsson eldri.

Mannamyndir urðu fyrst algengar hér á þriðja og fjórða tug tuttugustu aldarinnar, bæði tví- og þrívíðar. Fyrsta portrettið af embættismanni er af Jóni Helgasyni síðar biskup, málað af Ásgrímí Jónssyni 1907 og sennilega málaði hann hann líka  fyrsta opinbera portrettið af konu, Stefaníu Stefánsdóttur sem er málað árið 1910.

Jón Stefánsson og Gunnlaugur Blöndal urðu fulltrúar erlendrar portretthefðar hér á landi og vel stæðir Reykvíkingar sóttu í að panta portrett hjá Gunnlaugi.

Jóhannes S. Kjarval skipar sérstakan sess í gerð mannamynda á Íslandi. Málaði hann og teiknaði hvern sem var á sinn hátt og oft langt út fyrir ramma veruleikans og inn á sjálft viðfangsefnið, hann lagði sig fram um að lýsa því hvernig persónan var og hvaðan hún kom. Frá fimmta áratugnum og út tuttugustu öldina hefur fjöldi listmálara fengist við að mála potrett og má sjá sýninshorn af verkum nokkurra þeirra.

Á sýningunni “Augliti til auglitis” eru myndir af jafnt þekktum einstaklingum sem óþekktum.  Í Arinstofu situr Diter Roth, en hann var tíður gestur í þessu húsi á sjöunda áratugnum og sat þá gjarnan einmitt þarna. Á ganginum niðri er nokkur fjöldi teikninga af Ragnari Kjartanssyni, eftir fjölmarga vini hans m.a.  góðvin hans Dieter, en Ragnar hafði um skeið vinnustofu sína hér í húsinu og stýrði jafnframt Myndlistarskólanum í Reykjavík sem einnig var hér í húsinu. Þessar myndir bjóða upp á skemmtilegan samaburð á því hversu ólík túlkun hvers listamanns er á sama viðfangsefninu.

Fulltrúar hins opinbera portretts eru m.a. fyrrum félagsmenn í Félagi bókagerðamanna; prentarar og setjarar málaðir á kostnað síns félags af þekktum og minna þekktum listmálurum, til að minnast þeirra sem góðra félaga og þakka þeim vel unnina störf. Á sýningunni má einnig sjá nokkra vel þekkta rithöfunda, en málverk þessi tilheyrðu stofngjöf Ragnars í Smára sem var útgefandi þeirra og vinur. Það er haft fyrir satt að Þórbergur Þórðarson hafi verið mjög óánægður með stærðina á nefi sínu og framkvæmt vísindalega mælingu sem sýndi fram á að nefið var of stórt, en listmaðurinn Jón Engilberts var þó ekki tilbúinn til að breyta myndinni. Portrettið er sköpunarverk listamannsins og fyrirmyndin á ekki að blanda sér í túlkun hans.

Á sýningunni eru mun fleiri portrett af körlum en konum sem speglar raunveruleikann, mikill meirihluti portrettmynda síðustu aldar voru myndir af karlmönnum í ábyrgðarstöðum.  Ein fegursta portrettmyndin af konu frá síðutu öld er bronsmynd Sigurjóns Ólafssonar af móður sinni, en fyrir þetta verk fékk hann virt verðlaun, Eckerbergsverðlaunin, í Kaupmannahöfn 1939.

Portrett þessarar aldar eru afar fjölbreytileg og sprengja ramma hefðbundinnar túlkunar, efnisnotkunar og val viðfangsefnis tuttugustu aldarinnar.  Sem dæmi má nefna að viðfangsefni Sigríðar Melrósar er brotamaður, Birgir Andrésson notar orð til að lýsa viðfangsefni sínu, Anna Hallin fjallar um konur á breytingarskeiði , Olga Bergmann skapar framandlegar jurtir sem þó eiga rætur í íslenskum veruleika og Sigga Björg málar táknmynd græðginnar beint á vegg Gryfjunnar og Díana Karlsdóttir notar upptöku af hjartslætti flóttadrengs til að draga upp mynd af stöðu ungra flóttamanna í Noregi.

Á sýningunni er einungis hægt að tína til brotabrot af íslenskum portrettum og hér er ekki leitast við að gera þessu viðfangsefni tæmandi skil. Það er þó ljóst að gerð portrettmynda lifir í bestu velgengni á tuttugustu öld og það má leiða að því líkum að listamenn munu um ókomna tíð halda áfram að skapa portrett og túlka mannskepnuna í öllum sínum fjölbreytileika. 

 

Til baka