Kristín Gunnlaugsdóttir

GIMSTEINAR

BIBENDUM 2020-2021 Nesdekk Fiskislóð 30 – 11.12 2020–28.02 2021

,,Mig hefur lengi langað að sýna gullverkin mín á dekkjaverkstæði, einu af helgum véum karlmennskunnar. Lítil verk með 23 kt blaðgulli, unnin með aðferðum hámenningar miðalda þar sem konan var gerð heilög og ósnertanleg. Aðferðin er sú sama en hér eru þau unnin með berorðu myndmáli nútímakonunnar sem setur sig í samhengi og jafnframt spennu við heim karlmannsins. Þarna glittir í aðra veröld innan um tvist, olíur og gúmmídekk í hrjúfu vinnumhverfi. Nektarmyndir á dagatölum hafa lengi verið algeng veggskreyting á karllægum vinnustöðum en sú hefð er sett í annað samhengi þegar verk sem kona gerir um sjálfa sig og kvenlíkamann birtast innan um grófgerð tól og tæki karlasamfélagsins.‘‘

Bibendum-sýningarnar eru ný tegund vinnustaðasýninga hjá Listasafni ASÍ, þ.e. myndlistarsýningar á dekkjaverkstæðum. Sýningarnar eru settar upp í samvinnu við eigendur og starfsmenn viðkomandi dekkjaverkstæðis. Gefin er út póstkorta-sería fyrir hverja sýningu.

Hugmyndin að þessum nýju vinnustaða­sýningum kemur upp­haflega frá starfs­mönnum Lögfræði- og Hagdeilda ASÍ sem vildu víkka út svið vinnustaða­sýninga safnsins og gera tilraun til að ná til breiðari hóps á vinnumarkaði. Þeir töldu myndlistarsýningar á vinnustöðum, sem bjóða starfseminnar vegna upp á tak­markaða möguleika fyrir myndlist, sérstak­­­lega áhugaverðar.

Ljósmyndir: Vigfús Birgisson

Previous
Previous

Hildigunnur Birgisdóttir UNIVERSAL SUGAR

Next
Next

Eygló Harðardóttir VÍSBENDINGAR