Anna Jóelsdóttir

BROT / FRAGMENT, FRACTURE, FOLD, VIOLATION

12. apríl 2014 til 18. maí 2014

Stórar hálfgegnsæjar arkir, málaðar á báðar hliðar, sveigðar, beygðar og mótaðar í skúlptúra, málverk á striga og harmonikkubækur umbreyta Ásmundarsal í rými þar sem hugmyndir, reynsla og saga flæða, belgjast og brotna á vírum, rekast á veggi, eru stundum klippt niður og sett saman aftur, ofin eða heft.
Verkin og myndmálið eiga rætur í persónulegri reynslu, listasögu, sem og túlkun á uppbrotinni og tættri tilveru. Þau eru einnig birtingarmynd þess hvernig persónuleg saga verður til í samspili skilnings og misskilnings í mannlegum samskiptum.
www.annajoelsdottir.com


Úr grein eftir Terry R. Myers

Það kom mér ekki á óvart að Anna Jóelsdóttir skyldi velja íslenskan titil á sýningu sína – orðið brot sem má skilja á ýmsa vegu. Ég hef þekkt til verka hennar í nær fimmtán ár og alltaf undrast hvernig hún getur búið til svo sérstök og ólík verk og hve einbeitt hún er í nálgun sinni. Ef ég orða þetta á annan hátt, þá hef ég aldrei átt í vandræðum með að þekkja verk hennar, en ég veit að ég get ekki búist við að upplifa þau á sama hátt og síðast.

Verk Önnu eru aldrei einhlít. Þau eru opin fyrir margræðni – bæði hvað varðar efni og hugmyndir – og það gerir þau svo sannfærandi. „Brot“ getur merkt hluti eins og brot úr blaði, eða brot sem verður þegar brotið er á einhverjum. Anna fellir öll þessi merkingarsvið inn í list sína, hvort sem er í litríkum og smágerðum netum sem hún teiknar á striga eða á Mylar-flöt, eða í hvítum og hálfgegnsæjum umgjörðum sem hún býr verkum sínum og notaðar eru til að skipuleggja heilar innsetningar.

Þessi tvískipta nálgun – hið smáa og hið stóra, micro og macro – tengir verk hennar við listamenn eins og Julie Mehretu og Matthew Ritchie, en slíkur samanburður nær aðeins yfir útlit og áferð, en ekki þá sérstöku framsetningu á „veruleikanum“ sem einkenna verk Önnu. Það sem aðgreinir þau er hvernig þau virðast alltaf vera á hreyfingu, síbreytileg.

Stóran þátt í því leikur notkun hennar á Mylar-efni sem fangar ljósið og breytir því í innsetningum þar sem rýmið sjálft verður órjúfanlegur hluti af verkinu. Þess vegna kom mér á óvart að sjá verkið Svart. Við fyrstu sýn var það ólíkt nokkru sem ég hafði áður séð frá Önnu – svart, lokað, drekkti í sig birtunni. En þegar maður skoðar nánar opnast flókin innviði þess, sem draga mann inn í verkið.

Þannig heldur Anna hugsun sinni opinni fyrir okkur – og það er hluti af krafti verka hennar. Hún á meira sameiginlegt með listamönnum á borð við Polly Apfelbaum, Mary Heilmann og Amy Sillman en útlitið eitt segir til um. Líkt og þau kannar hún sífellt rýmið á milli hins abstrakta og hlutbundna, á milli skerpu og óljósleika, og fyllir upp í tómarúm til að skapa merkingu og opna tengingar.

Terry R. Myers er gagnrýnandi og sjálfstætt starfandi sýningarstjóri í Chicago og Los Angeles. Hann er prófessor í málverki og teikningu við Art Institute of Chicago, höfundur bókarinnar Mary Heilmann: Save the Last Dance for Me (2007) og ritstjóri bókarinnar Painting: Documents of Contemporary Art (2011).
Þýðing: Jón Proppé

Previous
Previous

Birgir Snæbjörn Birgisson – LADIES, BEAUTIFUL LADIES

Next
Next

Anna Líndal – KORTLAGNING HVERFULLEIKANS