28. september 2003 til 12. október 2003

Einar Garibaldi

Á sýningunni sækir listamaðurinn fyrirmynd sína í yfirlit Landmælinga íslands á svokölluðum landshlutakortum, sem eru alls níu talsins. Eitt helsta markmið verkanna er að afbyggja þá undirliggjandi merkingu sem slík kort birta, eða í það minnsta að hvolfa á einhvern hátt því mikilvægi sem þau eru gerð til að viðhalda. Verkin vísa jafnt til landslagsmálverksins sem og útsýnismyndahefðarinnar, er hófst sem sýn út um opinn glugga, þar sem málarinn túlkaði sjónræna upplifun sína. Aðferð kortagerðarmannsins byggist hinsvegar á skipulegri skrásetningu upplýsinga og þekkingar, hann snýr baki í hinn opna glugga og reynir að gera sýnilegt það sem hann sér ekki, hann reynir að gera þekkingu sína sýnilega. Með því að blása kortin upp og einfalda táknmyndir þeirra, ásamt því að einangra og breyta samhengi, lík og flettist ofan af blekkingum kortagerðarinnar. Þessi afhjúpun er ekki ný af nálinni innan myndlistarinnar og kemur m.a. sterklega í ljós í verkum Vermeer “Vinnustofa málarans” og El Greco “útsýni til Tóledo”. En í báðum þessa verka birtist barátta beinnar sjónskynjunar og hinnar táknrænu sýnar kortagerðarinnar. Greinilegt er að báðir þessir meistarar eru að eru að velta fyrir sér ólíku hlutverki landakortsins í myndrænni framsetningu verunnar. Þarna er myndlistin farin að hafa áhuga á sýnileik tungumálsins fremur en augans, á því hver er munurinn á landi og korti af sama landinu, hvað sé líkt og hvað ólíkt með slíkum túlkunum Því er ekki úr vegi að spyrja hvernig slík kort hafi áhrif á það hvernig við skynjum landið, hvort að við sjáum það í raun og veru, eða hvort við sjáum aðeins það sem okkur hefur verið bent á að horfa á af kortagerðarmönnum?

Til baka