10. janúar 2004 til 01. febrúar 2004

Rósa Gísladóttir - Kyrralífsmyndir frá plastöld

Verkin á sýningunni eru þrívíðar gifsafsteypur af plastumbúðum sem við notum í daglegu lífi, “frumhlutum” úr nánasta umhverfi okkar.

Verkin á sýningunni eru þrívíðar gifsafsteypur af plastumbúðum sem við notum í daglegu lífi, “frumhlutum” úr nánasta umhverfi okkar. Ég beini athyglinni að plasti vegna þess að það er allt í kringum okkur. Grunnhugmyndin hér er spurningin: Hvaða langtímaáhrif hefur óforgengilegt efni eins og plast á náttúruna? Verða steingerðir plasthlutir, t.d. matarumbúðir, þær menjar sem komandi kynslóðir munu finna frá okkar tímum? Ég reyni að nálgast þetta verkefni þannig að ímyndin sé jákvæð þótt ég fjalli um neikvæða hlið á lífi nútímamannsins. Við getum litið á plastið sem óvin og fulltrúa hættulegs úrgangs en við getum þó ekki horft framhjá því að plastið er einungis svar við þörfum okkar. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er plastlaust nútímaþjóðfélag ekki til.

 

Verkin sem ég sýni nú tengjast verkum sem ég hef unnið að á síðustu árum og sýndi á Strandlengjunni 2000 (Steingervingar framtíðarinnar) og á tveimur samsýningum í Manchester 2002 (Fossils from the Plastic Age og Still Life from the Plastic Age).

 

Kyrralífsmyndir hafa alltaf verið mér mjög hugleiknar og síðustu tvö ár hef ég kannað hugmyndafræðilegan grundvöll þeirra í víðara samhengi. Þessi geiri myndlistar hefur aldrei verið hátt skrifaður því að í aldanna rás hefur þótt merkilegra að gera myndir af stríðshetjum í bardögum en pottum og pönnum, blómavösum og ávaxtakörfum. Ég tel þó að kyrralífsmyndir hafi verið stórlega vanmetnar sem listform.

 

Skál, bolli, diskur o.s.frv. eru kölluð frumhlutir (“prime objects”) og hafa fylgt mannkyninu í meira og minna sömu mynd frá upphafi siðmenningar. Þetta eru þeir hlutir sem fornleifafræðingar hafa grafið upp og munu halda áfram að finna og tilheyra eilífðinni. Í verkum mínum skoða ég í hvaða mynd þessir frumhlutir koma fyrir nú á dögum og velti þeirri spurningu upp hvernig umbúðaþjóðfélagið notar þá.

 

Efnið sem ég nota í þessi verk er gifs, bæði vegna þess hve “dautt” það er og einnig vegna þess hvernig ljós og skuggi brotna niður á því í anda hefðbundinna kyrralífsmynda.

Til baka