09. apríl 2011 til 14. maí 2011

Elín Pjet. Bjarnason - Öll erum við einskonar trúðar

Sýningin er haldin af tilefni þess, að safninu hafa borist að gjöf um 500 verk úr dánarbúi Elínar frá systursonum hennar Pjetri Hafstein Lárussyni og Svavari Hrafni Svavarssyni. En þetta er jafnframt fyrsta einkasýningin sem haldin er á verkum hennar. Sýningarnefnd skipa Kristín G. Guðnadóttir, Steinunn Helgadóttir, Ingiríður Óðinsdóttir og Pjetur Hafstein Lárusson.

 

Kristín G. Guðnadóttir

 

Öll erum við einskonar trúðar

 

Það er eitthvað óútskýranlega heillandi við verk Elínar Pjetursdóttur Bjarnason, þessarar leyndardómsfullu og hámenntuðu listakonu, sem aldrei hélt einkasýningu á verkum sínum þótt hún ynni að listsköpun alla ævi. Undir formföstu og oft björtu yfirborði verka hennar er einhver glóð; brennandi ástríða og stríðar tilfinningar. Andlit umbreytast í trúðsgrímur, fjólubláir draumar í martraðir.

Þegar heimstyrjöldinni síðar var lokið og samgöngur á milli landa komust aftur í eðlilegt horf sigldi Elín til Kaupmannahafnar til að nema myndlist. Hún var þá 21 árs gömul og hafði dvalið í Reykjavík frá haustinu 1944 við nám í Handíða- og myndlistarskólanum. Árið 1945 var viðburðaríkt á listasviðinu og hefur án efa kynt undir áhuga hennar á því að gera myndlist að ævistarfi sínu. Þann 13. Febrúar opnaði Kjarval sýningu í Listamannaskálanum þar sem hann sýndi stór landslagmálsverk m.a. frá Snæfellsnesi. Þegar dyr Listamannaskálans voru opnaðar biðu um 100 manns fyrir utan og ruddust inn í sýningarsalinn. Hófst nú hin harðasta keppni um það að fá fest kaup á myndum meistarans. Nánast öll verkin seldust á fyrsta hálftímanum og urðu margir frá að hverfa án þess að hafa tryggt sér mynd. Í pressunni mátti lesa að önnur eins hraðasala á málverkum hefði aldrei þekkst hér á landi enda væru vinsældir Kjarvals miklar. Þessi uppákomu má annars vegar skoða í ljósi stofnunar lýðveldisins 1944 en í verkum Kjarvals fann þjóðin táknmyndir ættjarðarástarinnar. Ísland var farsælda frón og Kjarval var túlkur þess. Hins vegar var þensla í hagkerfinu, borgarastéttin óx og dafnaði og húsakynni fóru batnandi en einnig var vaxandi áhugi á menningu og listum. Það var eftirspurn eftir myndlist, einkum verkum Kjarvals sem hafa verið skilgreind sem „einskonar löggildingarskjal á stöðu borgaralegs heimilis.“[1]

Það var skammt stórra högga á milli því síðsumars 1945 var haldin önnur tímamótasýning í Listamannaskálanum; abstraktsýning Svavars Guðnasonar. Svavar hafði verið innlyksa í Danmörku öll stríðsárin en kom heim með fyrstu ferð til að kynna löndum sínum það framsæknasta sem evrópsk myndlist hafði upp á að bjóða; sjálfsprottna abstraktlist. Kynngimögnuð og kraftmikil verk Svavars hlaðin innri spennu og krafti voru í senn ljóðræn og dramatísk en umfram allt litasinfóníur sem áttu sem enganlíka. Sýning Svavars hafði djúp og varanleg áhrif á listalífið og  var upphafið á samfelldri sögu abstraktlistar. Svavar var í framvarðarsveit danskrar myndlistar á stríðsárunum og þeir listamenn sem hann vann hvað mest með voru afgerandi í dönsku listalífi á eftirstríðsárunum.  Hér var mörkuð ný leið, nýtt upphaf sem ungt listafólk þurfti að taka afstöðu til hvert á sinn hátt.

Nokkur hópur Íslendinga af kynslóð Elínar og eldri hóf listnám í Kaupmannahöfn fljótlega eftir að stríðinu lauk, m.a. Ásgerður Búadóttir, Einar G. Baldvinsson, Gestur Þorgrímsson,  Hrólfur Sigurðsson, Karl Kvaran, Ólöf Pálsdóttir, Sigrún Guðjónsdóttir, Veturliði Gunnarsson og Vigdís Kristjánsdóttir sem voru við nám við hina ýmsu deildir Listaháskólans. Evrópa var í sárum eftir hörmungar stríðsins, listin jafnt sem lífið var orðið margslungnara og flóknara en áður og leitaði nýs jafnvægis, list hinnar nýju Evrópu var í deiglunni. Sjálfsprottin og tjáningarrík abstraktlist sem Svavar og danski Høst-hópurinn sáu sem myndmál samtímans þreifst samhliða natúralískri listsköpun en einnig mátti greina tilhneigingu sem síðar blómstraði sem geómetrísk abstraktsjón.

Þessi hópur íslenskra listnema tók ólíka afstöðu til samtímans og þeirra strauma sem efst voru á baugi hver eftir eigin sannfæringu en innan hópsins mátti finna abstraktmálara, fígúratífa málara, myndhöggvara, vefara og leirlistamenn. Öll sneru þau aftur heim og mótuðu íslenska listasögu nema Elín, sem ílengdist í Danmörku.

Elín hóf nám við Listaháskólann í Kaupmannahöfn haustið 1945 í málaradeild hjá Vilhelm Lundstrøm. (1893-1950) Það þótti sæta nokkrum tíðindum  þegar Lundstrøm var valinn prófessor í málaralist við Listaháskólann 1944 en hann gegndi embættinu til dauðadags. Lundstrøm var einn helsti fulltrúi kúbismans í danskri myndlist á árum fyrri heimstyrjaldarinnar og sló í gegn á Haustsýningunni 1917, en Kjarval átti einnig verk á þeirri sýningu. Lundstrøm var samtímis virtur af þeim hópi abstraktlistamanna, sem Svavar vann með á árum seinni heimstyrjaldarinnar og var gestur þeirra á hinni svokölluðu Tjaldsýningu, sem haldin var í tjaldi í Charlottenlund vorið 1941. Það sem einkennir verk Lundstrøm, er sterk og ákveðin línuteikning sem umlykur voldug form. Litafletir hans eru stórir og hreinir, verk hans hafa yfir sér klassískt, yfirvegað yfirbragð. Elín segir að Lundstrøm hafi verið mjög góður og nákvæmur kennari sem ekki talaði mikið. Hann hrósaði ekki nemendum sínum en fékk þá sjálfa til að hugsa.[2] Lítið er varðveitt af skólaverkum Elínar frá árunum 1945-1950 en í þeim má greina áhrif frá síðkúbismanum og formheimi Lundstrøms.

Elín ferðaðist mikið um Evrópu á námsárunum og síðar. Á árunum 1947-1950 heimsótti hún m.a. London, Amsterdam, Rómarborg, Mílanó og París sem gaf henni ríkuleg tækifæri til að kynnast myndlist samtímans sem og fjársjóðum fortíðarinnar. Hún lauk námi við Listaháskólann 1950 en þrátt fyrir góð ytri skilyrði fór listferill hennar hægt af stað, næstu fimm ár virðist hún hafa málað lítið eða eytt verkum sínum.

Um 1955, þegar geómetríska abstraktsjónin var framsæknasta liststefnan í Evrópu, tók listsköpun Elínar óvænta stefnu þvert á ríkjandi viðhorf; stórar, voldugar myndir af nöktum kvenkyns módelum verða til.  Ári síðar sýndi hún í fyrsta skipti opinberlega á Kunstnernes Efterårsudstilling í Charlottenborg verkið Figurkomposition (200 x 120 sm) sem sýnir tvær naktar konur en fyrir aftan þær stendur kyrtilklæddur maður. Á næstu árum vann hún fleiri stórar módelmyndir í svipuðum dúr. Haustið 1958 hóf Elín aftur nám við Listaháskólann að þessu sinni í veggmyndadeild skólans hjá prófessor Elof Risebye (1892-1961). Orðið Íslandsvinur hefur gjarnan verið notað um útlendinga sem hafa reynst Íslendingum vinveittir sem á svo sannarlega við um Risebye. Hann var mikill aðdáandi Muggs, en þeir hittust aldrei. Riesbye safnaði verkum hans og árið 1958 gaf hann Listasafni Íslands 46 verk eftir Mugg, en 1936 hafði hann reist honum legstein í Kirkjugarðinum við Suðurgötu með mósaíkmynd eftir sjálfan sig.

Elín lærði m.a. freskutækni og gerð mósaíkmynda hjá Riesbye. Nemendur veggmyndadeildarinnar fengu iðulega að spreyta sig á ýmsum stórum, opinberum verkefnum undir handleiðslu Risebye og þessi menntun skapaði  atvinnutækifæri að námi loknu. Ekki er vitað til þess að Elín hafi hagnýtt sér þessa þekkingu né unnið við veggmyndagerð.  Námið Hjá Risebye var henni mikilvæg hvatning til þess að vinna á nýjan og meðvitaðan hátt með liti; tækni hennar og litaskilningur breytist, hún hreinsaði litaspjald sitt og einfaldaði litavalið.  Oft lagði hún gagnsæjan lit lag ofan á lag oft í svölum tónum bláleitra og fjólublárra lita.

Námsferli Elínar var ekki lokið og veturinn 1962 skráði hún sig enn í Listaháskólann að þessu sinni í grafíkdeildina hjá Holger J. Jensen (1900-1966) Elín hafði alltaf haft mikinn áhuga á teikningu og þessi ástríða leiddi hana út á braut svartlistarinnar. Grafíkverk Elínar eru flest steinþrykk og viðfangsefni hennar þau sömu og í málverkinu; módel, andlit og hús. Íslenskur gagnrýnandi lýsti svartlistarverkum Elínar sv að þau væru fremur átakalaus, hefðu yfir sér mildan blæ og bæru svip af langri dvöl listakonunnar í Danmörku.[3] Verkið Hauskúpa skipar sérstakan sess meðal grafíkverka hennar; þögul áminning um forgengileika og dauða. Memento mori.

Frá námslokum og til dauðadags var Elín skapandi listamaður og vann að list sinni, en var þó ekki afkastamikil. Málverkið skipar þar höfuðsæti en hún gerði einnig nokkrar grafíkmyndir eftir að námi lauk. Myndheimur hennar á sér rætur í akademískri hefð og þaðan má greina tvær meginlínur: Annars vegar portrettmyndir sem fjarlægjast fyrirmyndir sínar og verða að tjáningarríkum andlitum eða grímum með trúðslegu yfirbragði. Hins vegar landslagsmyndir, sérstaklega hús i landslagi, sem þróast yfir í landslag séð úr lofti þar sem mörkin milli abstraktsjónar og veruleika verða óljós. Hvert sem myndefni hennar var hélt hún alltaf trúnað við fastnjörvaða, kerfisbundna myndbyggingu sem rekja má til Lundstrøm og síðkúbismans eða lengra tilbaka til franska málarans Fernand Legér.

Veturinn sem Elín var við nám hjá Rieseby tók hún að teikna og mála portrett. Fyrirsæturnar voru oft vinir hennar úr dönsku listalífi, svo sem Gerde Swane og Julius Techkov.   Með stórum og einföldum formum og mettuðum litum leitast Elín við að fanga persónueinkenni fyrirmynda sinna fremur en að mála nákvæma eftirmynd þeirra. Sum þessara verka útfærði hún einnig  með freskutækni á gifsplötur. Einnig málaði hún tjáningarríkar sjálfsmyndir. Hún sýnir sjálfa sig á athugulan og yfirvegaðan hátt en undir niðri er þungur undirtónn.  Smám saman þróuðust portrettmyndir Elínar yfir í grímur eða trúðsleg andlit, birtingarmyndir hugmyndarinnar um að öll séum við einskonar trúðar og að lífið geti verið eins og fjölleikahús, tragikómískt og fáráðlegt. Andlitin eru ýmist góðlátleg og kómísk eða taka á sig martraðarkennda jafnvel djöfullega mynd. Stundum málar hún þessi andlit hvert fyrir sig eins og portrett af sálarástandi eða persónuleika. Í öðrum verkum fléttar hún saman andlitum eða verum á frásagnarkenndari hátt þar sem áleitin viðfangsefni svo sem ótti, skelfing og dauði taka á sig áþreifanlegar myndir. Angistin skín út úr andlitunum sem stundum virðast bæla niður óp eða veina átaklega í líkingu við veruna í hinu þekkta verki Ópið eftir Edward Munch. Þessi tjáningarríku andlitin eru mikilvægt leiðarstef í verkum Elínar sem hún málar með ýmsum tilbrigðum allt frá árinu 1962 og fram yfir aldamót.

Elín ferðaðist mikið suður á bóginn og á ferðum sínum málaði hún og teiknað það sem fyrir augu bar. Oft málaði hún smáþorp í landslagi; sólbökuð og litskrúðug þorp þar sem kirkjuturna ber við himin. Smám saman tók hún að umskrifa form húsanna yfir í ferninga sem hún sýnir frá breytilegu sjónarhorni með æ meiri áherslu á rýmið á milli formanna. Oft er eins og hún takist á loft, fljúgi yfir landið og sjái það úr lofti. Húsamyndirnar þróast yfir í abstrakt samspil ferninga og rétthyrninga á myndfletinum. Stundum bætir hún við enn einu grunnformi; hringnum, sem táknmynd sólarinnar, birtunnar og lífsins, einnig má sjá í verkum hennar krossform sem tákn dauðans og áminningu um að enginn kemst undan skugga hans. Þessar einföldu táknmyndir gefa verkunum dýpt og tengja þær tilvistarlegum hugleiðingum trúðamyndanna. Nýr fasi í gerð húsamyndanna hófst eftir gosið í Heimaey 1973 sem snerti Elínu djúpt. Í nokkrum verkum fjallar hún um hvernig jarðskorpan undir bænum rifnar, jörðin klofnar og rauður hraunstaumurinn gleypir húsin. Skelfing tortímingarinnar ógnar ekki bara einstaklingnum og sálarlífi hans heldur einnig umhverfinu; húsunum og bænum. Ógnin leynist allstaðar en tekur á sig ólíkar birtingarmyndir náttúrukrafta eða ófreskra andlita.

Á námsárunum og raunar lengur naut Elín fjárhagslegs stuðnings fjölskyldu sinnar til náms og listsköpunar. Þess vegna var hún ekki háð því að lifa af list sinni og segir að það hafi verið ein af orsökunum þess, að nánast þurfti að þvinga hana til að sýna verk sín opinberlega.[4] Önnur skýring á því hversu litið hún sóttist eftir opinberri  þátttöku í listheiminum var, að sökum afleiðinga heilahimnubólgu sem hún fékk sem barn, átti hún fullt í fangi með að takast á við hversdagslífið. Einföldustu hlutir uxu henni í augum og hún forðaðist allt það sem kom tilveru hennar úr skorðum, þar á meðal sýningahald. Þetta leiddi til þess að hún hélt aldrei einkasýningu á verkum sínum og lifði hálfgerðri skuggatilveru sem listamaður. Elín sýndi þó grafíkmyndir á Íslandi vorið 1968 í Bogasal Þjóðminjasafnsins ásamt Vigdísi Kristjánsdóttur veflistamanni og var það eina sýning Elínar hér á landi. Vigdís, sem hafði verið samtímis Elínu í Listaháskólanum, bar eflaust hitann og þungann af framkvæmdinni en Elín hélt sig til hlés.

Elín tók þátt í dönskum samsýningum og sýndi einnig með íslenskum konum í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Þetta voru yfirleitt stórar samsýningar og hún sýndi fá verk hverju sinni. Hún var virkur þátttakandi í Kvindelige Kunstneres Samfund en félagið var stofnað 1916 til að vinna að hagsmunamálum listakvenna. Aðildin að KKS var henni mikilvæg jafnt félagslega sem faglega. Hún tók þátt í mörgum sýningum á þeirra vegum sem og öðrum viðburðum og 1985 fékk hún íbúð á vegum félagsins, á Rolfsvej 10 á Frederiksberg þar sem hún bjó til dauðadags í samfélagi við tíu eldri listakonur.

Elín lést í Danmörku sumarið 2009. Hún átti enga afkomendur en systursynir hennar og erfingjar þeir Pjetur Hafstein Lárusson og Svavar Hrafn Svavarsson gáfu Listasafn ASÍ stærstan hluta þeirra verka sem hún skildi eftir sig. Það er hluti þessarar rausnarlegu gjafar sem prýðir veggi safnsins. Nú rúmum sextíu árum eftir að Elín lauk námi sínu hjá prófessor Lundstrøm við Listaháskólann í Kaupmannahöfn er fyrsta einkasýningin á verkum hennar haldin í Listasafni ASÍ en segja má að þessi sýning hafi verið lengi í bígerð. Elín er komin heim.

 [1] Kristín G. Guðnadóttir.  Kjarval 1885-1972. Nesútgáfan 2005. Bls. 356.

[2] 12 malerinder. Sýningarskrá.Bls.7. Kvindemuseet í Aarhus. 1988.

[3] Bragi Ásgeirsson. Tvær sýna i Bogasal. Morgunblaðið 17. apríl 1968. Bls.  13.

[4]  12 malerinder. Sýningarskrá.Bls.7. Kvindemuseet í Aarhus. 1988.Pjetur Hafstein Lárusson

 

Elín frænka

 

     Merkilegt má það heita, að jafn ástríðufullur Kaupmannahafnarbúi og móðursystir mín, Elín Bjarnason, skuli hafa fæðst í sveit.  Og samt er það nú svo, að þessa heims ljós leit hún fyrst  á Eskiholti í Borgarfirði þann 30. júní árið 1924.  Lítt tölti hún þó þar um tún, því hún var aðeins tveggja ára, þegar fjölskyldan flutti til Akureyrar. 

     Þegar Elín var níu ára gömul fékk hún heilahimnubólgu og var vart hugað líf enda fátítt,  að fólk  lifði þann sjúkdóm af fyrir daga penselínsins.  En það átti ekki fyrir Elínu að liggja, að ljúka jarðvist sinni norður á Akureyri, hvorki þá né síðar. 

     Hugur hennar beindist snemma að myndlist, sennilega þó ekki fyrr en eftir veikindin.  Að minnsta kosti var hún sí teiknandi upp frá því.  Er mér þó ekki kunnugt um, að hún hafi notið tilsagnar í þeirri grein í bernsku. En hvað sem því líður þá hleypti Elín heimdragaganum  og hélt suður til Reykjavíkur til að nema myndlist í Handíða- og myndlistaskólanum, hvar hún sat á skólabekk veturinn 1944 til 1945. Að stríðinu loknu, nánar tiltekið haustið 1945 sté hún um borð í Dronning Alexandria og sigldi til Kaupmannahafnar til að nema í Listaakademíunni. Lærði hún þar fyrst málaralist en síðar grafíklist og freskugerð. Helsti kennari Elínar í málaralist var Vilhelm Lundstrøm, einn af þekktari listmálurum Dana á þeim tíma.

     Elín var þeirrar náttúru, að henni uxu smámunir í augum; hvað þá heldur meiriháttar verkefni. Var henni þetta vel ljóst og kenndi hún heilahimnubólgunni um.  Hún hefði því aldrei getað haldið einkasýningu á verkum sínum, eða staðið í sölu á þeim með öðrum hætti.  Má því ljóst vera, að hún taldist ekki til þekktari manna í sinn grein.

     Enda þótt einkasýningar hefðu aldrei komið til greina af hálfu Elínar, tók hún þátt í all nokkrum samsýningum, allt frá árinu 1955 og til dauðadags, með hléum þó.   Meira að segja vildi svo til, að þegar hún lést, hafði hún skilið eftir mynd hjá nágrannakonu sinni, Lenu Rasmussen myndhöggvara, til að sýna á samsýningu myndlistamanna í Fredriksberg síðsumars 2009.  Það má því segja, að hún hafi tekið þátt í samsýningum út yfir gröf og dauða.  Nokkrar viðurkenningar hlotnuðust Elínu fyrir list sína, bæði frá íslenska ríkinu og því norska og frá Akademíunni í Kaupmannahöfn.  Elín sýndi aðeins einu sinni á Íslandi.  Það var í Bogasalnum vorið 1968 og þá í félagi við Vigdísi Kristjánsdóttur veflistakonu. 

Þess má til gamans geta, að Vigdís segir nokkuð frá kynnum sínum af Elínu í samtalsbókinni „Farinn vegur” sem skáldkonan Hugrún (Filippía Kristjánsdóttir) skráði og kom út árið 1975.

 

    

Lítið dæmi um lundarfar

    

     Sem dæmi um lundarfar Elínar, þegar list hennar var annars vegar, langar mig til að segja hér stutta sögu.  Þannig var, að henni hafði verið boðið að taka þátt í samsýningu myndlistakvenna, sem mig minnir, að haldin skyldi á Jótlandi.  Þáði hún boðið og valdi myndir á sýninguna.  Í tilefni þessarar sýningar var auðvitað gefin út sýningarskrá og kom ritstjóri hennar heim til Elínar í fylgd ljósmyndara, sem átti að taka mynd af Elínu, til að nota í sýningarskrána.

     Segir ekki af þeirri ferð, nema hvað þær stöllurnar, ritstjórinn og ljósmyndarinn reka augun í málverk Elínar af gamalli konu.  Þótti þeim báðum nokkuð til myndarinnar koma og vildu gjarnan fá hana á sýninguna.  Vitanlega var það röskun á áætlunum Elínar, en hún lét þó undan, þvert á það, sem vænta hefði mátt.  En þá kom babb í bátinn; ritstjóranum varð það nefnilega á, að spyrja, af hvaða konu myndin væri.  „Þetta er bara gömul kona”, svaraði Elín og vildi ekki ræða það mál frekar.  Hún vissi sem var, að í Danmörku var þessi gamla kona með öllu óþekkt.  Þótti henni því Dönum nafn hennar óviðkomandi.  Varð þessi spurning ritstjórans til þess, að Elínu snérist hugur og neitaði að senda myndina á sýninguna.  Þó varð það að samkomulagi, að ljósmyndarinn fékk að taka mynd af málverkinu.  Var hún stækkuð í fulla stærð  og sýnd þannig. 

     Þess má til gamans geta, að málverkið er af Kristjönu Gunnarsdóttur Havstein, langömmu Elínar og fóstru föður hennar   

     Fljótlega eftir komu Elínar til Kaupmannahafnar, leigði hún sér herbergi í Nýhöfninni, enda steinsnar þaðan í Akademíuna.  Nýhöfnin var á þessum árum ekki sá dannaði ferðamannasegull, sem hún er nú.  Þetta var ekta hafnarhverfi, með tilheyrandi landleguslarki, vændishúsum, listamanna- og bohemalifnaði og vitanlega ölkrám, þar sem glösum var lyft hærra og örar, en gengur og gerist á þessum slóðum nú til dags.  Þarna var litróf mannlífsins með öðrum orðum fjölbreyttara og skrautlegra en síðar varð.  Siðferðishugmyndir íbúanna og fastagesta á þessum slóðum, hefðu sennilega þótt nokkuð framandi á bernsku- og æskuslóðum Elínar norður á Akureyri.  En þótt hún væri þaðan komin, eða kannske einmitt vegna þess, féll þessi lifnaður henni vel í geð.

    

Haustsýningar á Charlottenborg

 

     Um tíu ára skeið, frá því í byrjun sjötta áratugarins, var Elín í sambúð með dönskum manni.  Meðan á því sambandi stóð, tók hún þátt í árlegum haustsýningum í Charlottenborg.  Var það fyrir áeggjan þessa manns. Hvatti hann Elínu mjög til að halda verkum sínum á lofti.   

 

Um mikilvægi skófatnaðar

    

     Á hernámsárunum og lengi eftir stríðslok, var allt skammtað í Danmörku sem víðar, þ.á.m. leður.  Skósmíði var því æði takmörkuð.  Þar af leiðandi gengu konur gjarnan í tréklossum, misjafnlega háum og var leðuról fest á þá  yfir ristina.  Smám saman lagðist þessi fótabúnaður af með bættum efnahag.

     En Elín féll algjörlega fyrir þessum skófatnaði.  Gekk hún alltaf í slíkum klossum, nokkuð háum, enda bættu þeir nokkru við hæð hennar, sem henni þótti skorta dulítið á.

     Lengi vel var hægt að kaupa svona klossa í Kaupmannahöfn, en eins og að framan segir kom þar, að þess var ekki lengur kostur.  Þá leitaðið Elín til skósmiðs, sem sérsmíðaði á hana herlegheitin.  Hafði hann gert þetta nokkuð lengi, þegar það rann upp fyrir frænku, að maðurinn væri tekinn að reskjast og aldrei að vita, hvenær hann yfirgæfi þennan vorn jarðneska táradal.  Ástæðulaust væri, að láta hann komast upp með, að skilja hana eftir hér megin grafar, klossalausa.

     Skrapaði nú Elín saman alla þá aura, sem hún mátti sjá af, gekk á fund skósmiðsins og pantaði hjá honum fimm pör af klossum.  Ekki sá aumingja maðurinn neitt því til fyrirstöðu, að smíða þá.   En svo ákveðnar hugmyndir hafði Elín um form þeirra hluta, sem nálægt henni voru, að þar mátti ekkert út af bera. Hafði hún því mjög strangt eftirlit með klossasmíðinni.  Verkinu miðaði þó áfram, allt fram á  fjórða par; þá fékk skósmiðurinn hjartaáfall.  Elín fylltist nagandi samviskubiti, enda kenndi hún hörku sinni við eftirlitið um áfall skósmiðsins.  Það liðu margir mánuðir, þar til hún þorði að grennslast fyrir um, hvort aumingja maðurinn hefði lifað áfallið af.  Hann reyndist að vísu hafa gert það, en var óvinnufær, það sem hann átti eftir ólifað.  Elín fékk því aldrei nema þrenn pör.  En vel voru skæðin smíðuð, því þau entust henni þá fjóra áratugi, sem hún átti eftir að ganga um sínum hörðu skrefum, hér megin grafar.

 

Í húsi listakvenna á Fredriksberg

 

     Síðustu áratugina, sem Elín lifði, bjó hún á Fredriksberg, nánar tiltekið á fjórðu hæð hússins númer 10 við Rolfsvej.  Er þetta hús í eigu sjóðs eins, hvers tilgangur er, að leigja listakonum íbúðir fyrir lítið.    Íbúð þessi er þriggja herbergja og undir súð.  Fyrst er komið inn á gang.  Þar til vinstri er eldhús og baðherbergi en beint af augum svefnherbergi.  Til hægri handar er gengið inn í borðstofu en dagstofan er inn af henni.  Þar stóðu málaratrönur Elínar.

     Það var í þessari íbúð, að ég kom fyrst á heimili Elínar frænku minnar.  Ég gisti hjá henni og þegar ég vaknaði fyrsta morguninn, tók ég eftir því, að hún hafði bundið tvinna á haldið á bollunum; bláan tvinna á haldið á bollanum, sem hún drakk úr, en rauðan á haldið á bollanum, sem hún ætlaði mér.  Smurt brauð var á borðum, og voru hvoru okkar ætlaðar þrjár brauðneiðar.  Þær bar að borða í réttri röð, fyrst þá brauðsneið, sem var með látlausasta álegginu og svo áfram.  Þennan  góða sið hafði Elín lært í heimsóknum hjá afasystur sinni í Reykjavík, fröken Ingibjörgu H. Bjarnason. Hún var sem kunnugt er, skólastýra Kvennaskólans í Reykjavík áratugum saman og þótti formföst, eins og þau systkini fleiri.  Enda er góður siðurinn.

     Sú var ein árátta Elínar, að þún þreifst best í hornréttu umhverfi. Og sem ég nú stóð upp frá borðum, að morgunverði loknum, kom hún með tommustokk og mældi af stakri nákvæmni bilið á milli borðsins og næsta veggjar.  Var þetta varúðarráðstöfun, ef svo illilega skyldi hafa til tekist, að ég hefði hnikað borðinu úr stað.

     Að mælingum loknum, settumst við inn í dagstofuna.  Þar veitti ég því athygli, að við lappirnar á sófaborðinu voru kubbar.  Við nánari athugun reyndust samskonar kubbar við sófalappirnar.  Þetta voru trékubbar.  Þeir voru skrúfaðir fastir í gólfið og viðkomandi húsgögn.  Hér skyldi vera regla á hlutunum og allt hornrétt.

     Auðvitað lýsir þetta nokkurri sérvisku og það var Elínu sjálfri ljóst.  Henni var tamt, að gera grín að eigin sérvisku.  En það breytti ekki því, að svona urðu hlutirnir að vera.

     Þegar Elín var hálf áttræð að aldri, voru allar listakonurnar á Rolfsvej 10 „reknar” út í nokkra mánuði, meðan unnið var að endurbótum á húsinu.  Konurnar, sem þarna bjuggu vissu sem var, að Elín var nákvæmnismanneskja í hvívetna.  Kusu þær hana því eftirlitsmann sinn með endurbótunum.

     Öllum íbúum hússins var útvegað húsnæði á Fredriksberg, meðan þetta umstang gekk yfir.  Konurnar urðu að láta lykla sína af hendi.  Aðeins Elín fékk aðgang að húsinu.

      Að vinnudegi loknum dag hvern, var útidyrunum læst með slagbrandi.  Tvisvar kom það fyrir, að Elínu dvaldi lengur í húsinu en til stóð og var læst þar inni.  En hún lét það ekki á sig fá, heldur fór út um glugga í íbúð sinni og niður vinnupallana utan á húsinu.  Á tveimur stöðum voru ekki stigar milli hæða, en sú gamla gerði sér lítið fyrir og lét sig einfaldlega gossa milli hæða á vinnupöllunum.  Mér er ekki kunnugt um, að slíkir fimleikar teljist til almenningsíþrótta hálf áttræðs fólks, né heldur þeirra, sem yngri eru. Og fram yfir áttrætt, fór Elín enn daglega út í Fredriksberg Have og hljóp þar við fót, sem ungmey væri.

 

Hvort kemur fyrst; tilfinningar eða skynsemi?

 

     Í byrjun októbermánaðar ársins 2008 átti ég leið til Madríd og hafði viðkomu í Kaupmannahöfn, bæði á útleið og heimleið. Kom ég þá vitanlega við hjá Elínu, bæði á leiðinni út og eins á heimleiðinni.  Í síðaria skiptið dvaldi ég hjá henni í nokkra daga.

     Eitt kvöldið tókum við Elín að ræða það, hvort hefði meiri áhrif í mannlegu samfélagi, tilfinningin eða skynsemin.  Ekki vorum við á einu máli í þeim efnum.  Við sátum fram á morgun og deildum  af miklum hita, að ekki sé sagt ofsa.  Um tíma var ég hræddur um, að við héldum vöku fyrir nágrönnum frænku.  Ég minnist þessara snörpu skoðanaskipta með mikilli ánægju, enda er mér stórlega til efs, að slíkar skylmingar séu á færi margra, svo aldraðra, sem Elín var þá, en hún var þegar hér var komið sögu 84 ára gömul.

     Því miður urðu þetta síðustu fundir okkar Elínar, þótt við töluðum raunar oft saman í síma þann tíma, sem hún átti þá ólifaðan.  Í júní árið eftir, þ.e.a.s. 2009 dvaldi ég sem oftar í Davíðshúsi á Akureyri.  Óviðráðanlegra ástæðna vegna, dróst það þetta sumarið fram yfir miðjan júní, að Elín kæmist í sumarhúsið sitt á Suður-Sjálandi, en þar hafði hún ekki síma.  Annars var hún vön að fara þangað í apríl eða maímánuði.  Síðast hringdi ég til hennar þann 15. júní, nema það hafi verið daginn eftir. 

     Þann 3. ágúst gekk nágranni Elínar þarna í sveitinni fram á lík hennar úti í garði.  Telst sá dagur því dánardagur hennar að dönskum lögum.  Þó er talið víst, að hún hafi legið þarna örend í viku til tíu daga.  Má það merkilegt heita, að hún skyldi að vissu leyti hljóta sömu örlög og faðir hennar, að kveðja þetta líf ein úti í náttúrunni, þótt við ólíkar aðstæður væri.  Hann varð bráðkvaddur á göngu í Glerárþorpi þann 10. mars 1957 og fannst lík hans ekki fyrr en þremur dögum síðar, sökum fannfergis.

     Útför Elínar fór fram í Bispebjerg kirkjugarði í Kaupmannahöfn miðvikudaginn 12. ágúst 2009.  Að ósk hennar var lík hennar brennt og askan síðar lögð í gröf systur hennar Hrefnu í Grafarvogskirkjugarði. Lauk þannig langri för.

 

Nokkur lokaorð

 

     Við bræðurnir Svavar Hrafn Svavarsson og undirritaður, erum systursynir Elínar.  Arfleiddi hún okkur.

Eins og þegar hefur komið fram í þessum skrifum, seldi Elín aldrei verk sín.  Hins vegar átti hún það til, að granda þeim.  Eigi að síður er hér í raun um að ræða  lífsverk hennar.  Er fátítt, að þess gefist kostur, að koma slíku safni fyrir á einum stað.  Af þeim sökum töldum við bræður rétt, að gefa safnið í heild sinni, að örfáum myndum undanskildum. 

     Vegna nokkurra kynna, er myndast höfðu milli Elínar og Kristínar Guðnadóttur forstöðumanns Listasafns A.S.Í. varð það úr, að bjóða safninu lífsverk Elínar að gjöf.  Okkur bræðrum er ljóst, að það er ekki sjálfgefið, að slík gjöf sé þegin, enda fylgja henni sjálkrafa ýmsar kvaðir, s.s. flokkun verka, varðveisla þeirra og sýningahald.   Öll þessi verk hefur Kristín Guðnadóttir leyst af hendi með miklum sóma.  Kunnum við henni, samstarfskonum hennar á safninu og Listasafni Alþýðusambands Íslands bestu þakkir.

 

 

 

 

 

Myndir

Andlit/trúðar/grímur.

Bls. 10  

 1. 1.  E-38 Án titils, 1965. Olía á stiga, 41 x 33 sm
 2. 2.  E-93 Án titils, óársett. Olía á masónít, 24 x 23 sm
 3. 3.  E-91 Án titils, óársett. Olía á masónít, 41 x 33 sm
 4. 4.  E-89 Án titils, óársett. Olía á masónít, 37 x 45 sm
 5. 5.  E-78 Án titils, 1965. Olía á masónít, 41 x 33 sm
 6. 6.  E-96 Án titils, óársett. Olía á masónít, 35 x 30 sm
 7. 7.  E-91a Án titils, óársett. Olía á masónít, 36 x 35 sm
 8. 8.  E-79 Án titils, 1966. Olía á masónít, 60 x 60 sm

 

Bls. 11

E-31 Án titils, 1964. Olía á striga, 84 x 84 sm

 

Hús/ferningar.

Bls. 12

 1. 1.  E-105 Án titils, 1973. Olía á masónít, 51 x 41 sm
 2. 2.  E-133 Án titils, óársett. Olía á masónít, 46 x 41 sm
 3. 3.  E-137 Án titils, óársett. Olía á masónít, 61 x 55 sm
 4. 4.  E-142 Án titils, óársett. Olía á masónít, 22 x 25 sm
 5. 5.  E-145 Án titils, óársett. Olía á masónít, 18 x 22 sm
 6. 6.  E-124 Án titils, 2005. Olía á masónít, 61 x 71 sm
 7. 7.  E-121 Án titils, 2000. Olía á masónít, 31 x 36 sm
 8. 8.  E-150 Án titils, óársett. Olía á masónít, 31 x 32 sm
 9. 9.  E-117 Án titils, 1996. Olía á masónít, 36 x 31 sm
 10. 10.         E-115  Án titils, 1996. Olía á masónít, 36 x 31 sm

 

 

Bls. 13

     E-177 Án titils, óársett. Olía á striga, 30 x 28 

Til baka