03. september 2010 til 19. september 2010

Svava Björnsdóttir og Inga Ragnarsdóttir - Tíminn fer ekki hann kemur

„Tíminn fer ekki, hann kemur“ (grænlenskt spakmæli) Þessi sýning er tilraun til að tengjast framrás tímans á myndrænan hátt. Efni, rými og hreyfing er sá veruleiki sem við skynjum í dagsins önn. Það er ögrandi viðfangsefni að gera grein fyrir því hvernig tíminn tengist rýminu, hver birtingarform hans geta verið. Í lok áttunda og byrjun níunda áratugar síðustu aldar voru Svava og Inga báðar við höggmyndanám í Listaakademíunni í München. Þar fylgdust þær náið að og síðar sem starfandi myndlistarmenn en hafa þó aldrei áður sýnt saman fyrr en nú á þessu ári. Það var því spennandi verkefni fyrir þær að stilla saman strengi, fyrst í Bryggjusal Edinborgarhússins á Ísafirði í sumar (29. júlí til 19. ágúst 2010) og síðan núna í Ásmundarsal við Freyjugötu. Segja má að verk Svövu og Ingu séu skyld þó efniviðurinn sé ólíkur. Myndmál þeirra er af sama bergi brotið en þær nýta sér rými, form, efni og liti hvor á sinn persónulega hátt. Verkin á sýningunni eru fyrst og fremst þrívíddarverk unnin á þessu ári.

SVAVA BJÖRNSDÓTTIR (f. 1952) nam við École Nationale Supérieure des Beaux Arts í París og Akademie der Bildenen Künste í München en þaðan útskrifaðist hún 1984 með diplómgráðu. Verk Svövu er að finna á öllum helstu listasöfnum landsins, hún á einnig verk í eigu safna í Þýskalandi. Svava hefur tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og erlendis og haldið yfir tuttugu einkasýningar.

 

INGA RAGNARSDÓTTIR (f. 1955) nam við Myndlista og Handíðaskóla Íslands og Akademie der Bildenden Künste í München og útskrifaðist þaðan 1987 með diplómgráðu. Inga hefur starfað síðan jafnt í Þýskalandi og á Íslandi og sýnt víða. Verk hennar er að finna á helstu söfnum eins og t.d. Listasafni íslands, Listasafni Reykjavíkur og í bæverska Ríkislistasafninu. Sjá nánari upplýsingar um Ingu á ingaragnarsdottir.com

 

 

Til baka