Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson
Feral Attraction:
The Museum of Ghost Ruminants
05. febrúar 2016 – 28. febrúar 2016
Sýning Bryndísar og Marks leggur út frá athugunum þeirra og gagnasöfnun sem varðar tengsl mannlegra og ómannlegra vera við tiltekið umhverfi. Þau velta fyrir sér hvernig þessi tengsl myndast og hvort þau endurspeglist í landslaginu sjálfu. Í þessu verkefni einbeita Bryndís og Mark sér að Lambeyrarhálsi og fjallinu Tálkna milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar.
Þau hafa skoðað sérstaklega hóp kinda sem tók sér bólfestu á fjallinu í þrjá áratugi en var að lokum smalað saman og slátrað í lok ársins 2009 og byrjun ársins 2010. Spurningar um tilverurétt dýra og hvað liggur á bak við lög og reglur settar fyrir mismunandi dýrategundir leiða rannsókn þeirra.
Með sýningunni í Listasafni ASÍ vilja þau skapa m.a. umræðu um flokkunarkerfi mannsins þar sem sum dýr teljast villt, önnur búfénaður og enn önnur gæludýr. Í framhaldi af því vilja þau skoða tengsl milli þessara dýra og þess umhverfis sem þau velja sér, svo og hvernig samskipti okkar mannanna við þessi dýr mótast af þessari hugmyndafræði.
Snæbjörnsdóttir / Wilson
Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson vinna saman að myndlistarverkum sem oftast eru samfélags- og rannsóknartengd og kanna þætti í sögu, menningu og umhverfi jafnt hjá mönnum sem dýrum.
Listaverk þeirra hafa verið sýnd á alþjóðavettvangi og þau hafa flutt erindi á lykilráðstefnum innan síns sérsviðs víða um heim. Eitt af verkum þeirra, nanoq: flat out and bluesome – könnun á uppstoppuðum ísbjörnum á Bretlandseyjum – hefur ferðast víða um Evrópu og er nú, ásamt öðrum gögnum tilheyrandi þróun verkefnisins, hluti af alþjóðlegri safnaeign.
Uncertainty in the City, sem sýnt var í Storey Gallery í Lancaster (2010), vinnur með hugmyndir mannsins um meindýr, og kom bók með sama nafni út hjá Green Box í Berlín (2011). Vanishing Point: Where Species Meet var hluti af Gautaborgar-tvíæringnum (2011) og var einnig sýnt í State Darwin Museum í Moskvu í tengslum við 5. Moskvu-tvíæringinn (2013). between you and me var sýnt í Kalmar Listasafninu í Svíþjóð (2010) og á Interactive Futures ’11: Animal Influence í Vancouver (2011).
Á vegum Global Institute for Sustainability við Arizona State University unnu þau verkefni sem leiddi til einkasýningarinnar Trout Fishing in America and Other Stories í ASU Museum of Art (2014) og útgáfu bókarinnar You Must Carry Me Now: the Cultural Lives of Endangered Species (2015).
Bryndís og Mark vinna einnig með Anchorage Museum í Alaska sem hluti af Polarlab-verkefninu og munu taka þátt í sýningunni A View from Up Here í maí 2016. Ennfremur vinna þau að þriggja ára þverfaglegu verkefni um „Plant Blindness“, sem stutt er af Sænska vísindaráðinu og mun leiða til tveggja site-specific innsetninga í Gautaborg 2016–2017.
Þau skrifuðu einnig kaflann Feral Attraction – Art, Becoming and Erasure í Handbook of Animal Studies, sem kom út hjá Routledge (2014). Þau voru Research Fellows hjá Centre for Art + Environment, Nevada Museum of Art (2013–2015). Mark er prófessor við University of Cumbria og Bryndís er prófessor við Malmö Art Academy, gestaprófessor við Listaháskóla Íslands og gestakennari við Háskóla Íslands.
Upplýsingar um verk þeirra má finna á:
www.snaebjornsdottirwilson.com
www.radioanimal.org