Hildigunnur Birgisdóttir

Universal Sugar

Hildigunnur Birgisdóttir er annar listamaðurinn sem velst til þáttöku í nýrri sýningaröð Listasafns ASÍ þar sem sýnd eru nýjustu verkin í eigu safnsins. Sýningar Hildigunnar opna samhliða og standa jafnlengi í Garðabæ og Vestmannaeyjum og bera sama nafn á báðum stöðum. (Þess má geta Flugfélagið Ernir studdi verkefnið og bauð gestum afslátt af flugi til Eyja á opnunardag sýningarinnar.)

Viðfangsefni sýninganna, sem við fyrstu sýn virðast mjög áþekkar, endurspegla á margan hátt samfélagið á hvorum stað fyrir sig og sama má segja um húsnæðið sem þær hýsir. UNIVERSAL SUGAR í Vestmannaeyjum og Garðabæ eru í raun sama sýningin, birtingarmyndir hennar eru óteljandi en hér birtast tvær þeirra. Umgjarðir sýninganna auka enn á áhrifin, tvö mjög ólík rými frá mismunandi tímum hvort með sína sögu. Í verkum sínum hefur Hildigunnur rannsakað flókin kerfi með notkun hrekklausra eða jafnvel barnslegra tenginga. Hún leikur sér með spennuna sem myndast getur milli þarfar okkar til að útbúa óhlutbundin þekkingakerfi og líkamlegra þolmarka skynkerfa okkar. Verk Hildigunnar afhjúpa annmarka, sérvisku og fjarstæðukennd atriði sem finna má í sköruninni á milli hugsjónar og mannlegra skilningskerfa. Slíkur ágangur kemur sér ekki bara vel, heldur liggur hann til grundvallar verkum Hildigunnar, og gerir áhorfandann óvænt að miðju alheimsins. 

Hildigunnur Birgisdóttir (f. 1980) útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003. Verk hennar hafa verið sýnd í Listasafni Reykjavíkur, Kling & Bang, Nýlistasafninu, Annaellegallery í Stokkhólmi, Gallerí i8. Hildigunnur Birgisdóttir var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2024.

Úr sýningarskrá:

TAKK ÆÐISLEGA EN

ég má ómögulega vera að því að stoppa. Klukkan er svo margt og tíminn flýgur, þú veist. Ég hreinlega verð að afþakka því ég drekk bara vökva sem hefur ferðast langar vegalengdir og svo er ég ekki svo mikið fyrir munað.

Satt best að segja var ég í miðjum klíðum að taka í sundur kartöflukryddið og sortera kornin eftir lit og áferð. Einhver verður að taka af skarið og sjá til þess að allt rati á réttan stað. Mér verður ómótt þegar hlutir virðast öðruvísi en þeir eru og sérfræðingar sjá beintengingu milli möguleika og mígrenis. Oft finnst mér best að loka bara augunum og láta nefið stjórna för. Það er allt sykurhúðað sjáðu til svo ekkert er lengur sætt.

Nei takk en ekki hika við að halda áfram án mín. Þér finnst kannski furðulegt að vera með bakþanka á þessu stigi málsins en ég tek ekki þátt í svona löguðu og hef aldrei gert, nema á tyllidögum. Og þó, ég þigg kannski eina af þessum blautþurrkum og sting henni í vasann. Hún gæti komið sér vel á einhverjum tímapunkti. En svona þér að segja þá nota ég yfirleitt plaststöng með sveigjanlegri blöðku öðru megin.

Ásgerður Birna Björnsdóttir

Hildigunnur Birgisdóttir Universal Sugar sýningarskrá
Previous
Previous

Bjarki Bragason – SAMTÍMIS / SYNCHRONOUS

Next
Next

Kristín Gunnlaugsdóttir – GIMSTEINAR