Fimm textíllistamenn og eitt tónskáld – FRÁ EINUM TIL ÓENDALEIKA

Listasafn ASÍ – 05. maí 2007 – 27. maí 2007

Metnaður og leit að listrænum tjáningarmöguleikum í efniviðnum einkenna sýningu Guðrúnar Gunnarsdóttur, Agnetu Hobin, Önnu Þóru Karlsdóttur, Marianne Mannsåker og Kristiinu Wiherheimo. Þessar fimm listakonur eru tengdar norrænum böndum og hafa sett saman spennandi sýningu sem sýnd hefur verið í Helsinki og Þrándheimi í vetur og er nú komin til Reykjavíkur.

Á þessari sýningu koma þær fram sem norrænir listamenn og vinna eftir faglegum vinnubrögðum sem eru vel við hæfi, en hafa á síðari árum verið fágætari en æskilegt væri. Frumkvæðið að samstarfinu höfðu finnsku listakonurnar Agneta Hobin og Kristiina Wiherheimo, sem völdu sér þá samstarfsmenn sem þeim fannst þær eiga helst samleið með.

Á árunum 1976–1996 gátu áhugafólk um textíl á Norðurlöndunum fylgst með þróuninni á Norræna textílþríæringnum, sem stóð fyrir sýningum í hverju Norðurlandanna fimm þriðja hvert ár. Þríæringurinn var því miður lagður niður eftir síðustu sýninguna 1995/1996 og síðan hefur reynst erfitt að halda yfirsýn yfir það sem gerist á þessu sviði.

Ný kynslóð listamanna hefur nú látið að sér kveða með sterkri og litríkri tjáningu í fjölbreyttum efniviði, sem tengir verkin iðulega hugmyndalist eða konseptlist samtímans fremur en hefðbundið handverk. Jafnframt má greina áhugaverða þróun sem tengist alþjóðlegri glerfíberlist sem festi sig í sessi á síðustu tveimur áratugum síðustu aldar. Margir þeirra listamanna sem komu fram á áttunda áratugnum hafa síðan unnið hörðum höndum og eru nú á hátindi listræns ferils síns.

Það er afar ánægjulegt að með þessari farandsýningu hafa nokkrir af fremstu listamönnum okkar beint sjónum að nýju að hinu norræna. Sjónarhorn listakvennanna eru ólík en þegar verkin eru skoðuð í heild sinni birtist það besta sem gert er í norrænni textíllist í dag. Hver þeirra hefur öðlast alþjóðlega viðurkenningu: Marianne Mannsåker frá Noregi vinnur klassískan myndvefnað, Anna Þóra Karlsdóttir frá Íslandi skapar verk úr ullarflóka, Guðrún Gunnarsdóttir frá Íslandi og Agneta Hobin frá Finnlandi kanna sjónræna möguleika málmsins, og Kristiina Wiherheimo frá Finnlandi skapar litrík þrívíð verk sem veita áhorfendum sterka tilfinningalega upplifun.

Sameiginlegt með konunum fimm er að þær eiga djúpar rætur í norrænni náttúru og sækja innblástur í birtu, snjó, vatn og ís. Í verkum þeirra er einstök ljóðræn vídd og kraftur sem vitnar um óbugandi vilja listakvennanna til að sökkva sér í sjónrænan kraft efniviðarins.

Norrænir textíllistamenn eiga sér sameiginlega arfleifð sem jafnframt ber sérstök þjóðleg einkenni hvers lands. Forfeður okkar bjuggu við mikla einangrun hér norður frá og nauðsynlegt var að framleiða hlý og notadrjúg klæði til að lifa af langa og kalda vetur. Ólíkt því sem gerðist í Englandi, Frakklandi og Þýskalandi varð iðnbyltingin ekki til þess að útrýma heimilisiðnaði hér með sama hætti, og vefnaðar- og fatagerðarhefðir almennings hafa varðveist fram á okkar tíma. Sérstaklega í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð hefur gömul vefnaðarhefð – svo sem myndvefnaður, tvöfaldur vefnaður og rýjavefnaður – náð mikilli fullkomnun, og fram undir 1960 var vefstóll á nær hverju sveitaheimili í Noregi.

Þessi „listarfleifð“ var afar mikilvæg þegar nútímatextíllist kom fram sem sjálfstæð listgrein á sjöunda og áttunda áratugnum undir áhrifum sterkra alþjóðlegra strauma. Frjáls listform, listiðnaður og textílhönnun hlutu viðurkenningu og staða textíllistar gagnvart öðrum listgreinum styrktist. Textíllistamenn hafa síðan skapað fjölda verka sem prýða opinbera staði víða um heim.

Öflug fagleg barátta og sterkur vilji textíllistamanna til að berjast fyrir eigin listrænum ferli og sýnileika í listaheiminum hefur skilað þeim þeirri viðurkenningu sem þeir njóta í dag. Margir þeirra hafa dvalið erlendis við nám og störf til að öðlast sjálfstæða og alþjóðlega listræna stöðu. Einmitt þessi reynsla – að starfa við ótryggari aðstæður en í heimahögum – býr í haginn fyrir skapandi vinnu og listræna þróun. Á ókunnum slóðum finna listamenn nýja orku og ná auknum þroska.

Þessi sýning er mikilvæg kynning á norrænni samtímalist.

Listamennirnir

Marianne Mannsåker – Noregur
Klassískur gobelínvefnaður
Það er þúsund ára hefð fyrir því að vefa myndir. Myndefnin eru abstrakt en vísa til hins hlutlæga, byggingarlistar eða náttúru. Listakonan lýsir verkum sínum sem ímynduðum kortum, leynibréfum eða fjölraddabók.

Anna Þóra Karlsdóttir – Ísland
Filt úr ull
Í verkum Önnu Þóru má einnig finna skírskotanir til náttúrunnar – frásagnir um himin og jörð, fólk og náttúru. Þræðir drauma og ljóss binda verkin saman frá upphafi tímans til eilífðar.

Guðrún Gunnarsdóttir – Ísland
Málmur
Listakonan beinir athyglinni að því hvernig við umgöngumst náttúruna og eyðileggjum hana. Hún gerir sýnilegt hvernig þessar eyðileggingar birtast og setur, með þráðum og þrívíddarteikningum, fegurð náttúrunnar í brennidepil.

Agneta Hobin – Finnland
Málmur
Hún vefur úr málmi og fjallar um náttúru og náttúrufyrirbæri. Undrun yfir stjörnunum, sem eru í ljósára fjarlægð en virðast samt svo nálægar, er áberandi í verkum hennar.

Kristiina Wiherheimo – Finnland
Hlutir
Hún beinir athyglinni að smáatriðum í ólíkum efnum og hlutum. Í verkum hennar verða til nýtt líf og nýir heimar.

Paola Livorsi – Ítalía
Tónlist
Tónlistin er samin sérstaklega fyrir sýninguna og byggir á verkum listamannanna og þeim fjölbreytta efniviði sem þau nota. Frumefnin eldur, jörð og vatn birtast sem hljóðgervingar á yfirborði málms, trés, skinns og ullar. Fjórða frumefnið, loft, er táknað með mannsröddinni.

Previous
Previous

Bjargey Ólafsdóttir - STUNGIÐ AF TIL SUÐUR - AMERÍKU

Next
Next

Borghildur Óskarsdóttir - OPNUR