11. október 2014 til 02. nóvember 2014

Erla S. Haraldsdóttir - Visual wandering

Verk Erla S. Haraldsdóttir eru spunnin úr þremur meginþáttum; ljósmyndaraunsæi, góðum tökum á aðferðum málverksins og kímni. Samþætting aðferða sem byggja á forsendum hugmyndalistarinnar við lifandi litaspjald og kröftuga pensilskrift gerir sýningu hennar að einstakri rannsókn á myndefni og tækni, grundvallaða á frelsinu sem leynist í fyrirstöðunni. Á sýningunni eru ellefu stór málverk frá árunum 2012 – 2014. Myndefnin eru ýmist valin samkvæmt kerfi þar sem tilviljunarkenndir staðir úr ákveðnum sögum eru afmarkaðir eða eftir fyrirmælum annarra.

Erla S Haraldsdóttir er menntuð í málaralist og hefur undanfarin ár lagt stund á hlutbundið málverk. Í verkum hennar er efniskennd litarins og eiginleikar hans til að skapa rými, ljós og skugga mikilvægt atriði.  Sjálf aðferðafræðin er áhrifavaldur í vinnuferlinu og listamaðurinn kannar hvernig minningar, tilfinningar og sjónræn skynjun hafa áhrif hver á aðra.  Erla hefur áður notað teiknimyndir, myndbönd og samsettar ljósmyndir til að nálgast og endurskapa veruleikann.

Erla býr í Berlín en á Íslandi er hún best þekkt fyrir ljósmyndasamsetningar eins og Here, there and everywhere,  lagskiptar teiknimyndir eins og Sad with Satie og Reynisdrangar,  flókin samstarfsverkefni eins og M:E:E:H. í Sjálfstæðu Fólki á Listahátið Reykjvíkur 2012 og Difficulty of Freedom/Fredom of Difficulty,  verkefni sem bæði var kynnt í Nýlistasafninu 2013 og Verkligheten í Umeå, Svíþjóð 2014. Næstu verkefni listamannsins  eru m.a.  einkasýning í Pszczyna kastala í Pszczyna,  Póllandi í nóvember, sýningarstjóri er Stanislaw Ruksza og er sýningin hluti af verkefninu  A place where we could go. Í  febrúar 2015 verður Erla með á opnunarsýningu  hins nýja Silesian listasafns í Katowice, Póllandi en það er byggt yfir gamla kolanámu.

Erla S. Harladsdóttir er menntuð við Listaháskólann í Stokkhólmi, The San Franscisco Arts Institute og hún útskrifaðist frá Listaháskólanum Valand í Gautaborg  1998. Verk hennar hafa verið sýnd víða, m.a.  í Berlinische Galerie í Berlín, The Scandinavia House,  New York,  Moderna Museet í Stokkhólmi, Kunstlerhaus Bethanien,  Berlín og Kronika Bytom, Póllandi.

Verk eftir hana eru m.a. í eigu Listasafns Reykjavíkur, Moderna Museet  og National Public Art Council í Svíþjóð.

Erla hefur stjórnað vinnustofum (workshops) í listaháskólum á Norðurlöndum og Karabíska hafinu og hún er sem stendur gestakennari við Listaháskólann í Umeå.

Nánari upplýsingar: www.haraldsdottir.com

 

Hreyfiöflin í málverkum Erlu S. Haraldsdóttur

Christoph Tannert

„Sjónrænar göngur“ Erlu S. Haraldsdóttur eru athuganir á sviði málverksins sem og hugleiðingar um aðferðir málaralistarinnar. Það sem ber fyrir augu á undan sérhverju viðfangsefni er efnisleg viðurvist litarins. Það er þessi hugsun í og í gegnum lit sem birtist í vel tempruðum jafnt sem kraftmiklum áherslum. Erla fer sínar eigin leiðir en er þó ávallt með auga á hefðinni. Hún þróar ástríðufulla frasa, sem eru þau lausir við tilfinningasemi og einkennast fremur af röklegu innihaldi þeirra. Maður virðir málverkin fyrir sér drollandi. Áhorfandinn er jafn tregur til að sleppa takinu á málverkunum og hinum sögulegum bakgrunni eða því staðbundna aðdráttarafli sem rist er í þær.

Til að ljúka verkinu lætur listamaðurinn skipan rýmisins ganga fyrir tímaskipanina. Listfenglega fléttar hún saman aðskilda þætti, þannig að fjarvist tímaraðar leysir úr læðingi ferska sýn á nýstárlega staðfræðilega skipan. Allt þetta setur Erla fram á óáreitinn, ljóðrænan og tímalausan hátt.

Yfir málverkaröðinni „Spoor“[1] ríkir kyrrð sem hefur í senn að geyma óvissu og eftirvæntingu. Hér er á ferð könnun á kyrrstæðri, líkamlegri nærveru. Erla útskýrir: „Málverkið er yfirlýsing mín þegar ég er þögul, það er í eðli sínu íhugandi miðill. Ég vinn út frá hugarástandi mínu og hef síður áhuga á list sem samfélags-pólitískum miðli. Náttúran og hið andlega eru mér hugleikin. Ég skilgreini hlutverk málverksins í samtímanum sem það að móta rými fyrir sál einstaklingsins, að ljá anda augnabliksins „rödd“. Á sama tíma er rödd einstaklings rödd samfélagsins, og hin staðbundna rödd er hin alþjóðlega rödd. Ég vona að málverk mínu séu aldrei niðurstaða heldur uppljúki þess í stað nýju rými.“[2]

Hið áþreifanlega í myndum Erlu skýrir sig sjálft. Við nánari skoðun reynist þó jafn sjálfsagt að skoða þær út frá félagslegum sjónarhóli. Áhorfandi málverka hennar heillast ævinlega þegar listamaðurinn skorar stig á heimavelli málverksins, á velli hins efnislega. Erla meðhöndlar liti og virkjar áhrifamátt þeirra með framúrskarandi hætti.

Málverk Erlu er ennfremur atburðir í merkingunni „ferlisatvik“, í beinum tengslum við efnisleika atburðarins. Listmálarinn lætur efnið teyma sig. Það hvernig hún umgengst liti leysir úr læðingi viðbrögð jafnt sem líkamlega og hugræna hreyfingu sem knýr áfram sköpunarferli málverksins. Í besta falli getur atvikeinkenni málverks ýtt undir áþekk viðbrögð áhorfenda, líkt og væri málverkið sem maður virðir fyrir sér „gjörningur“.

Erla kappkostar að gera skynjun málverks eins álitlega og vera má. Hún hugsar alfarið í lit, þ. e. út frá efnisleika lita. Það að hugsa í ferlum felur hjá Erlu í sér að hún gerir sjálfsmeðvitund sína algerlega háða framtíðarstaðfestingu. Vinna hennar er þannig áhætta, líf sem er sífellt skotið á frest, stöðug spenna frammi fyrir hinu fullunna, tilvera sem er ekki enn. Hún ljær listrænni von sinni sífellt nákvæmara innihald, án þess þó að vera þeirrar skoðunar, að klárað verk sé þegar fullunnið. Líkast til getur hún ekki klárað hugmyndina sjálf því hún klárast í raun ekki fyrr en áhugasamir áhorfendur sjá málverkið í heild sinni og hugsa það til enda.

Listrænt séð lítur Erla síður á sig sem sjálfhverft metnaðarstarf við framsetningu á sjálfi listamanns, heldur fremur sem látlausa vinnudagskrá í lit.

Erla hefur tröllatrú á kyrrðinni. Kyrrðin innanhúss („The Corridor in Pszczyna Castle“, „Turf House“, „215 West 98th Street, The Gramont“), sem og í sálinni. Kyrrð landslagsins („The Colored Forest in Maine", „Seljarlandsfoss“, „Snæfellsjökull, framed by a Sun Tunnel“). Kyrrð himinsins fyrir ofan hana. Þetta ljær málverkum hennar ákveðna staðfestu. Og þökk sé nákvæmni myndmálsins, þar sem ekkert er tilviljunarkennt, verðum við vitni að því hvernig sérhver ögn formsins nær markmiði sínu og er fagurfræðilegur hvati sem virkjast með þeim hætti einum sem honum er ætlaður, þ. e. sem miðlari.

Alhliða vitund, sýnin á heildina og tilhneiging til alhæfinga – allt er þetta hluti af starfsáætlun Erlu sem hún þróar gegn tíðaranda og hagnaðarhugsun listmarkaðarins. Sú fullyrðing Engels að náttúran, og þar með einnig náttúra málverksins, „eigi sér raunverulega sögu“, endurómar í málverkum hennar. Og það sem Julius Robert Mayer hugsaði í Heilbronn á tímum Hölderlins – uppgötvun varðveitingar og umbreytingar orku – er Erlu ekki framandi. Þessi listakona, sem er óhemju næm fyrir innri hreyfiöflum málverksins, er ávallt meðvituð um að ekkert er „án endurgjalds“. Öll málverk hennar hafa að geyma ferliskrafta, hugarflæði, myndverðandi strauma … og aðdáunarverða óafhjúpaða þætti. Áhorfandinn þarf því einungis að raungera ferðamöguleika „Sjónrænna gangna“ í sjálfum sér til þess að finna til og skilja …

(Davíð Kristinsson þýddi)[1] Samkvæmt Ensk-íslenskri orðabók merkir „spoor“ slóð (villts) dýrs. Samkvæmt Oxford orðabókinni ensku merkir það slóð dýrs eða angan af dýri eða manneskju. Í málverkaröðinni „Spoor“ rekur Erla einhvers konar slóð úr fortíð þessa eftiriðnaðarsvæðis í Póllandi. Viðfangefni Erlu „Spoor“ kveikir hjá henni hugrenningartengsl m. a. við „tákn, mark, vísbendingu, sönnunargagn, slóð, fótspor, leifar, rest, menjar“ (Erla S. Haraldsdóttir, Nokkrar setningar um verkefni mitt „Staður sem við gætum farið á“, 2014, óbirt handrit, tölvupóstur til höfundarins, 24.2.2014).

[2] Erla S. Haraldsdóttir, óbirt handrit, tölvupóstur til höfundarins, 22.8.2014.

Til baka