05. apríl 2008 til 04. maí 2008

Klessulistarhreiðrið - Listvinasalurinn 1951- 1954

Listvinasalurinn var stofnaður árið 1951 af þeim Birni Th. Björnssyni og Gunnari Sigurðssyni í húsnæði Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara við Freyjugötu 41, þar sem nú er Listasafn ASÍ. Til að minnast þessa mikilvæga kafla í sögu hússins – og íslenskrar myndlistar - var sýningin Klessulistarhreiðrið opnuð í Listasafni ASÍ 5. apríl sl. Titill sýningarinnar er fenginn úr blaðaskrifum um Listvinasalinn, en óhætt er að fullyrða að ekki hafi ríkt nein lognmolla í kringum starfsemi hans.

Listvinasalurinn var fyrsta gallerí sinnar tegundar í Reykjavík og  atkvæðamikill þáttakandi í listalífi Reykjavíkur þau ár sem hann var starfræktur. Stjórnendur hans lögðu áherslu á nútímalist, sérstaklega geómetrískri og abstrakt.

Ekki voru allir jafn hrifnir af þessari “nýju” tegund myndlistar og umræður urðu oft heitar.

Flestir listamannanna sem sýndu í salnum voru ungir og íslenskir, en metnaðurinn var mikill hjá rekstraraðilum og er skemmtilegt að geta þess að í Listvinasalnum voru sýnd verk eftir listamennina  Jean Arp, Picasso, Braque og Kandinsky sem Hörður Ágústsson kom með heim frá París í farangrinum. 

Listvinasalurinn var ekki bara vettvangur sýninga, þar voru líka haldin lífleg kynningarkvöld þar sem rætt var og rifist um myndlist, lesið úr óútkomnum verkum ungra rithöfunda og flutt metnaðarfull tónverk, auk kvikmyndakynninga, fyrirlestra um listasögu og heimspekilegrar umræðu. Þessi kynningarkvöld urður svo vinsæl að þau sprengdu utan af sér rýmið og neyddust aðstandendur þeirra að flytja þau í stærra húsnæði í Leikhúskjallarann og Stjörnubíó.

Árið 1952 var haldin ljósmyndasamkeppni áhugaljósmyndara. Hluti þessara mynda hefur varðveist og gefa þær innsýn í umhverfi Listvinasalarins, fólkið í landinu og tímabilið almennt á þessum fyrstu árum sjötta áratugarins. 

Í Klessulistarhreiðrinu má finna verk margra af  listamönnunum sem sýndu í Listvinasalnum og t.d. eru málverk á sýningunni eftir Svavar Guðnason, Þorvald Skúlason, Nínu Tryggvadóttur og Karl Kvaran. Mörg þessara verka koma úr safni Gunnars Sigurðssonar, annars stofnenda Listvinasalarins og er þetta fágætt tækifæri til að skoða þau.

Sýningarstjórar eru Kristín G. Guðnadóttir, Steinunn G. Helgadóttir og Gunnar Gunnarsson

 

Til baka