07. september 2013 til 29. september 2013

Sigrún Eldjárn - Teiknivísindi - Sjö, níu, þrettán

Uppistaða sýningarinnar eru teikningar, eins konar óður til blýantsins. Þarna er teiknað bæði á pappír, léreft og tré. Stórum og smáum teikningum er teflt saman í salnum. Þær eru frásagnakenndar en þó frjálsar og óháðar, gerðar á sínum eigin forsendum. Myndirnar raðast saman og mynda myndasögu sem er þó án söguþráðar. Þær kallast síðan á við barnabókaheiminn í Arinstofunni. Hann tengist svo með sínu móti innsetningu í Gryfjunni gerðri úr hekluðum fígúrum og blýöntum sem mátuð eru inn í gullinsniðsform.

TEIKNIVÍSINDI - SJÖ NÍU ÞRETTÁN - er yfirskrift sýningar sem opnuð verður í Listasafni ASÍ í Ásmundarsal við Freyjugötu þann 7. september næstkomandi. Það er Sigrún Eldjárn myndlistarmaður og rithöfundur sem þar mun sýna verk sín.

Uppistaða sýningarinnar eru teikningar, eins konar óður til blýantsins. Þarna er teiknað bæði á pappír, léreft og tré. Stórum og smáum teikningum er teflt saman í salnum. Þær eru frásagnakenndar en þó frjálsar og óháðar, gerðar á sínum eigin forsendum. Myndirnar raðast saman og mynda myndasögu sem er þó án söguþráðar. Þær  kallast síðan á við barnabókaheiminn í Arinstofunni. Hann tengist svo  með sínu móti innsetningu í Gryfjunni  gerðri úr hekluðum fígúrum og blýöntum sem mátuð eru inn í gullinsniðsform.

Sigrún hefur gegnum tíðina haldið fjölmargar sýningar og tekið þátt í samsýningum. Fyrsta barnabókin hennar kom út 1980. Þær skipta nú tugum og njóta mikilla vinsælda meðal barna á ýmsum aldri. Fjör og frískleiki einkennir bækur Sigrúnar og í þeim vega myndir og texti álíka þungt.

Það má segja að Sigrún Eldjárn hafi byrjað myndlistarferil sinn einmitt í Ásmundarsal við Freyjugötu því þar fór hún árið 1967 á sitt fyrsta myndlistarnámskeið þrettán ára gömul. Þar var þá Myndlistarskólinn í Reykjavík til húsa og Ragnar Kjartansson myndhöggvari kenndi. Hún sótti síðan mörg námskeið eftir þetta eða þar til hún hóf fullt nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún útskrifaðist þaðan árið 1977 og var svo gestanemandi í Listaakademíunum í Varsjá og Kraká í Póllandi 1978.

Allar götur síðan hefur Sigrún stundað sína myndlist en einnig sinnt ritstörfum. Árið 1980 gaf hún út fyrstu barnabókina, Allt í plati, og er handrit þeirrrar bókar og frumteikningar til sýnis auk fleiri myndskreytinga - til dæmis úr nýjustu bókinni sem heitir - Strokubörnin á Skuggaskeri - og kemur út hjá Máli og menningu nú í haust.

Með þessari yfirgripsmiklu sýningu er leitast við að veita innsýn í margbreytileg verk Sigrúnar og tengja saman ýmsa þætti sem hún hefur fengist við gegnum tíðina.

  

Ætlunin er að allir þessir þættir fléttist saman í sannfærandi heild og endurspegli skemmtilegan listaferil sem ekki sér fyrir endann á.

Titill sýnigarinnar er TEIKNIVÍSINDI - SJÖ NÍU ÞRETTÁN og kann að vekja upp spurningar. Það er vitaskuld ekki til neitt sem kallast  teiknivísindi. Álíka gáfulegt er að tala um slík vísindi og að banka í tré og segja: „sjö níu þrettán“  til að koma í veg fyrir að eitthvað óheppilegt hendi mann. Þrátt fyrir það hefur Sigrún valið báðar þessar nafngiftir á sýninguna. Sjö níu þrettán er dagsetning opnunarinnar og frá og með þeim degi eru teiknivísindi orðin til.

Allir eru hjartanlega velkomnir á opnunina sem verður kl. 15 þann 7. september eða að skoða síðar en sýningin mun standa til og með 29. september.

Til baka