28. nóvember 2015 til 20. desember 2015

Gáttir – Gleym mér ei

Laugardaginn 28. nóvember kl. 15:00 verður opnuð í Listasafni ASÍ sýning á verkum Bryndísar Hrannar Ragnarsdóttur, Gunnþórunnar Sveinsdóttur og Sirru Sigrúnar Sigurðardóttur en sýningin nefnist Gáttir – Gleym mér ei. Ath Víðsjárviðtal: http://www.ruv.is/frett/gatt-milli-listakvenna

Við tökum á móti sendingu frá Gunnþórunni Sveinsdóttur.

Sýningin mótast í innblæstri og samræðu þriggja listamanna. Aðskildar í tíma og rúmi mætast þær í formi og viðfangi. Með sendingum á borð við hreyfingar, takt, liti og form.

Gáttin er opin, andleg og vísindaleg nálgun eru lagðar að jöfnu.

Samræðan er meðvituð um skynjun okkar á afstæði tíma og fjarlægða.

Abstrakt expressjónísk tengsl við ytri og innri heima eru dregin upp og jafnframt því tengsl við annan og annarskonar tíma.

 

Skeyti sem skapað er og búið um af alúð,

 

sett út á óráðið haf með góðum óskum og von um lendingu

 

sjósett í tíma viðtakandans

 

verðum sendingin og sendingin finnur sér farveg

 

Gáttir – Gleym mér ei í Listasafni ASÍ

 

En ég varð oft hrifin af ýmsum smámunum, sem komu fyrir augu mín, stundum svo hrifin, að ég stóð og horfði hugfangin á sumt, sem var talið furðulegt, að gæti vakið hrifningu manna. Þá var ég eins og í öðrum heimi, já svo inndælum heimi, að ég tók nærri mér að yfirgefa hann. Þannig skrifar Gunnþórunn Sveinsdóttir (1885–1970) um eigin skynjun árið 1957 í minningabókinni  Gleym–mér–ei. Gunnþórunn fékkst við hið smáa, fíngerða, hverfula í verkum sínum - augnablikið þegar frostrósir myndast á gluggann, munstur sem endurtekur sig endalaust í náttúrunni, en hverfur líka jafn örugglega og það birtist aftur.

Hörður Ásgeirsson skrifar í Birting árið 1963 um verk Gunnþórunnar. „Eftirtektarvert er, að aflvaki verka hennar er sá sami og hjá nútímamálurunum: hún eins og þeir hefur víkkað skynsvið mannsins, stækkað sjónvídd hans, tekið eftir hinu stóra í því smáa, margslungið myndform frostrósar verður henni innblástursefni fremur en fjöllin, hið viðtekna landslag, og sjálft hugarflugið fær meira svigrúm en fyrr.“ 

Hugarflug Gunnþórunnar þótti í besta falli skrítið. Það að teikna frostrósir í snjóinn þótti alls ekki gagnlegt í því umhverfi sem fóstraði listakonuna. Gunnþórunn lýsir þessu sjálf:“Stundum og oftast gleymdi ég svo tímanum við þessa vinnu, að það var leitað að mér, og þá var talað til mín á þessa leið: Hættu þessum fjanda, þetta gerir þig vitlausa! Farðu strax inn og taktu prjónana þína eða eitthvert gagnlegt verk. Þú ert ekki með öllum mjalla, ef þú leggur þig niður við þessa hugsunarvillu!“

Hugsunarvilla Gunnþórunnar er einmitt það sem þær Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir (1974) og Sirra Sigrún Sigurðardóttir (1977) taka í arf og gera að yrkisefni sýningarinnar Gáttir – Gleym mér ei. Myndmálið tekst á við heiminn sem skynjun - birting hins óáþreifanlega, tjáning sem festir í form andardráttinn. Þær draga fram myndheim úr því smáa sem umlykur jörðina líkt og lofthjúpur hennar, forsenda lífsins sjálfs. 

Gísli Magnússon hefur ritað um samtímamann Gunnþórunnar, skáldið Rainer Maria Rilke (1875–1926): Esotericism and Occultism in the works of the austrian poet Rainer Maria Rilke. Þar lýsir hann ríkjandi viðhorfum meðal lista- og menntamanna Evrópu í upphafi 20. aldarinnar. Hinu rómantíska líkani, sem byggir að einhverju leiti á hugmyndum Hegels um Fyrirbærafræði andans - viðureign mannsandans við náttúruna - verður ekki lýst utan frá, en aftur á móti má hæglega „hugsa sig inn í“ framvindu þess, stig af stigi. Guðleg sköpun sem ferli, keðja tilverunnar, þróun hugveru og sálar sem áþreifanleg og meðvituð atburðarás. Hugsuðir eins og Rilke, Steiner, Blavatsky tóku við þessu sem raunverulegum kosti, þróuðu andsvar við Darwinisma sem þrengir hugveruna til áþreifanlegrar veru, til þess fasta, þess sýnilega, til nauðþurftar.

Hörður Ágústsson segir um verk Gunnþórunnar: Þau búa yfir þeim ferskleika og þeirri dirfsku í litum og lögun, sem einkenna verk barna og svokallaðs frumstæðs fólks, en skera sig þó úr að því leyti, að þau eru óhlutstæð; hugarsmíð. Hugvera Gunnþórunnar er stödd á stað óhlutbundinnar sköpunar, þrátt fyrir umhverfi sem bíður ekki upp á hugsun til framvindu andans í gagnvirku samtali við umhverfið. Því lítur Hörður svo á, með réttu að, framlag Gunnþórunnar spretti og hvíli á, sem í jarðvegi frumstæðra manna.

Bryndís Hrönn tekst á við sýningarrýmið að innan sem að utan. Borði liggur frá jörð og upp á húsþak, fuglamat er stráð á þakið. Verkið kallar á þátttöku fugla himinsins - himinn og jörð. Efnið kallar fram hljóðverk í takt við líkama Bryndísar, kraftar sem renna saman í eitt. Innsetning sem birtir tungumál upphafs og lífs milliliðalaust í samofnum takti. Rilke sagði Guð vera sköpun, tjáning listarinnar og þar af leiðandi væri hún guðleg - ferli sköpunarinnar er Guð. Þannig tekst Bryndís á við krafta umhverfisins, þróar samtal við efnisheiminn allan, án viðkomu í hugmyndarheim einnar tegundar. Hún á samtal við jörðina, rýmið, veggina, loftið, þakið, fuglana, himininn, heiminn, þann Guð sem frumstætt fólk kallar hugsunarvillu.

Sirra Sigrún hefur um langt skeið staðið fyrir þróun myndheims sem kallast á við tungumál, áferð raunvísinda. Tungutak Sirru lýtur þó ekki lögmálum raunvísinda, málfræðin er í stöðugri þróun, hleður upp á sig í samtali milli verka, milli sýningarstaða, milli gjörða. Hún sveigir verkin inn í lögmál hvers þess fyrirbæris sem yrkt er um í það skiptið, bætir við, tekur úr, umbreytir eigindum og formi þess sem tekist er á við. Með sama hætti og Gunnþórunn umbreytir náttúrufyrirbærum eins og frostrósum, sýnir Sirra okkur ósýnileg fyrirbæri sem umliggja okkar náttúrulegu veröld.

Stór ljósmynd tekin af frumeindum í Cloud Chamber birtir hið agnarsmáa, ósýnilega sem er þó grundvöllur lífsins sjálfs. Eind sem sveimar um og lítur efnislegum lögmálum í árekstrum við aðrar eindir. Hleður upp á sig, myndar nýja merkingu í gagnvirkum samskiptum við vilja Sirru. Ljóðskáldið Rilke sagði Guð vera hvort tveggja ferlið og afurð ferlisins, sem hefur áhrif á listamanninn. Þannig lítur Rilke á stöðu listamannsins út frá fjarvíddarpunkti þróunarsögu mannsandans, hin nýja hugvera sköpunarinnar (the avant-garde of human creativity) -listamenn eru smiðir Guðs. Samkvæmt Rilke er ferlið á milli Sirru og heimsins Guðlegt, með sama hætti og myndafurðin sjálf er Guð. 

Helga Þórsdóttir

Menningarfræðingur 

 

 

   

 

Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir ( 1974) nam myndlist við fjöltæknideild Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2002. Hún lauk meistaranámi frá Akademie der Bildenden Kunste í Vínarborg árið 2006.

Bryndís hefur tekið þátt í fjölda sýninga hérlendis og erlendis, einkasýning hennar Holning var hluti af  Listahátíð í Reykjavík 2015. Bryndís hefur einnig fengist við sýningarstjórn og útgáfu myndlistartengds efnis.

 

Gunnþórunn Sveinsdóttir (1885-1970) fæddist í Borgarey í Seyluhreppi, Skagafirði. Fjölskyldan fluttist að Mælifellsá í Lýtingsstaðahreppi er Gunnþórunn var níu ára og þar ólst hún upp. Ung að árum flutti Gunnþórunn til Sauðárkróks. Þar keypti hún lítið hús og stofnaði gistiheimili og sneri sér síðar að verslunarrekstri. Hún skreytti hús sitt sjálf, málaði kúnstverk á veggi og hurðir. Einnig málaði hún mikið af myndum með þekjulitum á smjörpappír og annan pappír sem til var í verslun hennar. Myndirnar eru flestar málaðar í hreinum, skærum litum, kraftmiklar og innilegar.

“Verk Gunnþórunnar búa yfir þeim ferskleika og þeirri dirfsku í litum og lögun, sem einkenna verk barna og svokallaðs frumstæðs fólks, en skera sig þó úr að því leyti, að þau eru óhlutstæð; hugarsmíð. Eftirtektarvert er, að aflvaki verka hennar er sá sami og hjá nútíðarmálurunum: hún eins og þeir hefur víkkað skynsvið mannsins, stækkað sjónvídd hans, tekið eftir hinu stóra í því smáa, margslungið myndform frostrósar verður henni innblástursefni fremur en fjöllin, hið viðtekna landslag, og sjálft hugarflugið fær meira svigrúm en fyrr.” Hörður Ágústsson í Birtingi árið 1963 bls 13.

„... ég varð oft hrifin af ýmsum smámunum, sem komu fyrir augu mín, stundum svo hrifin, að ég stóð og horfði hugfangin á sumt, sem var talið furðulegt, að gæti vakið hrifningu manna. Þá var ég eins og í öðrum heimi, já svo indælum heimi, að ég tók nærri mér að yfirgefa hann “ Gleym-mér-ei 1957, bls.10.

 

Sirra Sigrún Sigurðardóttir (1977) lauk námi frá Listaháskóla Íslands 2001, nam listfræði við Háskóla Íslands og lauk meistaranámi frá School of Visual Arts í New York 2013. Hún er í hópi áhrifamikilla listamanna hér á landi og hefur tekið þátt í fjölda sýninga, bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Listasafni Reykjavíkur og Tate Modern í London. Sirra er einn stofnenda og eigenda sýningarstaðarins Kling & Bang í Reykjavík þar sem hún hefur skipulagt fjölda sýninga og listviðburða með þátttöku innlendra og erlendra listamanna. Í desember 2012 var Sirra á meðal 24 alþjóðlegra listamanna sem tímaritið Modern Painters útnefndi sérstaklega sem listamenn sem vert er að fylgjast með á komandi árum.

Til baka