Unnar Örn - Brotabrot úr afrekasögu óeirðar: II. hluti
Á sýningu sinni; Brotabrot úr afrekasögu óeirðar: II hluti – hefur Unnar Örn gert Listasafn ASÍ að vettvangi óeirðar. Vegsumerki um óhlýðni frá ólíkum tímabilum eru dregin fram og skoðuð í sjónrænu samhengi. Verkin á sýningunni eru unnin uppúr heimildum sem þjónað hafa ólíkum stofnunum, ljósmyndir frá Tæknideild Rannsóknarlögreglunnar, myndskeið úr heimildasafni Ríkisútvarpsins og skjöl frá Þjóðskjalasafni Íslands mynda sögusviðið. Umfjöllun Rúv: http://www.ruv.is/m/frett/594219 http://www.ruv.is/myndlist/ur-afrekasogu-oeirdar
Viðfangsefni sýningarinnar er geymd opinberra upplýsinga sem tengjast viðspyrnu almennings við ríkjandi valdhafa. Frásögnin af óeirð almennings er stöðugt afmáð úr sameiginlegu minni þegnanna – skipt er um rúður, veggir eru málaðir og varnagirðingar fjarlægðar. Á sama tíma er sönnunargögnum stanslaust safnað af valdstjórninni og þær heimildir mynda síðan samfellda frásögnin sem varðveitt er í opinberum skjölum. Sviðsetning þjóðarvitundar myndar í sýningunni endurtekið stef þar sem brot frá nýliðnum tíma eru undirtónninn.
Á árinu 2014 kemur út bók þar sem viðfangsefni sýningarinnar eru tekin fyrir og verður bókin lokahnykkurinn í vettvangsrannsókn Unnars Arnar á afrekasögu óeirðar hér á landi.
Myndin er sönnunargagn safnað af Tæknideild Rannsóknarlögreglunnar og sýnir afleiðingar óeirðar almennra borgara vegna inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið 30. mars 1949.
Krossarnir merkja rúðurnar sem brotnar voru. Ljósm. Varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands.
Unnar Örn J. Auðarson stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og framhaldsnám við Listaakademíuna í Malmö. Unnar Örn hefur á síðustu árum unnið með fundið efni – ljósmyndir, kvikmyndir og texta - sem ramma inn þá frásögn sem hann vinnur með hverju sinni. Verk hans eru unnin í ólíka miðla og eru oftar en ekki hlutar úr stærri seríum þar sem hann vinnur krítískt með umhverfi sitt og hlutverk listamannnsins innan þess. Unnar Örn hélt sýna fyrstu einkasýningu í verslunarmiðstöðinni Kringlunni í Gallerí Gúlp árið 1996 og síðan þá hefur hann tekið þátt í yfir 60 sýningum hérlendis og erlendis.