11. október 2014 til 02. nóvember 2014

Hallgerður Hallgrímsdóttir - Hvassast úti við sjóinn

Hvassast úti við sjóinn er rannsókn á íslenskum hversdegi. Samansafn eilífra augnablika, fjalla sem ekki gjósa, endurtekinna daga og óræðra andlita. Hinn skáldaði raunveruleiki er leikfang ljósmyndarans. Ljósmyndin er ekki svar, hún er tillaga. Þetta er samansafn tillaga. Tillaga sem sýna fast land og breytilegt, áferðir, skýjafar og svefnóra. Sýna fábrotnu kyrrðina og fólkið sem í henni býr. Við erum viðkvæm í návígi við alla þessa náttúru og ónáttúru, sem við sveipum okkur í. Eins og ekkert sé sjálfsagðara.

 

Sýningin samanstendur af fjórum verkum þar sem ljósmyndir, texti og fundið efni draga saman fram hljóðláta og gleymda fegurð hversdagsins. Myndirnar voru teknar víðsvegar um Ísland, frá Bakkafirði til Voga á Vatnsleysuströnd, á fjallstindi og við fjöruborð.

 

Hallgerður Hallgrímsdóttir (f. 1984) lauk námi í Fine Art Photography við Glasgow School of Art árið 2011 og hefur síðan unnið að myndlist sinni og meðal annars sýnt í The Photographer's Gallery í London, Hasselblad Center í Gautaborg og á myndlistarhátíðinni Glasgow International. Einnig tók hún þátt í þverevrópska verkefninu European Borderlines en afrakstur þess var sýndur í Norræna húsinu.

 

Hallgerður notar ljósmyndamiðilinn á afgerandi hátt en í verkum hennar er mikið lagt upp úr úrvali og samsetningu mynda. Þannig spila myndirnar saman og skapa heild eða sögu, einskonar collage. Hallgerður heillast af hversdagslegri fegurð og beinir gjarnan sjónum að hinum ómikilfenglegu augnablikum lífsins.

 

hallgerdur.com

hallgerdur.hallgrims@gmail.com

Til baka