11. febrúar 2011 til 06. mars 2011

Gunnhildur Hauksdóttir og Kristín Ómarsdóttir - Gjöf til þín yðar hátign

Uþb. 17 leikin atriði verða tekin upp í safninu, umheimur smíðaður og fólki boðið að koma og leika og lesa í búningum og sviðsmyndum. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt eru beðnir að skrá sig á netfangið gjoftiltinydarhatignmail.com. Sýningarstjóri er Hannes Lárusson.

Nornir og veiðimenn

 

Þeir sem hafa verið á skaki þekkja þá tilfinningu að láta línu með mörgum önglum sem á er beita síga í grængráan sjóinn og bíða átekta. Þegar línan er dregin inn gerist það stöku sinnum að gljáandi og spriklandi fiskur hangir á hverjum öngli. Fyrsta handtakið þegar aflanum hefur verið slengt inn fyrir borðstokkinn er að bregaða hníf á kverkar hvers fiskjar, slengja honum til hliðar með hraði, beita og renna línunni aftur út. En stundum þegar dregið er dinglar aðeins fiskur á einum og einum öngli, oft koma allir önglanir aftur  berir og alslausir upp úr myrkrinu.

Grautur kraumar í stórum potti, hann rís og blæs og hnígur aftur letilega ofan í sjálfan sig. Einhver vakir yfir pottinum og hræir reglulega í með stórri sleif. Það þykir ekki gott á seinni tímum að sjá fyrir sér tvær konur hræra á víxl í hversdagslegum grautarpotti og trúlega enn verra ef potturinn væri á hlóðum og taðreykurinn fyllti rýmið. Hugsanlega gæti nálgunin orðið ásættanleg ef inn úr reyknum heyrðust torkennilegar þulur og yfir pottnum væru nornir tvær að hræra í seiði sínu.

Gunnhildur og Krístín veiða og hræra. Þær renna önglum sínum oní grængolandi djúp undirmeðvitundarinnar og draga oftar en ekki upp spriklandi fiska, einu og einu kindarlegu sæskrímsli ná  þær upp að borðstokknum, eða þá þær setja í hafgúur, fjörulalla eða sædjöful. Í undirmeðvitundinni býr margt hættulegt, þar rennur blóðið og hausarnir fjúka, vanskapaðir púkar skjótast út úr skotum og boða allt annað en gott, hálfkveðnar vísur nísta inn að beini. En ef vel er hlustað má  þar líka greina margræðan óm óuppfylltra óska, þar er meira að segja hægt að dingla í hengirúmi milli tveggja pálmatrjá með sólarhatt og rommglasi í hendi til eilífðarnóns.

Þær Kristín og Gunnhildur veiða ekki bara í soðið, þær fara líka á stjá á þurru landi og safna í pottinn dagsbirtugóssi, allt frá laufum og rótum ættartrjá, orðaleppum, tikktúrum, dagdraumum, köttum og kerlingum. Þær fara með kústana út á götunar, inn í háskólana, inn á heimilin og hausana, hugarfylgsnin og skúmaskotin. Það sem kústarnir safna er stundum jafnsleipt í hendi og það sem á önglum hangir. Ef ég væri spurður hvaða verkfæri nota þær stöllur við vinnu sína væri svarið önglar og kústar. Það eru vísjárverð verkfæri, kvenlægir og karllægir í senn þeir tilheyra tveimur heimum.

 Öðrum þurrum, hinum blautum, öðrum björtum, hörðum og flötum, hinum djúpum, myrkum og köldum.  Þegar betur er að gáð gengur  listsköpuna þeirra Gunnhildar Hauksdóttur og Kristínar Ómarsdóttur út á að ríða á kústsköftum og gleypa öngla.
Hannes Lárusson

 

 

Til baka