Hulda Rós Guðnadóttir
KEEP FROZEN
4. HLUTI
05. febrúar 2016 – 28. febrúar 2016
Í tilefni af opnun einkasýningar Huldu Rósar Guðnadóttur í Ásmundarsal Listasafns ASÍ munu löndunarmenn úr Reykjavíkurhöfn flytja gjörning á Safnanótt sem nær frá höfninni, í gegnum miðbæinn og alla leið upp á hæðina í safnið. Þeir verða áberandi í vinnugöllunum sínum og gestum Safnanætur er boðið að fylgja löndunarmönnunum frá Grandabryggju, þar sem þeir hefja göngu kl. 19, og upp í safn.
Undir vaskri verkstjórn Sigga verkstjóra og Svavars, eiganda Löndunar ehf., mun stór hópur löndunarmanna bera tæplega eins tonna þungt net frá bakkanum upp í safn og koma því þar fyrir sem fundnum skúlptúr af sjávarbotni. Netið fannst nýlega eftir að hafa slitnað af frystitogaranum Vigra og velkst um í sjónum í heilt ár.
Sýningin er fjórði hluti af Keep Frozen-sýningarröð listamannsins. Um þessar mundir er þriðji hlutinn til sýnis í 500 m² sýningarrými Kunstkraftwerk í Leipzig, Þýskalandi, þar sem löndunarmenn stigu í skó listamanna og fluttu 48 tíma gjörning í janúar við miklar vinsældir gesta frá Leipzig og Berlín. Í tilefni af gjörningnum á Safnanótt kemur blaðamaður frá þýska ríkisútvarpinu til landsins; gert er ráð fyrir klukkutíma löngum útvarpsþætti um Keep Frozen-verkið í þýska menningarútvarpinu.
Gjörningurinn er gerður mögulegur fyrir góðvilja og stuðning frá Löndun ehf. og Ögurvík ehf., ásamt styrkjum frá Myndlistarsjóði, Nordic Culture Fund og Nordic Culture Point.
KEEP FROZEN 4. hluti er innsetning í blandaða miðla og samstarfsgjörningur sem unninn er af Huldu Rós Guðnadóttur. Verkið byggir á hugleiðingum um sögu Ásmundarsals sem sýningarstaðar fyrir málverk og sögu safnsins sjálfs sem málverkasafns í eigu verkamanna. Alþýðusamband Íslands fagnar 100 ára afmæli árið 2016 og þar sem safnið er í eigu sambandsins er verkið framsett og unnið í samstarfi við verkamenn í Reykjavíkurhöfn, sem sjálf átti aldarafmæli árið 2015. Í sýningunni sameinast þættir úr fyrri sýningum í röðinni.
Á svæði útgerðarfélagsins Ögurvíkur í Reykjavíkurhöfn liggur nokkurra tonna hrúga af netum og bobbingum sem var endurheimt eftir ársdvöl á sjávarbotni. Netið tilheyrði áður frystitogaranum Vigra og missti skipið það á sama tíma og tökur á heimildarmyndinni Keep Frozen stóðu yfir veturinn 2014. Myndin fjallar um löndun úr Vigra. Næstum upp á dag ári síðar fann annað skip netið fyrir tilviljun. Litir þess og áferð hafa breyst vegna ágangs sjávar.
Á fyrstu sýningu Keep Frozen-röðarinnar í De-Construkt Projects í New York sýndi Hulda litlar netataugur sem hún fann á Atlantshafsströnd Afríku. Mikið af slíkum taugum rekur þar á land eftir að hafa slitnað af netum eða skolast af bryggjum víðs vegar um heiminn. Með því að sýna heilt net, mörg tonn að þyngd, lokast ákveðinn hringur í pælingum listamannsins.
Fyrir opnun sýningarinnar fer fram gjörningur þar sem hrúgan verður flutt af löndunarmönnum frá höfninni, í gegnum bæinn og upp í safnið, þar sem hún öðlast nýja merkingu sem fundinn skúlptúr endurheimtur af sjávarbotni.
Á annarri sýningu Keep Frozen-röðarinnar á Listahátíð í Reykjavík 2014 kynnti Hulda hugmyndir sínar um listamanninn sem verkamann og verkamanninn sem listamann. Þar sýndi hún ljósmyndaraðir þar sem hún mátar sig við hreyfingar verkamanna, á meðan hafnarverkamenn fluttu ljóðagjörning á opnun.
Í Listasafni ASÍ er gengið enn lengra: Hulda pantaði röð málverka af Slippnum í Reykjavík þar sem litir og áferð skipsmálningar voru í forgrunni. Tilviljun réði því að listmálari, David Subhi, starfaði sem verkamaður í Slippnum og málaði verkin á vinnutíma sínum. Með samstarfinu lokast annar hringur í hugleiðingum listamannsins um verkamanninn og listamanninn.
Í innsetningunni í Ásmundarsal tekur Hulda einnig upp þráðinn frá vídeóverkinu Material Puffin (Listahátíð 2014), þar sem listamaðurinn í lundagrímu spúir gulli í höfnina. Þar verður í fyrsta sinn sýndur nýr skúlptúr sem vísar beint í það verk. Fagurfræði hafnarinnar tengist baráttunni við ryð, sem sprettur af samspili sjávar og málma skipa og hafnarmannvirkja. Skúlptúrinn vísar í hugleiðingar Allan Sekula um að ef skip væru úr gulli þyrfti ekki að mála þau – sem myndi umturna ásýnd hafna og því hlutverki sem þær hafa í ímynd okkar.
Keep Frozen er langtíma rannsóknarverkefni sem Hulda Rós hefur unnið að frá 2010. Hluti af því er sýningarsería sem hófst með Keep Frozen Part Zero, eins rásar myndbandsverki sem hefur ferðast víða. Árið 2013 sýndi hún Part One í De-Construkt Projects, New York. Part Two var sýnt í Gallerí Þoku á Listahátíð í Reykjavík 2014 og Part Three í fyrrum orkuveri í Leipzig í janúar–febrúar 2016, þar sem gjörningur löndunarmanna var endurvarpaður sem þriggja rása myndbandsinnsetning.
Á sama tíma er unnið að heimildarmyndinni Keep Frozen og bókinni Keep Frozen – Art Practice as Research. The Artist’s View, sem kom út 2015. Hún sameinar greinar eftir listamenn, heimspekinga og sýningarstjóra, niðurstöður áhorfendarannsókna og viðtal við listamanninn sjálfan.
Sýningin er hluti af Keep Frozen Projects – nánar á www.keepfrozenprojects.org.
Hulda Rós Guðnadóttir er fædd í Reykjavík en hefur búið víða – í Danmörku, Bandaríkjunum, Slóvakíu, Bretlandi og nú í Berlín. Hún lauk BA-prófi í mannfræði við Háskóla Íslands (1997), MA-námi í gagnvirkri hönnun og BA-prófi í myndlist við Listaháskóla Íslands. Hún hlaut Edduverðlaunin 2008 fyrir heimildarmyndina Kjötborg og hefur haldið einkasýningar í Berlín, Barcelona, New York og víðar, auk þátttöku í fjölda samsýninga og kvikmyndahátíða. Hún vinnur aðallega með kvikmyndun, innsetningar, skúlptúra, gjörninga og inngrip í verk sem fjalla um félags- og efnahagsleg málefni út frá persónulegu sjónarhorni.