Helgi Þorgils og Eggert Pétursson

GENGIÐ Í BJÖRG

09. apríl 2016 – 08. maí 2016

Laugardaginn 30. apríl kl. 14:00 munu listamennirnir leiða gesti í gegnum sýninguna Gengið í björg. Þeir eru þekktir fyrir verk sín en á sýningunni í Listasafni ASÍ eru málverk og teikningar sem þeir hafa unnið saman, auk innsetningar í rými Gryfjunnar.

Hugmyndin að sýningunni, sem þeir nefna Gengið í björg, tengdist upprunalega bókaútgáfu og kviknaði þegar þeir félagar sýndu saman í Salzburg árið 2005. Bókin er nú orðin að veruleika og í henni eru ljósmyndir af öllum verkum sýningarinnar. Guðmundur Ingi Úlfarsson er hönnuður og útgefandi er Crymogea.

ÚR VÍÐSJÁ: http://www.ruv.is/frett/gengid-i-bjorg-0

Eggert Pétursson og Helgi Þorgils Friðjónsson

Ganga í björg

og setjast í helgan stein.

Vera bergnuminn og ganga í klaustur. Með einhverjum hætti getur þetta verið af sama meiði – umbreyting frá hinu hversdagslega yfir í aðra, óskilgreinanlega vídd.

Leysergeisli er sendur inn í vél. Ljós leysergeislans er klofið í tvennt og fer inn í tvö göng. Geislarnir endurkastast af speglum. Þeir sameinast á ný og fara yfir nemann, sem greinir örsmáar breytingar sem orðið hafa á ljósgeislunum – merki um áhrif þyngdarbylgna. Samruni þyngdarbylgja frá tveimur svartholum.

Hugmyndir Einsteins efnisgerast í hljóði. Nýtt líf verður til í svartholinu.

Mochizuki er heimsfrægur stærðfræðisnillingur sem hefur sett fram nýjar, flóknar kenningar í stærðfræði sem enginn skilur. Enginn stærðfræðingur treystir sér til að afsanna kenningar hans – það tæki áratugi að fara í gegnum útreikningana.

Albert Einstein og Charlie Chaplin hittust og ræddu saman.
Albert segir:
„Mér þykir aðdáunarvert við list þína að hún nær til alls heimsins. Þú segir ekki orð, og alheimurinn skilur þig.“
Charlie segir:
„Satt segir þú – það er undarlegt. En frægð þín er enn stórfenglegri. Allur heimurinn dáir þig, þó enginn skilji hvað þú segir.“

Hugmyndatilvistin getur verið nokkuð erfið viðureignar. Enginn efast um snilld Mochizuki, þó kenningar hans séu svo flóknar að jafnvel fremstu stærðfræðingar nái ekki að reikna þær til enda.

Gamansagan af Einstein og Chaplin segir líka frá bilinu milli hugmyndanna – óskilgreindri fegurð sem maður skilur ekki, en skynjar samt. Sama má segja um þessa menn og rýmið á milli þeirra.

Fyrsta bíómyndin sem ég sá var í Barnaskólanum í Búðardal, sýnd á lítilli farandkvikmyndavél. Spólurnar snerust ofan á vélinni eins og eyru á Mikka Mús. Ætli þetta hafi ekki verið stuttmynd? Gög og Gokke voru að flytja píanó upp stiga. Ég veit ekki lengdina, en í samræmi við lögmál gamanmynda runnu þeir á rassinn og misstu píanóið – eða voru við það – líklega með fallega konu í kring og feita eigandann sem olli sífelldum vandræðum. Okkur börnunum þótti þetta sérkennilegt og fyndið.

Við vorum fjögur jafnaldrar í Búðardal á þeim tíma, tveir strákar og tvær stelpur. Þorpið var örlítið, lækur rann eftir miðju þess til sjávar – sem við kölluðum Skítalæk. Í „fínu“ tali var hann kallaður Fúlilækur. Nýlega komst ég að því að hann hefur alltaf haft allt annað nafn, en ég hef gleymt því. Lækurinn liðast nú fram hjá tjaldstæðinu með litilli bogabrú yfir, umkringdur trjám. Nafngiftin hefur líklega tengst því að frárennsli þorpsins rann í hann. Við jafnaldrarnir höfum ekki hist síðan, en ég velti fyrir mér hvort sú mynd sem við sáum saman – Gög og Gokke – hafi skapað einhvern sameiginlegan þráð, þótt lífið hafi flutt okkur í sitthvora áttina.

Við Eggert sýndum saman í Galerie der Stadt Salzburg im Mirabellgarten árið 2005. Þá datt okkur í hug að gera bókverk með sýningunni. Það náðist ekki í tæka tíð, en við héldum hugmyndinni til streitu. Við byrjuðum á myndhugmynd á pappír hvor í sínu lagi og létum svo hinn halda áfram. Pappírinn fór fram og til baka þar til við sögðum stopp. Oftast var þetta 2–3 umferðir. Fyrstu verkin voru varfærin, en þróuðust svo í ýmsar áttir þar til við setjum punkt við myndröðina 2015.

Hægt er að líkja þessu við súrrealíska leiki 1930-áranna, þar sem einn listamaður teiknaði og annar hélt áfram, án þess að sjá nema endalínur. Eða blekslettur dadaista. Það fingrafar sem myndaðist á milli og innan línanna varð að þriðja listamanninum – óútreiknanlegum, ef maður hugsar um listamennina hvorn í sínu lagi. Maðurinn í bilinu milli Alberts og Charlie, milli Venusar frá Willendorf og persóna Giacomettis, eða áhorfandans sem hlær að feita og mjóa manninum sem velta sífellt niður stiga með píanó.

Ég man að tónarnir í bíóinu voru eins og úr umbreyttu píanói John Cage þegar það valt til og frá og stoppaði á stigaskör. Líklega var myndin hljóðlaus og einhver tónsnillingur eða hugvitsamur handverksmaður bjó til hljóð með dóti úr leikfangakassa umhverfisins. Farvegi alls.

Þennan texta myndskreytti ég með þremur ljósmyndum og samtali tveggja ókunnugra manna í heita potti Sundhallarinnar í Reykjavík. Ljósmyndirnar voru teknar á göngu minni upp Laugaveg á vinnustofuna að morgni jóladags 2015. Það eru um 200 metrar á milli mynda og 200 metrar frá Bónus upp í Sundhöllina.

Fyrsta mynd:
Miðborgin okkar. Velkomin.

Önnur mynd:
Bekkur fyrir vegfarendur, stöðumælir og ruslafata.

Þriðja mynd:
Hvíldarbekkur fyrir framan Bónus.

Ég var einn í heita pottinum. Það var frost og mikill gufumökkur steig upp. Tveir nokkuð þéttholda menn komu og settust út í horn. Ég þekkti þá ekki. Venjulega þekki ég alla sem koma á sama tíma og ég í laugina.

„Hvernig finnst þér nafnið?“ spurði annar. Ég greindi rétt í útlínur mannanna.
„Ágætt,“ sagði hinn.
Sá sem spurði horfði á hann og gaf honum tíma til að klára setninguna.
„Það væri gott sem annað nafn,“ bætti hann við.
„Mér fannst það gott,“ sagði sá sem spurði fyrst.
„Er það í fjölskyldunni?“
„Nei, ég hef aldrei heyrt þetta nafn áður.“

Svo töluðu þeir um almenn málefni. Ég heyrði aldrei nafnið. En ég áttaði mig á að orðin „gott“ og „ágætt“ höfðu skipt um merkingu.

Helgi Þorgils Friðjónsson

Previous
Previous

John Zurier & Hreinn Friðfinnsson EINU SINNI NÁGRANNAR

Next
Next

100 ára afmæli ASÍ