29. ágúst 2009 til 20. september 2009

Valgerður Hauksdóttir -Áttir og áttleysur

Sýningin er einkasýning og verður hún í öllum sýningarsölum safnsins. Valgerður sýnir ný verk unnin á tímabilinu 2007 til 2009, ljósmyndir og grafíkverk, m.a. þurrnálsteikningar, ætingar og verk unnin með blandaðri tækni. Titill sýningarinnar vísar til hinar stöðugu leitar, skynjunar og túlkunar mannsins á innri og ytri veruleika. Sjálf segir listakonan: „Í upphafi hafði ég í hyggju að sýna bæði teikningar, grafík og ljósmyndir, en teikningarnar þróuðust í að verða þurrnálsteikningar og sem hluti af grafíkverkunum. Þetta eru hálfgerðar takt (rythma) teikningar - þ.e. bein tenging handar og túlkunar, nokkurs konar skrift þar sem þurrnálin gerir það að verkum að teikningin verður óheftari. Teikningin er þannig frekar eins og beint framhald af hendinni og maður " þvælist minna fyrir sjálfum sér", þar sem ekki er hægt að sjá almennilega það sem hefur verið teiknað þar til platan er þrykkt. Það mætti líkja þessu við að "framkalla myndirnar" í þrykkingunni."

Valgerður Hauksdóttir er menntuð sem grafíklistamaður með sérhæfingu í steinþrykki og ætingu. Hún nam myndlist í Bandaríkjunum og lauk þaðan meistaragráðu 1983 og bachelorgráðu 1981. Frá því að námi lauk hefur Valgerður starfað við myndlist. 1984-2003 kenndi hún listgrafík við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, síðar Listaháskóla Ísland,  þar sem hún gegndi ýmsum stjórnunarstörfum. Valgerður hefur jafnframt verið gestakennari/fyrirlesari við háskóla í Evrópu og Bandaríkjunum sem og gegnt ábyrgðastöðum í nefndum og stjórnum á vegum íslenskra myndlistarsamtaka.

Valgerður hefur haldið fjölda sýninga á starfsferli sínum bæði á Íslandi og erlendis. Hún hefur hlotið viðurkenningar fyrir verk sín á alþjóðlegum vettvangi, en verk hennar eru í eigu listasafna og opinberra stofnana á Íslandi og erlendis. 
 www.hauksdottir.is


Til baka