Sigurður Guðjónsson

INNLJÓS – INLIGHT

Sankti Jósefsspítalans í Hafnarfirði (2017) og að Kleifum við Blöndu (2018)

Sigurður Guðjónsson er fyrsti listamaðurinn í sýningaröð Listasafns ASÍ þar sem skipulagðar eru einkasýningar valinna listamanna á tveimur stöðum á landinu – til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum. Sýning hans Innljós var sett upp á í kapellu Sankti Jósefsspítalans í Hafnarfirði og að Kleifum við Blöndu og hlaut sýningin Íslensku myndlistarverðlaunin 2018.

Sigurður Guðjónsson (f. 1975) lærði í Vín, Reykjavík og Kaupmannahöfn. Hann sýndi list sína fyrst um aldamótin í listamannareknum rýmum í Reykjavík og dökk en ágeng vídeóverk hans vöktu strax athygli, ekki aðeins á Íslandi heldur einnig í Berlín, New York, Lundúnum, Peking, Seúl og alls staðar þar sem þau hafa verið sýnd. Hann notar vídeó og lifandi myndir en að mörgu leyti mætti einnig skilgreina verk hans sem tónlist. Hann notar tímamiðil (vídeó) í verkum sem fanga áhorfandann með ryþma og endurtekningu og tengja mynd og hljóð á þann hátt að þau virðast víkka skynsvið manns og vekja nýjar kenndir. Verkin eru oftast hæg og í þeim felst gjarnan vélræn endurtekning; þau draga mann inn í taktfasta endurtekningu en vaxa líka þegar maður staldrar við og skynjar fleiri þætti þeirra, skrýtnar lúpur og taktmynstur sem geta orðið næstum alltumlykjandi. Á síðustu árum hefur Sigurður líka unnið með tónskáldum og þannig búið til verk sem sameina vídeó, rafhljóð og lifandi flutning. Hann víkkar sífellt út sköpunarsviðið en verk hans bera sterk persónuleg einkenni og skapa undarlega nánd sem styrkir skynhrifin enn frekar.

Úr sýningarskrá:

Vídeó er ekki gamalt fyrirbæri ef einungis er litið til tækninnar eins og við höfum kynnst henni á undanförnum áratugum. Upptökuvélin, eins og hún kemur okkur oftast fyrir sjónir, var fyrst sett á markað um miðjan 7. áratuginn og olli byltingu þegar í stað. Þunglamalegar upptökuvélar í sjónvarpsverinu sem buðu upp á afar takmarkaðan sveigjanleika viku fyrir hentugri vél, sem hægt var að munda og stýra með annari hendi. Allir sem vettlingi gátu valdið keyptu nýja Portapak-tækið frá Sony og fóru að spreyta sig á hinum nýja miðli, fréttamenn, ferðamenn, fjölskyldufólk með nýfædda ungana sína og listamenn. Þó að litina skorti og hljóðupptökuna þyrfti að rogast með á stóru segul­bandstæki í hliðartösku á öxlinni var uppfinning Sony fyrir hálfri öld hrein bylting og frelsun í víðtækum skilningi.

Hins vegar er vídeó ævafornt latneskt orð fyrir sögnina að sjá. Því liggur beinast við að minnast hinnar forngrísku goðsögu um Aröknu, hinn lýdíska myndvefara, sem rataði í kvæðabálk Óvíds Ummyndanir, eitthvert frægasta bókmenntaverk latneskrar tungu. Þar segir frá hinni dramblátu alþýðukonu, sem neitaði að þakka gyðjunni Mínervu fyrir hæfileika sína og fékk fyrir vikið þá refsingu að ummyndast í síspinnandi könguló. Svo hrífandi var vefur Aröknu að guðdómlegum aðdáendum hennar fannst rán Evrópu í vefmynd hennar hreyfast og nautið sem bar hana á bakinu þjóta eins og kólfur um Eyjahafið.

Þannig er hugmyndin að baki vídeótækninni ævagömul þó hún sé sjálf ung að árum. Þessi tvívíði uppruni tímans endurspeglast í verkum Sigurðar Guðjónssonar í hinum aflagða Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði og umgjörðinni sem þeim er búin. Þótt kapellan þar sé ekki gömul er lögun hennar klassísk, byggð í rómönskum stíl eins og hann mótaðist, víða í Evrópu, fyrir um það bil þúsund árum. Á gólfið framan við kórinn varpar Sigurður verkinu Fuser 2017, valsi sem rennur langsum yfir flötinn, rétt eins vélrænu teppi væri rúllað yfir annan gólfdregil með sama mynstri – nokkurs konar villokkum eða arabeskum – sem óneitanlega minnir á miðaldir en um leið á staðlaðar vélfléttur úr málmiðnaði nútímans. Fuser 2017 er jafnframt hljóðverk, sprottið af eigin uppmögnuðum skarkala, áminning um að vídeó getur bæði fæðst af hljóði og mynd ef því er að heilsa. 

Það er því ekki að ófyrirsynju að Sigurður velur verki sínu heiti sem beinlínis vísar til samruna. Verkið Scanner 2017, sem er í líkhúsinu undir kapellunni, ber enn skýrari merki þess tímaflakks sem listamaðurinn ástundar milli ólíkra tíma. Þar hefur kólfurinn – skannaskafan – sem líður hægt yfir ljósrammann tekið á sig fastara mót, líkast gullstöng sem stafar geislum sínum í djúpu myrkri. Í líkhúsi hlöðnu dulúðugu en dauðhreinsuðu andrými hlýtur maður að spyrja hvort þetta fyrirbæri sé táknmynd sálarinnar að hefja sig til flugs, ellegar eðalmálmurinn eini að spretta fram úr blýgjalli alkemistans.

Loks myndar Mirror Projector 2017 þrenningu með fyrrnefndu verkunum tveim og lokar ferlinu með upptöku af glerplötu venjulegs glæruvarpa meðan spegill tækisins fetar sig upp og niður með tilheyrandi breytingu á ljósopi og birtubrigðum. Undir hljómar suðið í glæruvarpanum. Forðum daga var myndlistin tengd við kirkjuna og fyllti margslungin rýmin innan hennar, grafhvelfinguna sem geymdi leifar af líkama dýrlinga, hvolf skipsins sem enn er skreytt gylltum stjörnum á bláum grunni í íslenskum sveitakirkjum og útskornar súlurnar; rismiklar dómkirkjur miðalda báru mynstur milli ólíkra heimshluta. Verk Sigurðar Guðjónssonar vitna um sams konar heildarhugsun og fólk upplifði fyrr á öldum þegar það steig inn fyrir dyrnar á guðshúsum.


Í ár blæs Listasafn ASÍ í annað sinn til menningarlegrar útrásar með sýningu á verkum Sigurðar Guðjónsson, í þetta sinn norður í Húnavatnssýslu austanverðri á slóðum Heiðarvígasögu, að Kleifum við Blöndu, gegnt Hrútey.

Það kemur nú í hlut Sigurðar Guðjónssonar að glíma við útihúsin að Kleifum með verkum sem vöktu óskipta athygli gesta í kapellu Sankti Jósefsspítalans í Hafnarfirði síðastliðið haust. Fuser – sem dregur heiti sitt af prentvalsinum sem festir liti ljósritans við pappírsörkina með ofurhita og býr prentmyndina þannig til með nýrri tækni – verður sett upp í hlöðunni, hæstu einingu útihúsanna. Í fjósinu, víðustu einingunni af húsunum þrem verður Scanner staðsett, verkið sem byggir á ferilgeisla skanna – ljósritunarvélar – meðan hann fetar sig eftir glerplötunni neðanverðri undir spegilsléttu og gagnsæju yfirborði tækisins. Skúrinn, minnsta einingin í útihúsasamstæðunni mun svo hýsa Spegilvarpann – Mirror Projector – upptöku af auga ofurvenjulegs glæruvarpa eins þeirra sem fundust í flestum skólum landsins fyrir daga stafrænna myndvarpa.

Þannig eru verk Sigurðar á sýningu hans INNLJÓS eins konar óður til tækjanna sem honum og öðrum myndgerðarmönnum eru svo nærtæk að þau jafnast á við hljóðfæri og hljómtæki tónlistarmannsins og tónskáldsins. Þau eru áhöldin sem myndlistarmanni samtímans eru nauðsynleg, rétt eins og dráttarvélin og vélorfið eru bóndanum. En svo vakna ýmsar spurningar varðandi útfærslu verkanna á Kleifum, sömu verkanna og áhorfendur nutu á liðnu ári í kapellu hins aflagða Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði. Þótt verkin séu hin sömu er útkoman öll önnur. Eins og Sigurður útfærir vídeóverk sín mætti fremur líkja þeim við uppfærslur en innsetningar. Nýtt og öðruvísi rými færir til merkingu verkanna svo þau ganga í endurnýjun lífdaga og stafa í allt öðru inntaki í skjóli Hrúteyjar en í bænahúsi sjúkrahússins. Uppfærslan verður óhjákvæmilega hluti af verkinu.

Hvergi sannar vídeólistin yfirburði sína yfir aðra miðla myndlistarinnar en einmitt við svona kringumstæður og á þær kann listamaðurinn að spila eins og góður hljóðfæraleikari. Það sem í kapellu og líkhúsi spítalans hafði yfir sér yfirbragð drunga, trega og handankenndar mun að öllum líkindum lifna við í útihúsum Kleifa sem vorboði til dýrðar fjölbreytilegri náttúrunni í námunda við verkin og umgjörðina.

Enn eitt prikið fyrir hina kornungu vídeólist felst í efnisleysi miðilsins og meðfærileik. Í samanburði við aðra listmiðla hefur myndlist oft goldið fyrir fyrirferðina. Flutningur á ómeðfærilegum málverkum og höggmyndum um langan veg hamlar dreifingu slíkra listmuna. Með vídeólistinni eru menn jafnvígir hvar sem er á jarðarkringlunni. Blönduós verður jafn miðlægur og Hafnarfjörður. Þannig hefur myndlistin loksins öðlast þann sveigjanleika sem hingað til hefur talist til sérréttinda óefniskenndra lista á borð við bókmenntir og tónlist. Þessa byltingu skilur Sigurður og nýtir sér til fullnustu.

Halldór Björn Runólfsson

Previous
Previous

Eygló Harðardóttir – VÍSBENDINGAR

Next
Next

Svavar Guðnason & Þorvaldur Skúlason & Jón Engilberts & Nína Tryggvadóttir & Louisa Matthíasdóttir.