Anna Líndal

KORTLAGNING HVERFULLEIKANS

14. janúar 2012 – 05. febrúar 2012

Kortlagning hverfulleikans / Mapping the Impermanence fjallar um viðkomustaði. Í stóra salnum er stigið í vænginn við þéttan massa og örsmáar agnir. Viðkomustaðirnir eru Grímsvötn og Eyjafjallajökull; askan úr síðustu eldgosum er aðdráttaraflið. Hópur vísindamanna eltir öskuna uppi, allt er skoðað og skráð, hegðunarferli gosöskunnar kortlagt og grafið þvert í gegnum öskulög. Í arinstofunni er hægt að sjá heimildarmyndband um tilraunir á rannsóknarstofu í Þýskalandi, þar sem skoðað er hvað gerist þegar brædd aska (hraunlíki) kemst í snertingu við vatn.

Aðrir viðkomustaðir sem fjallað er um á sýningunni eru Karlsdráttur, Aserbaídsjan og Havaí.
Aserbaídsjan liggur við Kaspíahafið þar sem olían mallar í djúpum jarðlögum og er dælt upp á ólíklegustu stöðum. Landið endurheimti sjálfstæði sitt frá Sovétríkjunum árið 1991, sem leiddi af sér miklar samfélagslegar breytingar og pólitísk átök. Tvisvar hef ég komið til Aserbaídsjan; í bæði skiptin var það sýnileiki fyrrverandi forseta, Heydar Aliyev, sem greip athygli mína og hvernig ímynd hans var notuð til að byggja upp sjálfsmynd þjóðarinnar.

Havaí situr langt úti í hafi og minnir í mörgu á Ísland; þar eru eldfjöll með rennandi hrauni. Havaí er hluti af Bandaríkjunum – í reynd bandarísk nýlenda. Samfélagið er fjölmenningarlegt og flókið; nýlenduherrann hefur skrifað söguna, en ný kynslóð sagnfræðinga er að skoða og endurskilgreina hana. Allan þann tíma sem ég dvaldi á Havaí var ég meðvituð um þessa togstreitu og reyndi að ná tengingu við söguna. Að lokum var það plönturíkið, fremur en eldvirknin, sem hjálpaði mér að ná taki á broti úr frásögninni.

Í Bishop Museum er mikið safn gripa sem segja nýlend sögu Havaí og þar er jafnframt yfirgripsmikið plöntusafn. Ég hafði samband við sérfræðinga safnsins, kynnti mér aðferðafræði plöntufræðinga, fór með þeim í vettvangsferðir til að mæla og skrásetja plöntur í útrýmingarhættu og fylgdi þeim eftir í uppeldisstöð þar sem frjókorn urðu að plöntum. Þar sem Havaí er hluti af Bandaríkjunum er innflutningur innan bandalagsins óheftur; mikill innflutningur á nýjum tegundum hefur leitt til þess að margar havaískar plöntur eru útdauðar eða í mikilli útrýmingarhættu. Þannig varð plönturíkið táknmynd pólitískra samskipta þessara tveggja þjóða.

Það sem tengir þessa skoðun er löngun til að finna límið sem heldur samfélaginu saman — að skynja einingarnar sem búa til heild. Nútíðin er fortíðin og fortíðin verður framtíðin. Á öllum þessum viðkomustöðum hef ég tekið með mér örlítil brot úr samfélaginu eða örsmáar agnir úr lífríkinu til að búa til nýja heild og endurskapa sambandið við minninguna. Rannsóknin gengur út frá spurningum um hvaða þættir stuðla helst að mótun ímyndar — bæði einstaklings og samfélaga — og hversu hverful sú ímynd er.

Með hugtakinu „rannsókn“ er átt við að kanna sögu svæða á þann hátt að nýtist við gerð verka listamanns. Listaverkið verður í þessu tilviki millistykki á milli listamannsins og áhorfandans. Rannsókn á lítilli einingu dregur fram fjölbreytni innan stærri heildar — þannig má nálgast ákvarðanir sem teknar voru fyrir mörgum árum, jafnvel öldum, og hafa áhrif á það sem gerist á morgun eða eftir mörg hundruð ár. Tengsl okkar við fortíðina eiga oftar skylt við myndlíkingar en staðreyndir.

Um staði og ímyndarsköpun:
Sjálfsmynd og ímyndarsköpun Íslendinga er nátengd náttúrunni. Ferðamaðurinn, landkönnuðurinn sem metur frelsi og sjálfstæði framar öllu, er tilbúinn að takast á við óblíða náttúru og þær ógnir sem honum eru búnar. Karlsdráttur er á Kili — lítil vík á afviknum stað. Ég hef tvisvar komið þangað; í fyrra skiptið gangandi frá Þverbrekknamúla og í seinna skiptið siglandi á Hvítárvatni. Þar má sjá skriðult kjarr í mikilli hæð á afviknum stað — síðustu leifar kjarrs á Kili — undurfagrar uppsprettur og Langjökul kleifast fram í Hvítárvatn. Ferðalögin vöktu spurningar um ímynd Íslendinga og hvernig við speglum okkur í stórkostlegri náttúru; hvort við yfirfærum hana jafnvel yfir á okkur sjálf.

Ferill
Anna Líndal útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1985 og lauk framhaldsnámi frá The Slade School of Fine Art í London 1990. Hún hefur tekið þátt í fjölda innlendra og erlendra sýninga, m.a. á Istanbúl-tvíæringnum 1997 (on life, beauty, translation and other difficulties, sýningarstjóri Rosa Martínez), Kwangju-bíennalnum Man + Space í Suður-Kóreu 2000 (sýningarstjóri René Block) og á alþjóðlegri myndlistarsýningu Listahátíðar í Reykjavík 2005 og 2008.

Previous
Previous

Anna Jóelsdóttir – BROT / FRAGMENT

Next
Next

Curver Thoroddsen – FJÖLSKYLDUKVINTETTINN II