04. október 2008 til 26. október 2008

Haraldur Jónsson - Myrkurlampi

Á sýningunni eru ný verk úr ýmsum efnum og óefnum, m.a. hljóðverk, keramikhlutir, leiðsluverk og ljósmyndir. Öll eru verkin unnin sérstaklega út og inn frá byggingunni sjálfri og vísa til mismunandi og margbrotinna skynsviða áhorfandans. Listamaðuirnn tengist húsinu og Skólavörðuhæðinni órofa böndum en hann sleit einmitt barnsskónum þegar hann sótti sína fyrstu myndlistartíma á þessum stað. Í tilefni af sýningunni kemur út sýningarskrá með textanum Skynheimar eftir Sigríði Þorgeirsdóttur heimspeking.

Skynheimar
 
„Myrkurlampi“ er samkvæmt öllum venjubundnum skilningi öfugmæli. Lampar eru til þess að kveikja ljós, ekki myrkur. Strangt tiltekið eru myrkur og ljós samt ekki andstæður vegna þess að myrkur er ekki annað en ljósleysi. Það má segja að ljósið „opinberist“ í myrkrinu sem eitthvað sem er ekki þarna. Með verki sínu um myrkurlampann veltir Haraldur Jónsson m.a. fyrir sér samspili skynjunar og veruleika við aðstæður þar sem við skynjum afbrigði ljóss og myrkurs. Við ljós taka hlutirnir á sig lit. Á næturnar, hins vegar, „eru allar kýr svartar,“ eins og Hegel orðaði það. Litir eru ágætis dæmi um hugmynd Haraldar um eðli skynjunar. Skynjun lita á sér stað fyrir tilstilli gerðar augans, ljósbrots og eiginleika hlutanna. Stundum er fullyrt að heimurinn sé ekki í lit, heldur að samspil skynfæris og hins skynjaða geri að verkum að við skynjum eitthvað í ákveðnum lit. Orð um hlutina standa veruleika þeirra enn fjær en skynjun á þeim. Orðin sem við notum til að lýsa mismunandi litum – og sem eru lesin upp í verkinu – eru engin endurspeglun á eðli litanna. Það er ekki samsvörun milli orðsins „blátt“ og bláma himinsins, hvað þá að „hvítt“ endurspegli hvað snjór er.
 
Haraldur einbeitir sér ekki fyrst og fremst að orðum um veruleika. Hann beinir mun frekar sjónum að tengslunum milli sjálfs og veruleikans. Tengslin eru nokkurs konar svæði eða heimur á milli sjálfs og veruleika. Tengsl okkar við hlutina eru ekki alfarið huglæg. Veruleikinn er ekki bara samsafn hluta, fyrirbæra eða eiginleika sem við höfum gefið nöfn eða tákn. Sem líkamar erum við líka „hlutir” sem eru í gagnvirkum tengslum við aðra hluti efnisheimsins. Tengslin eru ekki heldur alfarið hlutlæg vegna þess að alls konar reynsla mótar skynjun. Svæði tengsla sjálfs og veruleika er hvorki einungis skilyrt af orsakasamhengi né eða af ætlandi manns. Tengslin eru miklu fremur svæðið „inn á milli“, og það er sá staður sem Haraldur fjallar um í verkum sínum. List hans felst að verulegu leyti í rannsóknum á eðli skynjunar og ólíkra skynheima.
 
Þá má sjá líkindi með rannsóknum Haraldar og nálgunum heimspekilegrar fyrirbærafræði þótt aðferðir og miðlunarmátar heimspeki og lista séu oftast ekki þau sömu. Franski fyrirbærafræðingurinn Maurice Merleau-Ponty setti fram hugmynd um veruleikann sem “hold“ (fr. chair). Í verkum Haraldar má skynja og skilja efnisheiminn í öllum sínum áþreifanlegu og óáþreifanlegu myndum sem þetta hold sem Merleau-Ponty fjallaði um. Eitt fyrri verka Haraldar heitir „Krumpað myrkur.“ Myrkrið í því verki tekur á sig efniskennda mynd, en í raun eiga hið efnislega og óefnislega það sameiginlegt að vera einhvers konar kraftur eða orka. Þess vegna er stýri- eða -sýndarrými („sæberspeis“) líka hold í þessum víða skilningi. Hold er einhvers konar frumveruleiki sem lætur skynjun og hið skynjaða verða til í gagnvirkum tengslum sem ósjálfráða eða óútreiknanlega virkni holds.
 
Við höfum aðgang að mismunandi skynheimum holds fyrir tilstilli reynslu og upplifunar líkama okkar sem er nokkurs konar holdguð skynsemi. Líkt og við erum hlutar af heiminum og tökum þátt í alls kyns skynheimum þá er líkaminn margir heimar út af fyrir sig. Haraldur hefur áhuga á líkamlegum fyrirbærum sem sýna að sál og líkami eru eitt eða nánar tiltekið að efni og andi tvær eru hliðar á sama peningi. Það er líkast til ein ástæða fyrir áhuga hans á tilfinningum, en tilfinning eins og blygðun getur t.d. birst í að roðna. Roðinn er líkamstjáning tilfinningarinnar. Verkið „Kuldablettir“ má sjálfsagt setja í samhengi við þessar hugleiðingar Haraldar um tilfinningar. Jafnvel þótt hlýni í veðri streitast kuldablettirnir við að bráðna. Sumir setja tilfinningar sínar á ís. Hlutverk listarinnar að dómi Franz Kafka á að vera að höggva eins og öxi á hafísinn inn í okkur.
 
Túlkanir okkar á veruleikanum eru tilraunir til að höndla hann. Með verki sínu „Blindnur“ sýnir Haraldur einmitt að skynjanir okkar á veruleikanum verða til úr ómótuðuðum efniviðnum sem tekur síðan á sig mót þess sem fer um hann höndum. Sami efniviðurinn tekur á sig ýmsar myndir. Haraldur mótar skúlptúrana með berum höndum og lokuðum augum. Þessir litlu skúlptúrar eru efnisgerð snertiskynjunarinnar einnar og birta þess vegna veruleikaskynjun eða „heimssýn” án sjónar. Verkin gefa vísbendingu um að öll túlkun á skynjun er að einhverju leyti fálm í myrkri þeirrar óreiðu og flækju sem veruleikinn oft er.
 
„Skynfæraleg“ er eitt verkanna á sýningunni. Hugsanlega lýsir það einna best nálgun Haraldar. Verkið er sett saman úr hlutum sem eru úr innvolsi húsa. Þarna sjást leiðslur, rör, tengi, einangrunarefni og annað sem heldur lífkerfi húss gangandi með flæði ljóss, vatns, straums, varma og úrgangs. Án alls þessa væru híbýli ekki starfhæf og húsið „dautt“, kalt, hljótt og þurrt. Lífæðar húsa eru sjaldnast sjáanlegar, ekki frekar en tauga-, vessa-, eitla eða æðakerfi mannslíkamans. Þessir huldu heimar lífæða og samskiptaneta eru milliheimar sem Haraldur varpar ljósi á með verkum sínum. Við skynjum þessa milliheima með ýmsum hætti þótt við sjáum eða heyrum þá ekki. Veruleikinn sjálfur er þetta marglaga hold sem ekki tekst að henda reiður á nema á brotkenndan hátt. Við sjálf erum margskipt milli ýmissa heima, eins og ef við sitjum í flugvél með netið opið á fartölvunni.
 
Merleau-Ponty skrifaði hjá sér rétt áður en hann dó að hann vildi gjarnan sálgreina náttúruna, sem hann sagði vera holdið, hina hlið mannsins og „móðurina.“ Honum entist ekki aldur til að útskýra nánar hvað hann átti við með þessari staðhæfingu. Haraldur kemur kannski með vísbendingu með hugmynd sinni um „skynfæraleg.“ Við getum skilgreint hold sem skynfæra-leg sem allir skynheimar eiga uppruna sinn í. Þess vegna einskorðast hold í þessum víða skilningi skynheima ekki við lifandi náttúru og ekki við efni. Hið efnislega og hið óefnislega, ljós og myrkur eru mismunandi hliðar holdsins. 
 
Verkið „Speglar” fjallar um og sýnir hvernig hið ljósa og hið myrka eru hvort öðru háð. Það vísar inn í áðurnefnt millisvæði og endurvarpar sömuleiðis birtu salarins krumpaðri í gegnum roðnandi skerma. Ef við notum ljós og myrkur til að myndhverfa tilfinningar þá er fullvíst að það er ekki hægt að tala um tilfinningar sem eru alfarið í ríki ljóss eða alfarið í ríki myrkurs. Það er hvorki hægt að vera algóður né alvond. Þessu má lýsa með sögu. Búddískur munkur sem eitt sinn tók þátt í námskeiði um tilfinningar og samskipti ásamt öðrum búddistum á að hafa sagt að hann hefði ekki reiðst í 20 ár. Búddísk nunna sem þarna var svaraði að bragði að þá hefði hann ekki átt í samskiptum í 20 ár. Án ljóss væru ekki skuggar, og án skugga sæjum við ekki ljósið.
 
Sigríður Þorgeirsdóttir

 

Til baka