31. janúar 2015 til 01. mars 2015

#KOMASVO

#KOMASVO! FINISSAGE laugardaginn 28. febrúar og sunnudaginn 1. mars. Listamennirnir verða á staðnum og ræða við gesti og gangandi. Á sunnudag kl. þrjú verður BINGÓPANELL - vegleg verðlaun í boði. RÝMINGARÚTSALA verður á verkunum - allt á að seljast!! Listamenn: Leifur Ýmir Eyjólfsson, Ásgeir Skúlason, Nikulás Stefán Nikulásson, Sigurður Atli Sigurðsson, Sindri Leifsson og Sæmundur Þór Helgason. Framkvæmdarstjóri: Íris Stefanía Skúladóttir. http://www.ruv.is/sarpurinn/vidsja/03022015 #KOMASVO í Víðsjá

#KOMASVO er heiti samsýningar í Listasafni ASÍ sem stendur til 1. mars 2015. Undirbúningur sýningarinnar kemur víða við og er skilyrtur af mörgum þáttum á borð við dómnefndir, framkvæmdastjóra, markaðsfræðing, listamenn, grafískan hönnuð, listfræðing, styrktaraðila, vörumerki, fyrirtæki og fleira.
Farnar verða ótroðnar slóðir til að skoða samband myndlistar, markaðs og íþrótta. Markaðurinn verður skoðaður sem óhjákvæmilegur hluti af listsköpun hins nútíma myndlistamanns en íþróttir og þeirra eðli virka á sýninguna sem hvati fyrir listamenn til að tileinka sér vinnuaðferðir íþróttamanna þar sem liðsheild skiptir höfuðmáli. Einnig verður unnið með samanburð á listum og íþróttum í okkar samfélagi í vinnuferlinu sem smitar yfir í sýninguna. Verkum verður skipt út og ef einhver fá ekki góða umfjöllun fá þau rauða spjaldið og jafnvel vísað úr leik.

Ljósmyndakeppni vegna sýningarinnar í Listasafni ASÍ

Íris er framkvæmdastýra hópsins #KOMASVO sem skipaður er af sex listamönnum sem opna sýningu undir sama nafni 31. janúar í Listasafni ASÍ.
„Sýningin er samsýning sex listamanna en það sem verið er að skoða er samband myndlistar, markaðs og íþrótta. Samkeppnin kom til vegna þess að við tengjum hana við „hæpið“ sem er til dæmis í kringum íþróttir. #KOMASVO spilar inn í markaðshugsunina að „massa þetta“ og „fá flest læk“. Við tengjum þetta frekar við markað og íþróttir en nokkurntíma myndlistarsýningu. Við erum ekki að gera grín að íþróttum, markaðnum eða hæpi almennt, heldur viljum bara skoða það í þessu sambandi,“ segir Íris.

„Með ljósmyndasamkeppninni viljum við gefa öllum tækifæri til þess að sýna í virtu listasafni,“ segir að lokum í tilkynningu frá listamönnunum sex en ljósmyndin sem hreppir fyrsta sætið verður prentuð út risastór og gefin til safneignar ASÍ. Þá verða fleiri vegleg verðlaun í boði fyrir sigurvegarana.
Myndirnar sem eru að koma inn eru mjög ólíkar og koma úr ólíkum áttum en það er einmitt það sem við viljum – að fá fólk til þess að taka þátt sem við myndum aldrei búast við að tæki þátt,“ segir Íris Stefanía Skúladóttir um ljósmyndasamkeppni #KOMASVO sem fer fram á Facebook þessa dagana.

Til baka