Bragi Bragason

Bjarki Bragason er þriðji listamaðurinn í sýningaröð Listasafns ASÍ þar sem skipulagðar eru einkasýningar valinna listamanna víðsvegar á landinu. Sýning hans Samtímis var sett upp á Svavarssafni á Höfn í Hornafirði (2021).

Bjarki Bragason er fæddur í Reykjavík 1983, lærði myndlist við Red Cross Nordic United World College í Noregi, Listaháskóla Íslands, Universität der Künste í Berlín og lauk framhaldsnámi við CalArts í Los Angeles. Árið 2008 hlaut Bjarki styrk úr sjóði Guðmundu Andrésdóttur sem Listasafn Íslands veitir og síðar Lovelace Scholarship frá CalArts til framhaldsnáms auk þess sem hann fékk fyrstu verðlaun Listasjóðs Dungals. Hann hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar alþjóðlega.

Verk hans eru m.a. í safneign Listasafns ASÍ, Nýlistasafnsins, Listasafns Íslands, Gerðarsafns, stofnana og einkasafna á Íslandi og erlendis. Á meðal einkasýninga má nefna Past Understandings í Listasögusafni Vínarborgar, Desire Ruin í Náttúrufræðisafni Vínarborgar, The Sea við Schildt Stofnunina í Tammisaari, Finnlandi og Hluti af hluta af hluta í Listasafni ASÍ árið 2012. Bjarki hefur tekið þátt í samsýningum í Listasafni Íslands, Gerðarsafni, Listasafni Reykjavíkur, Malmö Konsthall, Hverfisgalleríi, Human Resources í Los Angeles, Etagi Projects í St. Pétursborg og St. Paul Street Gallery í Auckland University of Technology og víðar. Verk Bjarka hafa birst í ritum á borð við hið þverfaglega tímarit Distance Plan, Jökli tímariti Jöklarannsóknarfélags Íslands og Jarðfræðifélags Íslands og árið 2018 birtist greinargóð umfjöllun um verk hans í bók Janine Randerson, The Weather as a Medium: Towards a Meteorological Art sem gefin var út af MIT Press.

Bjarki hefur unnið að listrannsóknarverkefnum sjálfstætt og í samstarfi við einstaklinga og stofnanir, þ.á.m. Infinite Next í samstarfi við Önnu Líndal í sambandi við þátttöku þeirra í rannsóknarleiðangri jöklafræðinga á vegum norræna jöklafræðihópsins Svala á Grænlandsjökul. Á síðustu árum hefur Bjarki tekið þátt í þverfaglegu starfi og byggt samtal á milli myndlistar og annara faga þar sem aðferðir hans sem myndlistarmanns eru settar fram sem aðferð til að greina beytingar í umhverfinu og hann hefur haldið erindi á ráðstefnum á borð við Climate Days loftslagsráðstefnunni á Grænlandi, ráðstefnu Landfræðifélagsins og European Geological Union jarðfræðiráðstefnunni í Vínarborg. Hann hefur dvalið í vinnustofum á borð við Helsinki International Artist Programme, Pro Artibus, Schildt Stofnuninni í Grikklandi og Kultur Kontakt í Vínarborg. Bjarki er dósent og fagstjóri við myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

Previous
Previous

Una Björg Magnúsdóttir

Next
Next

Hildigunnur Birgisdóttir