30. október 2010 til 21. nóvember 2010

Erla Þórarinsdóttir - Samtímis

„Samtímis“ er heiti þrískiptrar sýningar Erlu Þórarinsdóttur í Listasafni ASÍ þar sem við sjáum í gryfjunni skyggnimyndaseríu varpað á vegg með skyndimyndum frá ferðalögum hennar um stórborgir Indlands og Kína í bland við vesturlenskar stórborgarsvipmyndir. Í arinstofunni sjáum við ljósmyndir af geometrískum formum úr trúarlegri indverskri byggingarlist og í efri salnum óhlutbundin málverk á lérefti í félagsskap við ljósmynd af indverska guðinum Lakulish, sem mun vera einn af afkomendum Shiva og frumkvöðull indverskrar yoga-iðkunar.

Sýningin er í raun og veru stefnumót hins varanlega og sértæka annars vegar og hins hverfula og hlutlæga hins vegar, en um leið er hún vitnisburður um stefnumót Erlu og hennar vestræna uppruna við austrið og austræna menningu. Sýningin gefur tilefni til að gaumgæfa þennan mismun og hvað þetta stefnumót ólíkra menningarstrauma getur leitt af sér.

Til baka