Fara yfir á efnissvæði
12. janúar 2013 til 10. febrúar 2013

Bjarki Bragason - Hluti af hluta af hluta, þættir I-III

Í verkum sínum fjallar Bjarki um áhrif söglegra atburða og hugmyndafræði á einstaklinga, og stillir gjarnan saman frásögnum skáldsagnapersóna og lifandi einstaklinga. Verk hans fjalla um ímyndir, tungumál og tíma. Verkið Á milli B og C (2011) sem gert var fyrir samnefnda sýningu í Suðsuð Vestur í Keflavík bar saman persónulegt plöntusafn Bjarka og safn af brotum af plöntum frá Hawaii sem annaðhvort eru útdauðar eða í útrýmingarhættu

Verkið sýndi hann á samsýningunni Nordic Art Today: Can You Remember the Future? í St. Pétursborg og á sýningunni Distance Plan í Favorite Goods sýningarrýminu í Los Angeles.

 

Hluti af hluta af hluta hefur verið í þróun undanfarið ár og eru verk sýningarinnar hluti af ferli þar sem Bjarki tekst á við tíma og sögu, hvernig þessi viðfangsefni eru læsileg í brotakenndum hlutum og hvernig hugmyndafræðilegar stefnur marka efnislegt rými staða og einstaklinga. Verkin sem sett eru fram í þremur rýmum safnsins  virka líkt og samtöl um hvernig hugmyndir um eiginleika tíma og rýmis eru varðveittar og búnar til í gegnum byggt umhverfi. Verkin samanstanda af þremur köflum. Verk fyrsta kaflans takast á við tungumál og minni, þar sem unnið er út frá heimili Walters Gropiusar (1883-1969) sem byggt var árið 1926 í Dessau er hann stýrði Bauhaus skólanum.  Húsið, Haus Gropius, sem eyðilagðist í átökum árið 1943 var endurbyggt eftir seinni heimsstyrjöldina í gjörbreyttri mynd þar sem ekki fékkst leyfi til nákvæmrar endurbyggingar sökum pólítískrar andstöðu Austur Þýskra yfirvalda. Í kjölfarið reis hefðbundið einbýlishús meira í ætt við piparkökubygginguna úr ævintýrinu um Hans og Grétu en hina stranglínulöguðu byggingu sem álitin var gott dæmi úr byggingarsögu módernismans. Eftir niðurrif beggja húsana gróf Bjarki í rústunum og eru brot þessara tveggja bygginga, sem erfitt er að þekkja í sundur, burðarás sýningarinnar. Verkin fjalla um skörun og árekstra mismunandi hugmyndafræði og þoku minnisins. Önnur verk sýningarinnar fjalla um arkitektúr sem leið til að byggja hugmyndir um tíma og þá togstreitu sem falin er í rannsóknum sem byggjast á því að drepa viðfangsefni sitt til þess að kynnast því betur. Við gerð annars kafla sýningarinnar vann Bjarki í Inyo skóginum í Sierra Nevada fjöllunum, en þar má finna elstu tré jarðar, sem lifa í allt að 5000 ár. Verk þriðja kaflans eru unnin út frá samtali Bjarka við pólska arkítektinn Olgierd Czerner sem sá um endurbyggingu Wroclaw, fjórðu stærstu borgar Póllands, á sjötta áratuginum. Þau verk rannsaka hugmyndir um endurbyggingu sem leið til þess að kljást við minningar og ímyndarsköpun.

 

Bjarki (f.1983) lærði myndlist við Listaháskóla Íslands (2003-’06), stundaði skiptinám við Universität der Künste í Berlín (2005) og lauk meistaranámi frá California Institute of the Arts (CalArts) í Los Angeles árið 2010. Árið 2008 hlaut hann styrki Listasjóðis Dungals og Styrktarsjóðs Guðmundu Andrésdóttur og árið 2009 Lovelace styrk vegna náms við CalArts. Árið 2012 hlaut hann starfslaun listamanna. Bjarki kennir við Myndlistaskólann í Reykjavík og situr í stjórn Nýlistasafnsins.

 

Úr MBL 12. janúar 2013:

12. janúar 2013 | Myndlist | 432 orð | 1 mynd

Rýnir í rústabrotin

• Í VERKUM Á SÝNINGU Í LISTASAFNI ASÍ VINNUR BJARKI BRAGASON MYNDLISTARMAÐUR MEÐ ÍMYNDIR, TUNGUMÁL OG TÍMANN


Tímapæling Bjarki segir sýninguna afrakstur sex mánaða rannsóknarferils. — Morgunblaðið/Einar Falur
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Sýning Bjarka Bragasonar, Hluti af hluta af hluta: Þættir I-III , opnar í öllum sölum Listasafns ASÍ í dag, laugardag, klukkan 15.
Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Sýning Bjarka Bragasonar, Hluti af hluta af hluta: Þættir I-III, opnar í öllum sölum Listasafns ASÍ í dag, laugardag, klukkan 15. Í verkum sínum fjallar Bjarki um áhrif sögulegra atburða og hugmyndafræði á einstaklinga og stillir gjarnan saman frásögnum skáldaðs fólks og raunverulegs; viðfangsefnin eru iðulega ímyndir, tungumál og tíminn.

Á sýningunni eru myndbandsverk, teikningar og hlutir, meðal annars brot úr föllnum húsum.

„Sýningin er afrakstur sex mánaða rannsóknaferils sem ég vann að í Þýskalandi, en í febrúar stefni ég á að það komi út lítil bók með safni af samtölum sem ég hef átt um viðfangsefnið við arkitekta og myndlistarmenn um tímann,“ segir hann.

Sýningin skiptist í þrjá kafla. Í einum er tekist á við minni, og unnið út frá heimili Walters Gropiusar sem stýrði Bauhaus-skólanum. Húsið var byggt árið 1926 en eyðilagt í seinni heimsstyrjöldinni. Eftir stríð reis þess í stað lágreist bygging úr hluta þeirrar rústar sem fyrir var, sem Bjarki segir hafa minnt meira á hús í ævintýrinu um Hans og Grétu. Þegar hann kom á staðinn voru bæði húsin horfin og rústahaugur eftir.

„Ég rýndi í brotin úr báðum þessum byggingum og skoðaði þau í samhengi við aðrar rannsóknir sem ég var að vinna í á þessum tíma, meðal annars samtöl mín við pólska arkítektinn Olgierd Czerner sem hefur sérhæft sig í endurgerð bygginga,“ segir hann en útkoman er ljósmyndainnsetning. „Ég rogaðist heim með fullar töskur af múrbrotum,“ segir hann brosandi.

 

FLÍSINNI ÝTT AFTUR INN

Í öðrum hluta sýningarinnar fjallar Bjarki um arkitektúr sem leið til að skapa hugmyndir um tíma og þá togstreitu sem falin er í rannsóknum sem byggjast á því að drepa viðfangsefni sitt til að kynnast því betur. „Sá hluti byggist á rannsóknarferð þar sem ég fór inn í Inyo-skóginn í Sierra Nevada-fjöllunum í Kaliforníu,“ segir hann. „Þar var ég að leita að ákveðnu tré af bristle cone pine-tegundinni, kallað metusaleh, sem vex þar. Það er talið elsta tré í heimi, um 4.800 ára, og hefur vaxið samfleytt á sama stað.“ Í myndbandsverki sést hvar Bjarki hefur fengið í fingurinn flís úr slíku tré. „Fyrst er verið að reyna að ná henni út en það snýst við og hafist er handa við að ýta henni aftur inn.“

 

En hvaðan kemur áhugi Bjarka á tímanum og þeim núningi öllum?

„Ég hef verið að velta fyrir mér af hverju samtíminn er upptekinn af endurskoðun sögunnar. Ég hef lengi haft áhuga á að skoða hvernig byggingar fólk reisir á hverjum tíma og hvaða strúktúra það skilur eftir sig. Þessir staðir sem ég skoða tengjast hugarfarslegum og pólitískum breytingum, umbyltingum,“ segir Bjarki.

Til baka