20. maí 2011 til 12. júní 2011

Harpa Árnadóttir - Að fanga hverfandi andrá

Hversu lengir varir augnablik? Á sýningu Hörpu Árnadóttur, Mýrarljós, má sjá hugleiðingar um hverfulleika hinnar síkviku andrár, tilraunir til að framlengja hana, lifa í henni og njóta. Náttúrufyrirbærið mýrarljós er eins og regnboginn, ljósblik í andrúmsloftinu sem færist undan þegar nær er komið og verður aldrei njörfað niður. Fyrr en varir er það horfið. Eitt andartak kann maður að upplifa umhverfi sitt í áreynslulausu jafnvægi – renna saman við hér og nú – en um síðir tekur hugurinn stjórn, byrjar að skilgreina, skrá og flokka og augnablikið er liðið.

Harpa Árnadóttir - Mýrarljós 

 

 

 

 

Sýning Hörpu hverfist um upplifun hennar í júní síðasta sumar á meðan hún dvaldi á gestavinnustofunni Bæ í Skagafirði. Ár er liðið og nú lítur sýning dagsins ljós sem endurspeglar þau augnablik sem hún upplifði þá og ennfremur hvernig hún hefur reynt að framlengja þau með ýmsum hætti. Hún gerir ekki eingöngu tilraun til að rifja upp liðinn tíma heldur til að skapa aðstæður þar sem sýningargestir geta orðið fyrir eigin hughrifum af verkunum. Júní Hörpu verður að júní áhorfandans.

 

Verkin voru ýmist unnin í hendingu úti í náttúrunni í Skagafirði, útfærð nánar inni á gestavinnustofunni þar, þaulunnin á lengri tíma í vinnustofu Hörpu í Reykjavík eða hugsuð beint inn í rými sýningarsalanna hér í ASÍ. Þau bera með sér löngun til að varðveita hendingu og tilviljun og draga fram vægi þeirra í samhengi upplifunar. Efni og framsetning eru af ólíkum toga en inntakið er alltaf tilvísun í hina persónulegu og einstöku upplifun. Hún er eins hversdagsleg og hugsast getur, hvorki dramatísk né í frásögu færandi í hefðbundnum skilningi. Hana þekkja allir og geta tengt við þótt hér sé hún byggð á reynslu og úrvinnslu eins listamanns.

 

Gegnumgangandi í sýningunni er texti sem byggist á dagbókarfærslum Hörpu frá Skagafirði. Í Gryfju er textinn vafinn inn í myndadagbók sem sýnir ýmist náttúruleg fyrirbæri eða óhlutbundna litapallettu sem endurspeglar aðstæður hið ytra og ef til vill hið innra. Þessar arkir mynda saman verkið Júní sem er gefið út á bók um þessar mundir. Í Arinstofu eru vatnslitablöð sem voru unnin undir berum himni en einnig skrásetning umhverfisins í ljósmyndum sem eru valdar saman með textabrotum. Á hverjum degi tók Harpa mynd af Drangey sem blasti við úti á firðinum frá bæjarhlaðinu þar sem hún dvaldi og skrásetti hina síbreytilegu mynd hins ævarandi umhverfis. Á rúður Arinstofu og Ásmundarsalar hefur hún unnið verk sem hafa fylgt henni um langa tíð þar sem regndropar eru fangaðir í fasta mynd áður en þeir gufa upp og hverfa. Uppi í salnum má sjá annað verk sem á sér lengri sögu en aftur til eins árs. Sama hvað Harpa fæst við hverju sinni er hún gjarnan með striga í vinnslu á vinnustofunni sem hún ber á lím og duft til skiptist. Striginn spennist og slaknar á víxl og á yfirborðinu taka sprungur að myndast. Verkið verður eins og ósjálfráður andardráttur sem liggur að baki annarri starfsemi á vinnustofunni. Annað sem varðveitir ófyriséða framvindu er vinnuborð Hörpu úr vinnustofunni en á því vann hún önnur málverk og vatnslitamyndir á sýningunni. Það endurspeglar vægi tilviljunar og ósjálfráðrar framvindu í upplifun og varðveislu þeirra augnablika sem er að finna á sýningunni. Í salnum eru nokkur vatnslitamálverk sem unnin eru  á pappír og striga lag fyrir lag þannig að ólík litbrigði framkallast líkt og birta í lofti eða endurvarp ljóss af vatni. Á innri gafli salarains hanga loks málverk sem kallast á við dagbókarverkið í Gryfju. Í stað þess að verkin spretti beint úr náttúruupplifun Hörpu fyrr um daginn hefur íhugun og úrvinnsla blandast nýjum augnablikum á vinnustofunni þar sem tilviljun þar innandyra hefur áhrif á verkin. Þar tvinnast saman hugleiðingar úr dagbókunum við  milda liti og hárfín form.

 

 

 

Markús Þór Andrésson

sýningarstjóri 

Til baka