
Bjarki Bragason
SAMTÍMIS / SYNCHRONOUS
á Höfn í Hornafirði – 15.05.21-30.06.21
Sýningin, sem haldin er í samvinnu við Svavarssafn á Höfn í Hornafirði, fjallar um skörun á jarðsögulegum og mennskum tíma. Rannsóknarferlið hefur snúist um speglun á tveimur trjám frá ólíkum tímum og stöðum. Í verkunum á sýningunni birtast trjáleifar sem fundust við rætur Breiðamerkurjökuls og hafa verið grafnar í jarðvegi þar í um þrjú þúsund ár og leifar af fornu tré í Sagehen skóginum í Sierra Nevada fjöllum Kaliforníu. Bjarki hefur í rannsókn sinni átt samtal við einstaklinga í ólíkum fögum á borð við jarðfræði, líffræði og fornleifafræði og tekið þátt í leiðangri á vegum Náttúrustofu Suðausturlands og átt vinnustofudvöl við Sagehen Creek Field Station, hluta af Kaliforníuháskóla í Berkeley í rannsóknarskóginum í Sagehen. Bjarki Bragason er fæddur í Reykjavík 1983, lærði myndlist við RCN United World College í Noregi, Listaháskóla Íslands, Universität der Künste í Berlín og lauk framhaldsnámi við CalArts í LA. 2008 hlaut Bjarki styrk úr sjóði Guðmundu Andrésdóttur og síðar Lovelace Scholarship frá CalArts og fyrstu verðlaun Listasjóðs Dungals. Hann hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar alþjóðlega. Verk hans eru m.a. í safneign Listasafns ASÍ, Nýlistasafnsins, Listasafns Íslands, Gerðarsafns, stofnana og einkasafna á Íslandi og erlendis. Á meðal einkasýninga má nefna Past Understandings í Listasögusafni Vínarborgar, Desire Ruin í Náttúrufræðisafni Vínarborgar, The Sea við Schildt Stofnunina í Finnlandi og Hluti af hluta af hluta í Listasafni ASÍ 2012.






Úr sýningarskrá:
Maðurinn æðir áfram og hleypur við fót, hann þarf að ná sem flestu á meðan færi gefst. Oft virðist mannsævin svo óendanlega stutt. En í augnablikinu
má fanga yfirgripsmikil tímabil — í litlum hlutum leynist fróðleikur um stóra viðburði. Sandur sem sáldrast úr þrjúþúsund ára viðarbút, hvaðan kemur hann? Lítill steinn sem merst inn í viðinn, hvernig gerðist það? Andartak sem fangar þúsund ára sögu. Meðalævilengd manns er innan við hundrað ár. Venjuleg manneskja er minna en tveir metrar á hæð og þegar hún breiðir út faðminn þá er hann ekki mikið stærri. Hugur mannsins rúmar hins vegar ótrúlegustu víddir og þangað má leita til að bæta sér upp það sem á vantar í efnisheimum. Margvíslegar vísbendingar um þróun lífs geta rúmast í trjábút sem hægt er að bera í fanginu, en það getur reynst erfitt að ná utanum staðreyndir og stærðir sem þessi hlutur ber með sér. Þúsundir ára, tugþúsundir ára, milljónir ára. Þá getur verið ágætt að eiga sér haldreipi, mælistiku sem hægt er að miða allt við, eitthvað áþreifanlegt og nærtækt; máta sjálfan sig við þessa sögu í von um að öðlast meiri skilning. Jökull skríður fram og jökull hopar. Skógur vex og skógur fellur. Sumt gerist hratt, annað á löngum tíma og eftir verður mar hér og þar, ummerki sem geyma vitneskju um eitthvað sem gerðist. Sviðsmyndir eru kallaðar fram og atburðir taka á sig skiljanlegri form. Getur verið að endamörk alheimsins séu við húðina — og miðjan þar sem þú stendur?
Elísabet Gunnarsdóttir,
Sýningarstjóri