Hulda Vilhjálmsdóttir og Marta María Jónsdóttir

ROÐI, STROKUR, ANDRÁ

09. janúar 2016 – 31. janúr 2016

Sýningin samanstendur af nýjum málverkum og teikningum.

Verkin eru margs konar: ágeng, kvenleg, glaðleg, fíngerð, berskjölduð, nostalgísk, ljóðræn, einlæg, vísindaleg, barnsleg. Einnig fléttast inn: heimspeki, bókmenntir, táknfræði, náttúrufræði, jarðfræði, geometría, formfræði og litafræði. Verkin eru full af gleði og leik í leit að jafnvægi og fegurð. Listamennirnir hafa áhuga á yfirborðinu og því sem býr undir. Verkin varpa fram spurningum um kynjapólitík og málverkið, og litir skipa þar stóran sess og tengja þau. Hulda og Marta María takast á við málverkið hvor á sinn persónulega hátt.

Að mála málverk getur verið óttablandin ánægja. Listmálarinn stendur frammi fyrir tómum striga, hráum eða hvítgrunnum. Hann veit að fram undan er glíma – og kannski átök. Sumir myndu segja að hann ræðist á strigann með málningu og pensli að vopni og takist þannig á við hefðina, litina og efnið. En í raun glímir hann bara við sjálfan sig. Hann hefur löngun eða þrá til að formgera það sem ekki verður sagt með orðum, en er samt í stöðugu samtali við málverkið sem hann vinnur að. Hann horfir, spyr og hlustar.

Þegar bandaríski listmálarinn Agnes Martin var spurð hvernig hún byrjaði á málverki, svaraði hún: „Ég bið um innblástur.“
Samkvæmt viðhorfi hennar er listmálarinn í þjónustu málverksins og honum ber að lúta vilja litarins og efnisins – ekki öfugt. Hann biður málverkið um að veita sér innblástur. Hann leitar ekki formrænnar fullkomnunar: „Málverk eru gerð af manneskjum; manneskjur gera mistök; ergo, í málverkum eru mistök.“ Ef einhver fullkomnun er að finna, felst hún í uppgjöfinni fyrir málverkinu, því hún veitir „frelsi“ – það sem hún sagði jafnframt vera æðsta markmið listamannsins: að upplifa þessa tímalausu sælu þegar hugurinn er gersamlega fylginn málverkinu og er frjáls.

Frjáls hugur er óþekkur hugur. Hann ögrar takmörkum og brýtur reglur. Þannig kemur hann sífellt á óvart en stuðlar jafnframt að þekkingu og þroska listamannsins. Samkvæmt Agnes Martin öðlast listamaðurinn þekkingu og þroska með því að gefast upp fyrir málverkinu. Samlandi hennar, Robert Irwin, vill hins vegar meina að þekking og þroski komi til vegna þess að listamaðurinn horfir ætíð í mistökin í málverkinu. Það sem honum finnst nýlokið málverk sitt skorta verður viðfangsefni hans í næsta verki. Þannig nálgast hann hvert nýtt málverk út frá skorti og byrjar á því að mála mistökin sín.

Kannski er þetta ástæðan fyrir því að listamenn ganga í gegnum ólík tímabil og leggja áherslu á ákveðið þema – til að rannsaka eitthvað eitt umfram annað í málverki. Stundum er það litur eða form, kannski ákveðin tegund af pensilskrift, tækni eða áferð. Í verkum Huldu Vilhjálmsdóttur og Mörtu Maríu Jónsdóttur á sýningunni Roði, strokur, andrá í Listasafni ASÍ er það línan.

Leiðir Huldu og Mörtu hafa áður legið saman. Þær hófu nám á sama tíma í listmálunardeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands og deildu um árabil vinnustofu á Granda. Þær vönust því að sjá verk sín hanga saman á veggjum vinnustofunnar – þrátt fyrir að vera ólíkir málarar. Hulda sækir í hispursleysi tjáningarstílsins með kvika nálgun og grófa áferð. Málverk Mörtu má aftur á móti rekja til geometrískrar skipanar abstraktlistar, sem birtist í fáguðum en sjálfráðum lýrískum mínimalisma.

Leið Huldu að striganum liggur frá línuteikningum á pappír, sem hún heimfærir inn í fígúratíft myndmál sem þyrping pensilfara yfir hrjúfa málningu. Marta vinnur einnig á pappír og striga, en notar línuna sem efnislega byggingu myndarinnar – þannig að hún virkar ekki sem teikning ofan á, heldur sem stoðir málverksins.

Línan er eins og þráðurinn á milli málverka þeirra. Tætt, gróf, fín, hvöss, bogin eða bein kortleggur hún ferðalag þeirra frá einum fleti til annars. Við getum samsamað okkur innri átökum þeirra um hefðina, litina og formin – þrána til að formgera það sem ekki verður sagt með orðum – og, ef við fylgjum henni gaumgæfilega, snert á þessari tímalausu sælu þegar þær hafa gefist upp fyrir málverkinu.

Jón B. K. Ransu

Hulda Vilhjálmsdóttir og Marta María Jónsdóttir  ROÐI, STROKUR, ANDRÁ
Previous
Previous

Anne Herz L’ILE INFERNALE - VÍTISEYJAN

Next
Next

Bryndís H. Ragnarsdóttir & Gunnþórunn Sveinsdóttir og Sirra Sigrún Sigurðardóttir GÁTTIR – GLEYM MÉR