Una Björg Magnúsdóttir
SVIKULL SILFURLJÓMI
Í Samkomuhúsinu í Súðavík – apríl 2023 / Í Mosfellsbæ – okt 2023
Una Björg Magnúsdóttir er fjórði listamaðurinn sem velst til þátttöku í sýningaröð Listasafns ASÍ þar sem skipulagðar eru einkasýningar valinna listamanna á tveimur stöðum á landinu.
Sýning Unu Svikull silfurljómi var sett upp í Súðavík og Mosfellsbæ. Una Björg valdi sýningarrýmin af kostgæfni og leyfir verkunum á sýningunni að spretta fram sem einhvers konar viðbragð við því sem í rýminu felst. Fyrri einkasýning Unu var haldin í samvinnu við Samkomuhúsið í Súðavík og seinni sýningin er haldin í einbýlishúsi sem nú er í byggingu við Kvíslartungu 28 í Mosfellsbæ.
Sýningin Svikull silfurljómi birtist okkur í rými sem er algerlega nýtt, skuggalaust í þeim skilningi að hér hefur ekkert gerst áður. Horn hússins eru enn skörp en munu mýkjast og rúnast í fyllingu tímans. Á sýningunni eru höggmyndir og myndverk sem bregðast ýmist beint við rýminu eða velta upp spurningum um tíma, gildismat, eftirlíkingar, speglanir og leiðir til að falla inn í umhverfi sitt. Grænt handrið ber með sér óljósa minningu um samkomuhús í Súðavík, minningu sem erfitt er að henda reiður á, hún hangir rétt utan seilingar.
Hlutverk rauða litarins er að standa vörð um eldmóð og ástríðu.
Önnur verk sýningarinnar eru í hógværum eftirhermuleik, teningaborg, eldspýtnabréf, og stafli af silkipappír. Einfaldar einingar sem hver af annarri raðast saman. Þær herma hver eftir annarri á víxl þannig að erfitt er að greina hver hóf leikinn og hver speglar hverja. Með tíma og hægum breytingum mást út sérkenni hverrar um sig og til verður samfella, kannski felumynd.
Grár skuggi leitast við að öðlast lit, lögun, áferð og massa. Litlaus liðast hann um, hátt upp eftir veggjum og niður eftir gólfi. Horn eru ákjósanlegust. En grár er ekki litlaus, ekki í raun, litir ljóma í gráu.
Þessi sýning verður alltaf fyrsta lag hússins, á undan svefnlausum nóttum, hrúgum af þvotti og fermingarveislum. Brátt kemur innrétting, gólfefni, heimilistæki og aðrar nauðsynjar til að skapa heimili. Hér var aldrei sýning.


















Doppelgaenger
Hvað gerist ef listamaður heldur sýningu, sýningar, tvær eða eina, aftur eða ekki. Hvað gerist ef sýning á sér spegilmynd, sem getur ekki verið eins og hin, má ekki, eða á ekki að vera eins, því þá væri ekkert líf eftir, það hefði þurrkast út á leiðinni. Á hálfs árs leið. Á hér um bil akkúrat hundraðogníutíu dögum og nokkrum sekúndum til eða frá.
Á þessari leið þar sem hugsunin og verkin fá að liggja í dvala einhversstaðar í undirdjúpum til þess að fá að stækka og minnka í fjölbreyttar áttir. Hver veit hvað gerist þá, akkúrat þá, á hverju augnabliki í þessu þá. Þegar verkin eru í felum í púpu. Púpu sem er þéttofin hugsunum sem ekki eru sagðar upphátt, því þá gætu þær horfið, allar horfið. En fínu silkiþræðirnir verða að efni hér og nú og svolítið síðar. Silkimjúkur flauelsfaðmur úr nælontrefjum. Sem teygir sig til baka hundraðogníutíu skref og breytir umfangi og lögun og frelsar skugga að hætti Péturs Pan. Rauði liturinn kjarnar sig í teningi. Það er nákvæmlega það sem gerist og margt fleira.
Dorothée Kirch









Tveir staðir – tvö rými.
Á báðum stöðum er hugsunin sú sama. Í báðum rýmum er leikið með sömu hugmyndir sem framkalla svipaðar tilfinningar.
Engu að síður eru þetta tveir heimar, svo ólíkir en samt svo áþekkir. Ósýnilegir og áþreifanlegir í senn.
Hlutirnir segja óræða sögu — eða segja kannski enga sögu heldur kalla fram nýjar.
Þú ert leiddur í gegn, fylgdin er óáþreifanleg. Það er ekkert að óttast, því þér er fylgt þó þú verðir varla var við það. Þú ert upptekinn við annað. Þér er gefið fullt frelsi til að taka eftir, en veist ekki hvort þú ert að nota það rétt.
Munnurinn opnast aðeins. Það tekur á að veita eftirtekt. Það þarf að hafa fyrir því að verða hissa. Þú er undrandi og þögull, en bara til að byrja með. Síðan gengur þú þegjandi í burtu. Teslan bíður fyrir utan. Þú fyllir hana af árunni sem vafðist um þig á meðan þú varst inni. Og hún fer með þig annað.
Síðar finnur þú þörfina til að segja frá, segir það öllum sem vilja hlusta. Þeim sem kunna að hlusta á annað borð. Og þeir draga til sín andrúmsloftið sem þú lýsir, soga til sín upplifunina, og gera kannski að sinni.
Elísabet Gunnarsdóttir