24. október 2009 til 15. nóvember 2009

Gunnfríður Jónsdóttir - Konan sem skrifaði nafnið sitt í gestabókina í Delfí

Saga Gunnfríðar Jónsdóttur er á margan hátt einstök en hún var fyrsta konan sem starfaði sem myndhöggvari á Íslandi Í Reykjavík hafði Gunnfríður kynnst Ásmundi Sveinssyni (1893-1982) og í nóvember 1919 urðu þau samskipa til Kaupmannahafnar sem var upphafið að tíu ára dvöl hennar erlendis. Þau Ásmundur voru gefin saman í hjónaband vorið 1924, en eftir að þau giftust vann Gunnfríður fyrir þeim með saumaskap meðan Ásmundur stundaði listnám, fyrst í Stokkhólmi og síðan í París. Sambúðin með myndhöggvara hefur eflaust glætt áhuga Gunnfríðar á höggmyndalist og hápunktur tíu ára dvalar Gunnfríðar erlendis var þriggja mánaða ferðalag sem þau Ásmundur fóru frá París til Ítalíu og Grikklands í janúar-apríl 1928. Ferðin hafði afgerandi áhrif á skoðanir Gunnfríðar á myndlist og þegar hún hóf listferil sinn þremur árum síðar voru áhrifin frá klassískri myndlist henni ofarlega í huga. Í viðtali við blaðamann mörgum árum síðar getur Gunnfríður þess að í Delfi hafi margt borið fyrir augu sem bar fornri hámenningu vitni, véfréttin hafi verið þögul en bergmálið sagt þeim mun fleira.

Eftir að heim kom,  mótaði Gunnfríður sína fyrstu mynd í leir sumarið 1931 en við það leystist sköpunarkraftur hennar úr læðingi og upp frá þessu var höggmyndalistin köllun hennar.  Þessa fyrstu höggmynd sína kallaði Gunnfríður Dreymandi dreng og var fyrirmyndin Gestur Þorgrímsson f. 1920, síðar frumkvöðull á sviði leirkerasmíða. Myndin sýnir höfuð lítils drengs. Andlit hans er mótað með þokka og nærfærni og augu hans eru hálflukt. Verkið hefur ekki yfir sér neinn byrjendabrag,  þó Gunnfríður hefði aldrei fyrr snert á leir. Hún var þjálfaður handverksmaður, sem í starfi sínu við klæðasaum hafði þróað með sér ríka tilfinningu fyrir hlutföllum mannslíkamans og öguð vinnubrögð

Upp úr 1930 hófust þau hjónin handa við að bygga sér hús með vinnstofum við Freyjugötu 41 og fluttu inn í það hálfbyggt síðla árs 1933.

Eftir að þau skildu bjó Gunnfríður ein í suðurhluta hússins og hafði vinnustofu sína í Gryfjunni.

 

Gunnfríður hélt ótrauð áfram að móta myndir eins og tími hennar og aðstæður leyfðu. Í fyrstu fékkst hún eingöngu við mótun mannamynda en þær voru helsta viðfangsefni hennar alla tíð.  Seinna vann hún einnig stærri höggmyndir eins og t.d.  Landsýn við Strandarkirkju, höggmyndin af Guðmundi góða að Hólum, Síldarstúlkurnar í Ráðhúsinu í Stokkhólmi og Á heimleið sem er staðsett í Hljómskálagarðinum í Reykjavík.

Gunnfríður sýndi verk sín hér heima og á norðurlöndum og fékk jákvæða gagnrýni , m.a. frá finnska myndhöggvaranum Aaltonen og Jóhannesi Kjarval sem skrifaði undir nafninu Diskus hér á Íslandi. Flest verka hennar eru í eigu Listasafni Íslands.

Gunnfríður bjó í húsinu við Freyjugötu þar til hún lést árið 1968.

 

Sýningarstjórar eru Kristín Guðnadóttir og Steinunn Helgadóttir

Til baka