03. júní 2006 til 25. júní 2006

Huginn Þór Arason og Unnar Örn Jónasson - así fraktal grill

Huginn og Unnar vinna sýninguna ASÍ – FRAKTAL - GRILL í sameiningu með umhverfi sýningarstaðarins í huga. Listamennirnir reyna með sýningunni að fletta ofan af illsýnilegum, óskráðum en kannski augljósum hliðum þess samfélags – umhverfis sem þeir starfa innan. Titillinn á sýningunni vísar beint í safnið sjálft - Listasafn alþýðu sem stofnað var í kringum listaverkagjöf Ragnars í Smára til verkalýðs þjóðarinnar. FRAKTAL - vísar í þær reikniaðferðir og heimspekikerfi sem notuð eru til að útskýra flókin órökræn fyrirbrigði bæði í náttúrunni og samfélaginu. Að brjóta niður í staðinn fyrir að byggja upp er aðferð sem Huginn og Unnar hafa unnið með áður, en sú aðferð miðar að því að opna fyrir ólíka túlkunarmöguleika í staðinn fyrir að afmarka þá. GRILL - er þekktur staður í íslenskri menningu, staður sem allir hafa komið á og er eins og sjoppan, staður þar sem hægt er að ná sér í skyndibita á stuttum tíma með litlum tilkostnaði. Oftar en ekki kemur kostnaðurinn við bitann niður á gæðum þess efnis sem hann er gerður úr.

Listasafn ASÍ er í Ásmundarsal, húsi sem kennt er við Ásmund Sveinsson

myndhöggvara en hann reisti húsið árið 1933 með þáverandi konu sinni Gunnfríði

Jónsdóttur.  Ásmundur bjó þar til 1942 er hann hóf að byggja kúluhúsið við

Sigtún, sem nú hýsir Ásmundarsafn, en Gunnfríður bjó í sínum hluta hússins þar

til hún lest árið 1968. Listasafn ASÍ eignaðist húsið árið 1996 en áður hafði safnið

verið til húsa við Grensásveg í Reykjavík. Í listasafninu eru þrír

sýningarsalir: Ásmundarsalur sem er þeirra stærstur, um 100 m2 að flatarmáli,

sýningarsalurinn Gryfjan eða Gunnfríðargryfja sem er um 20 m2 að flatarmáli með

mikilli lofthæð og síðan er salur sem kallaður er Arinstofan eða Kaffistofan sem er um 25 m2.

 

Með sýningunni fylgir sýningarskrá þar sem nokkrir lista- og fræðimenn hugleiða

þau viðfangsefni sem Huginn og Unnar hafa kosið að fjalla um á sýningunni.

Höfundar efnis í skránni eru Ásmundur Ásmundsson, Oddný Eir Ævarsdóttir,

Sigurður Magnús Finnsson, Kjartan Páll Sveinsson, Kristín G. Guðnadóttir, Karlotta

Blöndal, Friðrik Sólnes, Markús Þór Andrésson og Guðmundur Oddur Magnússon. Í

skránni er einnig texti eftir Kristin Pétursson málara (1896-1981).

 

Huginn og Unnar gera safnið að módeli þar sem þeir leitast við að ramma inn

íslenskan veruleika. Er íslenskt samfélag það salat sem að það gefur sig út

fyrir að vera, opið innan þess ramma sem kallaður er fjölmenning?

Listamennirnir telja að samfélag nútímans gefi misvísandi skilaboð til þeirra

sem byggja landið. Íslenskt samfélag er byggt á grunni velferðarkerfis þar sem

öllum á að vera boðin þátttaka og gefið tækifæri til vera með, en samtímis

eykst misskipting og bilið milli stétta verður breiðara en það hefur verð

síðustu 50 árin.  Í samfélagi þar sem reglur þeirra hæfustu gilda, verða sumir

undir, eru afgangs eða nokkurs konar rest, leifar sem hægt er að nýta sem

vinnuafl eða uppfyllingu, til skrauts á þá lagköku sem samfélagið telur sig

vera.

 

Það er okkar einlæg ósk og von að þessi sýning verði til að efla áhuga og

skilning á list.

 

List er ekki spegill – List er hamar

 

Huginn Þór Arason  Unnar Örn J. Auðarson

Til baka