08. september 2012 til 30. september 2012

MINNING UM MYNDLIST

Útimyndlistarsýningarnar á Skólavörðuholti 1967 - 1972 brutu blað í sögu höggmyndalistar á Íslandi og voru jafnfram kímið að stofnun Myndhöggvarafélagsins. Sýningarnar fimm voru víðfeðmar. Fjörutíu og fimm listamenn á aldrinum 17 – 75 ára tóku þátt. Eldri kynslóð virtra listamanna, ungir róttækir listamenn , listnemar og áhugamenn sýndu hlið við hlið verk sem spönnuðu mikla vídd í aðferðarfræði, inntaki og efni. Grásteinn, brons, tré og járn jafnt sem plast, fundnir hlutir og heilhveitibrauð var efniviður verkanna á Holtinu. Andi og hugsjónir 1968 kynslóðarinnar sveif yfir vötnunum – samvinna, bjartsýni, sköpunarkraftur og tjáningarfrelsisvitund en einnig sterkur vilji til að gera myndlist sýnilegri í borgarmyndinni og ná til hins almenna borgara. Sýningarnar fengu mikla athygli, margir hneyksluðust en aðrir nutu nýstárlegrar myndlistar með opnum huga en vissulega breyttu útimyndlistarsýningarnar skilningi almennings á höggmyndalist.

Útimyndlistarsýningarnar  á Skólavörðuholti 1967 - 1972 brutu blað í sögu höggmyndalistar á Íslandi og voru jafnfram kímið að stofnun Myndhöggvarafélagsins.  Sýningarnar fimm voru víðfeðmar. Fjörutíu og fimm listamenn á aldrinum 17 – 75 ára tóku þátt. Eldri kynslóð virtra listamanna, ungir róttækir listamenn , listnemar og áhugamenn sýndu hlið við hlið verk sem spönnuðu mikla vídd í aðferðarfræði, inntaki og efni. Grásteinn, brons, tré og járn jafnt sem plast, fundnir hlutir og heilhveitibrauð var efniviður verkanna á Holtinu.  Andi og hugsjónir 1968 kynslóðarinnar sveif yfir vötnunum – samvinna, bjartsýni, sköpunarkraftur og tjáningarfrelsisvitund en einnig sterkur vilji til að gera myndlist sýnilegri í borgarmyndinni og ná til hins almenna borgara. Sýningarnar fengu mikla athygli, margir hneyksluðust  en aðrir nutu nýstárlegrar myndlistar með opnum huga en vissulega  breyttu útimyndlistarsýningarnar  skilningi almennings á höggmyndalist.

Nú um fjörutíu árum síðar er kominn tími til að skoða og endurskoða þennan merka listviðburð. Ámundarsalur – hús Ásmundar Sveinsonar á Skólavörðuholti sem nú hýsir Listasafn ASÍ - var vagga sýninganna og því viðeigandi að minnast þeirra í þessu sögufræga húsi. Á sýningunni verða nokkur þeirra verka sem sýnd voru á Holtinu m.a. eftir Diter Roth, Hallstein Sigurðsson, Inga Hrafn Hauksson, Jón Gunnar Árnason, Jón B. Jónsson, Ragnar Kjartansson, Sigrúnu Guðmundsdóttur, Sigurjón Ólafsson og Þorbjörgu Pálsdóttur.  Stór hluti verkanna er ekki lengur til svo sem Flugan hans Magnúsar Tómassonar og Súperþvottavélin hennar Rósku og verður mörgum þeirra gerð skil með ljósmyndum og öðrum heimildum. Verður þar m.a. stuðst við einkaljósmyndasafn og úrklippusafn Ragnars Kjartanssonar, myndhöggvara.  Einnig verður sýnd ný heimildamynd eftir Katrínu Agnesi Klar og Ingu Ragnarsdóttur sem byggir á viðtölum við nokkra af þeim listamönnum sem tóku þátt í útimyndlistarsýningunum.

 

 

 

Þátttakendur í útimyndlistarsýningunum voru:

Benóní Ægisson, Blómagrúppan/Óttar Felix Hauksson og Karl Júlíusson, Diter Roth, Björgvin Sigurgeir Haraldsson, Einar Hákonarson, Erlendur Finnbogi Magnússon, Gestur Þorgrímsson, Guðmundur Ármann Magnússon, Guðmundur Benediktsson, Guðmundur Elíasson, Guðmundur Másson, Gunnar Örn Gunnarsson, Gunnar Malmberg, Gunnsteinn Gíslason, Gylfi Gíslason, Hallsteinn Sigurðsson, Hreinn Friðfinnsson, Ingi Hrafn Hauksson, Jóhann Eyfells, Jón Gunnar Árnason, Jón Benediktsson, Jón B. Jónasson, Jónína Guðnadóttir, Kolbrún Benediktsdóttir, Kristín Eyfells, Kristján Guðmundsson, Kristján Ingi Einarsson, Magnús Á. Árnason, Magnús Pálsson, Magnús Tómasson, Ragnar Kjartansson, Róska, Sigfús Thorarensen, Sigurður Guðmundsson, Sigurður Steinsson, Sigurlinni Pétursson, Sigrún Guðmundsdóttir, Sigurjón Ólafsson, Snorri Sveinn Friðriksson, Sverrir Haraldsson, Sævar Daníelsson, Þorbjörg Pálsdóttir, Þórður Ben Sveinsson/Sun Trip Company.

 

 

Sýningin er samstarfsverkefni Myndhöggvarafélagsins og Listasafns ASÍ.

Sýningarnefnd skipa Inga Ragnarsdóttir, Sólveig Aðalsteinsdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir og Kristín G. Guðnadóttir.

Til baka