Opnunarhátíðin 8. nóvember stendur á meðan lágsjávað er þann dag, hefst kl. 12:30 – og varir til kl. 16.
Sýningin verður opin miðvikudaga – sunnudaga þegar sjávarföll leyfa. Opnunartími er breytilegur frá degi til dags og verður auglýstur síðar m.a. á heimasíðu safnsins www.listasafnasi.is
Listamaðurinn verður á staðnum allan tímann og fær marga góða skapandi gesti til sín í útlegðina í Gróttuvita. Hver viðburður fyrir sig verður auglýstur sérstaklega, uppákomurnar eru fjölbreyttar s.s. tónlist, gjörningar, upplestur, samtöl og fleira.
Sigurður Ámundason er fæddur 1986 og lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2012. Meðal nýlegra verkefna og sýninga má nefna Rómantísk gamanmynd, leikrit unnið í samstarfi við Jóhann Kristófer Stefánsson og Tatjönu Dís Aldísar Razoumeenko (2025). After The Sun: Forecasts From the North í Buffalo AKG Art Museum (2024). Hvað er hvað var hvað verður - Ars Longa, Djúpavogi (2023), Billboard 450 led auglýsingaskjáir á höfuðborgarsvæði – Rétthermi (2023), Hið ósagða, leikrit (handritshöfundur, leikstjóri, leikari) (2022), What´s Up Ave Maria? Í Hafnarborg (2022), og Raw Power – Listasafn Reykjavíkur Hafnarhúsi (2021).
Sigurður er óhræddur við að prófa sig áfram með mismunandi listform. Hann hefur unnið jafnt og þétt að því að þróa sitt eigið myndmál að mestu óháð ríkjandi straumum og stefnum. Efnisnotkunin er nokkuð óvenjuleg og hann fer óttalaus út í almenningsrýmið og fangar þar athygli með einstöku myndmáli.