Svavar Guðnason, Daði Guðbjörnsson, Eiríkur Smith, Hafsteinn Austmann og Kristín Þorkelsdóttir
AKVARELL
Listasafn ASÍ Ásmundarsal – 01. júlí 2006 til 13. október 2006
Á sýningunni eru vatnslitamyndir eftir:
Daða Guðbjörnsson
Eirík Smith
Hafstein Austmann
Kristínu Þorkelsdóttur
Svavar Guðnason
Þessir listamenn spanna þrjár kynslóðir íslenskrar listasögu. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa fengist við vatnslitamálun um áratuga skeið og náð umtalsverðum árangri í glímunni við vatnslitinn, sem er afar vandmeðfarinn miðill.
Svavar Guðnason (1909–1988)
Var einn helsti frumherji abstraktlistar á Íslandi. Á sýningunni eru óhlutbundnar, ljóðrænar vatnslitamyndir sem sýna glöggt þann litagaldur sem einkenndi verk Svavars. Þessi verk fékk Listasafn ASÍ að gjöf frá ekkju hans, Ástu Eiríksdóttur.
Eiríkur Smith (f. 1925)
Hefur fengist við hlutbundið jafnt sem óhlutbundið málverk. Hann sýnir að þessu sinni óhlutbundin verk sem hafa skírskotun til náttúrunnar. Í þeim má sjá eindregnar láréttar og lóðréttar áherslur – ávæning af jarðskorpu eða sjóndeildarhring.
Hafsteinn Austmann (f. 1934)
Vatnslitamyndir Hafsteins einkennast af óvenju næmri tilfinningu fyrir núinu. Hann gerir tilraunir með byggingu, hreyfingu og liti í verkum sínum, litróf þeirra er tært og hlaðið kvikri ljóðrænu.
Kristín Þorkelsdóttir (f. 1936)
Samspil forma, lita og flata er ævinlega tært og yfirvegað í verkum Kristínar. Meginatriði eru á hreinu og smáatriði fá aldrei að dreifa athygli frá kjarna þess sem verið er að segja í myndrænu formi. Í verkum hennar er að finna sjaldgæfa virðingu fyrir rými og skilning á því að þögn eða andrúm geti verið jafn máttug miðlun og hljóð og hlaði.
Daði Guðbjörnsson (f. 1954)
Myndir Daða stofna til ærslafenginnar hátíðar í þeirri von að ofurlítil geggjun komi vitinu fyrir fólk. En undir niðri má líka greina söknuð eftir ímyndaðri gullöld málverksins.