Anna Jóelsdóttir
HEIMA? / HOME?
08. apríl 2006 til 30. apríl 2006
Í nýútkominni sýningarskrá fjallar Jón Proppé listfræðingur um verk Önnu og segir m.a.:
„Í málverkum Önnu Jóelsdóttur æða litaborðar skrykkjótt yfir myndflötinn og virðast rista upp sjálft yfirborð myndarinnar á sumum stöðum svo úr sprungunum vella fram litir og línur í óreiðu eins og beljandi gosmökkur, allt teiknað greinilega fram móti skjannahvítum grunni.
Litaðir borðarnir benda til þess að farið sé hratt yfir, með eldingarhraða eins og í teiknimynd, en ólgan og óreiðan í sprungunum vísar á flóknari veröld sem liggur undir niðri og þar sem línur sveigjast, litir blandast og öllu ægir saman.
Þannig er hreinni abstraksjón og margræðri formleysu stefnt saman í einn myndflöt, og þessi átök eru það sem móta verk Önnu og gera þau svo grípandi.“
Á sýningunni verður innsetning stóra, lítilla, örsmárra, ferhyrndra, sporöskjulaga og þrívíðra verka.
Anna lauk MFA-námi í myndlist við Listaháskólann í Chicago árið 2002. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga m.a. í Museum of Contemporary Art í Chicago, STUX Gallery í New York, Hafnarborg, Nýlistasafninu í Reykjavík, Evanston Art Center og á Peking-bíennalnum.
Sýningin í Listasafni ASÍ er áttunda einkasýning Önnu. Hún býr og starfar í Chicago í Bandaríkjunum.
Ljósmyndir: Vigfús Birgisson